Almennar fréttir
Að þvælast fyrir á háum launum
23. febrúar 2024
Á laugardag birtist Reykjavíkurbréf á síðum Morgunblaðsins þar sem fram komu rangfærslur um Rauða krossinn sem nauðsynlegt er að leiðrétta.

Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í morgun:
Á laugardag birtist Reykjavíkurbréf á síðum Morgunblaðsins þar sem fram komu rangfærslur um Rauða krossinn sem nauðsynlegt er að leiðrétta.
Í bréfinu er því haldið fram að félagið hafi „á sínum snærum fjölda lögfræðinga, á háum launum, við að þvælast fyrir og að gera stjórnvöldum landsins erfitt fyrir að stemma stigu við flóttamannaóreiðunni, sem komin er í fullkomnar ógöngur“.
Þessi staðhæfing á ekki við rök að styðjast.
Ekkert lögfræðingateymi hjá RKÍ
Rauði krossinn á Íslandi rak talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á árunum 2014-2022. Innanríkisráðuneytið, sem síðar varð dómsmálaráðuneytið, fól félaginu þetta verkefni á sínum tíma með samningi um að sinna þessu hlutverki. Félagið réð til sín sérfræðinga sem voru hæfir til að sinna störfum í samræmi við kröfur samningsins, þar með talda lögfræðinga sem fengu greidd þau laun sem rúmuðust innan samnings.
Talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa það hlutverk að gæta réttinda skjólstæðinga sinna gagnvart stjórnvöldum og kveðið er á um slíkt hlutverk í alþjóðlegum sáttmálum. Það var ákvörðun stjórnvalda að færa þessa þjónustu á einn stað en hafa hana ekki hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Þessi ákvörðun var í senn tekin til að draga úr kostnaði og bæta þjónustu.
Í lok árs 2021 tók ráðuneytið þá ákvörðun að endurnýja samninginn ekki og lagðist þjónustan af á vormánuðum 2022. Á sama tíma luku lögfræðingarnir störfum hjá Rauða krossinum og enginn lögfræðingur starfar að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd eða flóttafólks hjá félaginu í dag.
Skrif Morgunblaðsins eru því tilhæfulaus með öllu.
Rauði krossinn á Íslandi nýtur mikils traust og velvilja í samfélaginu og hefur gert í 100 ár. Erfitt er að skilja hvers vegna Morgunblaðið kýs að beita ósannindum til að reyna að sverta ímynd félagsins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
Alþjóðastarf 28. apríl 2025„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“

Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.

„Samfélagið sér framlag okkar og það er mikil hvatning“
Innanlandsstarf 03. apríl 2025Starfið í Eyjafjarðardeild Rauða krossins er á fleygiferð og mikið um að vera, segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri. Aldrei hafi fleiri sjálfboðaliðar starfað hjá deildinni og á síðasta ári.