Almennar fréttir
Að þvælast fyrir á háum launum
23. febrúar 2024
Á laugardag birtist Reykjavíkurbréf á síðum Morgunblaðsins þar sem fram komu rangfærslur um Rauða krossinn sem nauðsynlegt er að leiðrétta.
Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu í morgun:
Á laugardag birtist Reykjavíkurbréf á síðum Morgunblaðsins þar sem fram komu rangfærslur um Rauða krossinn sem nauðsynlegt er að leiðrétta.
Í bréfinu er því haldið fram að félagið hafi „á sínum snærum fjölda lögfræðinga, á háum launum, við að þvælast fyrir og að gera stjórnvöldum landsins erfitt fyrir að stemma stigu við flóttamannaóreiðunni, sem komin er í fullkomnar ógöngur“.
Þessi staðhæfing á ekki við rök að styðjast.
Ekkert lögfræðingateymi hjá RKÍ
Rauði krossinn á Íslandi rak talsmannaþjónustu fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á árunum 2014-2022. Innanríkisráðuneytið, sem síðar varð dómsmálaráðuneytið, fól félaginu þetta verkefni á sínum tíma með samningi um að sinna þessu hlutverki. Félagið réð til sín sérfræðinga sem voru hæfir til að sinna störfum í samræmi við kröfur samningsins, þar með talda lögfræðinga sem fengu greidd þau laun sem rúmuðust innan samnings.
Talsmenn umsækjenda um alþjóðlega vernd hafa það hlutverk að gæta réttinda skjólstæðinga sinna gagnvart stjórnvöldum og kveðið er á um slíkt hlutverk í alþjóðlegum sáttmálum. Það var ákvörðun stjórnvalda að færa þessa þjónustu á einn stað en hafa hana ekki hjá sjálfstætt starfandi lögmönnum. Þessi ákvörðun var í senn tekin til að draga úr kostnaði og bæta þjónustu.
Í lok árs 2021 tók ráðuneytið þá ákvörðun að endurnýja samninginn ekki og lagðist þjónustan af á vormánuðum 2022. Á sama tíma luku lögfræðingarnir störfum hjá Rauða krossinum og enginn lögfræðingur starfar að málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd eða flóttafólks hjá félaginu í dag.
Skrif Morgunblaðsins eru því tilhæfulaus með öllu.
Rauði krossinn á Íslandi nýtur mikils traust og velvilja í samfélaginu og hefur gert í 100 ár. Erfitt er að skilja hvers vegna Morgunblaðið kýs að beita ósannindum til að reyna að sverta ímynd félagsins.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.