Almennar fréttir
Félagsmálaráðuneytið styður við 1717
27. mars 2020
Vegna mikils álags á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið, 1717.is hefur félagsmálaráðuneytið ákveðið að styðja við þjónustuna
Af vef félagsmálaráðuneytisins:
Vegna mikils álags á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið, 1717.is hefur félagsmálaráðuneytið ákveðið að styðja við þjónustuna. Stuðningurinn mun efla Hjálparsímann og netspjallið í að sinna meðal annars fjölskyldum, börnum og ungmennum, fötluðu fólki, öldruðum og fólki af erlendum uppruna á þeim fordæmalausu tímum sem nú eru uppi vegna COVID-19
Hjálparsíminn 1717 og netspjallið 1717.is er opið allan sólarhringinn þar sem þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara þeim símtölum og skilaboðum sem berast. Auk þess að styðja við og efla það starf sem þar er þegar unnið mun félagsmálaráðuneytið tengja Hjálparsímann við aðra aðila sem veita viðkvæmum hópum þjónustu og ráðgjöf, bæði stofnanir og félagasamtök. Starfsfólk Hjálparsímans mun þannig leitast við að greina aðstæður þeirra sem hafa samband, veita þeim hefðbundinn stuðning og vísa þeim á fagaðila sem gætu boðið viðkomandi frekari aðstoð eftir eðli vandans. Sérstök áhersla verður lögð á að efla netspjall Rauða krossins, en það er sú leið sem flest börn og ungmenni nýta til að hafa samband. Markmiðið er að tryggja að greiður aðgangur sé að stuðningi og aðstoð fyrir þá sem það þurfa, vegna álags, streitu, ofbeldis, vanlíðan eða annarra orsaka.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Þegar álag og streita í samfélögum er mikil, leikur stuðningur og ráðgjöf mikilvægt hlutverk. Með þessu samstarfi viljum við að tryggja það að viðkvæmir hópar í samfélaginu fái nauðsynlegan stuðning og þjónustu á þessum óvenjulegu tímum.“
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi: „Við erum þakklát fyrir aukinn stuðning frá félagsmálaráðuneytinu sem gerir okkur kleift að sinna hlutverki okkar enn betur núna og komið til móts við þarfir fólks. Það hefur verið gríðarleg aukning í samtölum sem okkur berast sl. vikur og við höfum fjölgað mjög þeim sem svara í símann. Sjálfboðaliðar hafa brugðist vel við og eru ómetanlegir fyrir okkar starf.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Mannúðaraðstoð að hruni komin á Gaza
Alþjóðastarf 02. maí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir að mannúðaraðstoð í Gaza sé á barmi algjörs hruns eftir tveggja mánaða stöðvun á flutningi birgða til Gaza. Þessi alvarlega staða hefur leitt til þess að íbúar svæðisins eru nú án lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar eins og matar, vatns og lyfja. Skortur á þessum nauðsynjum setur líf hundruða þúsunda íbúa í beina og bráða hættu.

Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
Alþjóðastarf 28. apríl 2025„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“

Sjálfboðaliðastörf eru valdeflandi
Innanlandsstarf 07. apríl 2025Þær eru úrræðagóðar, framtakssamar og lífsglaðar. Sjálfboðaliðar ársins 2024 hjá höfuðborgardeild Rauða krossins kenna ensku, íslensku og heimsækja fólk og nálgast ólík verkefni sín af einstakri fagmennsku.