Almennar fréttir
Langur málsmeðferðartími
10. september 2020
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn áhyggjur af löngum málsmeðferðartíma barnafjölskyldna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn áhyggjur af löngum málsmeðferðartíma barnafjölskyldna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.
Í febrúar á þessu ári komst í hámæli mál pakistanskrar fjölskyldu sem dvalið hafði hér á landi í rúmlega tvö ár. Málið hlaut farsælan endi þegar dómsmálaráðherra gerði breytingu á reglugerð um útlendinga sem felur í sér að þegar ekki hefur fengist niðurstaða í mál hjá Útlendingastofnun og/eða kærunefnd útlendingamála innan 16 mánaða frá umsókn er varðar barn á barnið, og þar með foreldrar þess, rétt á dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Undanfarin ár hafa sambærileg mál barna reglulega komið upp þar sem almenningur hefur mótmælt brottvísunum barnafjölskyldna sem dvalið hafa hér á landi um margra mánaða skeið.
Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að eðlilegast sé að líta til heildardvalartíma umsækjenda þegar tímafrestir málsmeðferðar eru skoðaðir, þ.e. frá því umsókn er lögð fram og þar til viðkomandi yfirgefur landið, en ekki aðeins þess tíma sem mál er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála líkt og fyrrnefnd breyting kvað á um. Umboðsmaður Alþingis vék einnig að þessu í áliti sínu síðla árs 2019
Einn megintilgangurinn með setningu ákvæða um tímafresti er að tryggja umsækjendum ákveðna vernd þegar afgreiðsla umsókna þeirra dregst úr hófi fram. Almennt er fólk sammála um að óhóflegur dráttur á afgreiðslu umsókna sé til þess fallinn að skaða hagsmuni umsækjenda enda augljóst að langvarandi óvissa um framtíðaráform, dvalarstað og öryggi getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu og velferð einstaklinga. Þá er það almennt viðurkennt að þessum sjónarmiðum sé gefið ríkara vægi við ákvarðanatöku er varða börn.
Á meðan ekki er kveðið á um fresti sem miða við dvalartíma hér á landi í lögum um útlendinga munu mál barnafjölskyldna sem hér hafa dvalið um langt skeið án þess að öðlast við það nein réttindi, halda áfram að skjóta upp kollinum, líkt og gerst hefur ítrekað undanfarin ár.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvert og eitt okkar getur skipt sköpum í lífi annarra
Innanlandsstarf 05. desember 2025„Að vera sjálfboðaliði hefur gefið mér tilgang,“ segir Viktoria Weinikke, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. „Það hefur gefið mér samfélag og dýpri tilfinningu fyrir því að tilheyra á Íslandi.“ Hún er frá Úkraínu og hefur verið á Íslandi í að verða tvö ár.
Sjálfboðaliðastörfin hafa víkkað sjóndeildarhringinn
Innanlandsstarf 02. desember 2025Þrátt fyrir ungan aldur hefur Salvör Ísberg verið sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum í átta ár. Og nú samhliða doktorsnámi og starfi hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Fyrstu Fánaberar Rauða krossins komu saman á Bessastöðum
Almennar fréttir 01. desember 2025Níu framtakssamir og hugmyndaríkir einstaklingar úr íslensku viðskipta- og menningarlífi hafa verið sérvaldir til að taka þátt í nýju fjáröflunarverkefni Rauða krossins. Þau munu næsta árið nota „ofurkrafta sína í þágu mannúðar,“ líkt og Halla Tómasdóttir forseti Íslands sagði við hópinn á viðburði á Bessastöðum.