Almennar fréttir
Langur málsmeðferðartími
10. september 2020
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn áhyggjur af löngum málsmeðferðartíma barnafjölskyldna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.
Að gefnu tilefni ítrekar Rauði krossinn áhyggjur af löngum málsmeðferðartíma barnafjölskyldna sem sótt hafa um alþjóðlega vernd hér á landi.
Í febrúar á þessu ári komst í hámæli mál pakistanskrar fjölskyldu sem dvalið hafði hér á landi í rúmlega tvö ár. Málið hlaut farsælan endi þegar dómsmálaráðherra gerði breytingu á reglugerð um útlendinga sem felur í sér að þegar ekki hefur fengist niðurstaða í mál hjá Útlendingastofnun og/eða kærunefnd útlendingamála innan 16 mánaða frá umsókn er varðar barn á barnið, og þar með foreldrar þess, rétt á dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Undanfarin ár hafa sambærileg mál barna reglulega komið upp þar sem almenningur hefur mótmælt brottvísunum barnafjölskyldna sem dvalið hafa hér á landi um margra mánaða skeið.
Rauði krossinn hefur ítrekað bent á að eðlilegast sé að líta til heildardvalartíma umsækjenda þegar tímafrestir málsmeðferðar eru skoðaðir, þ.e. frá því umsókn er lögð fram og þar til viðkomandi yfirgefur landið, en ekki aðeins þess tíma sem mál er til meðferðar hjá Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála líkt og fyrrnefnd breyting kvað á um. Umboðsmaður Alþingis vék einnig að þessu í áliti sínu síðla árs 2019
Einn megintilgangurinn með setningu ákvæða um tímafresti er að tryggja umsækjendum ákveðna vernd þegar afgreiðsla umsókna þeirra dregst úr hófi fram. Almennt er fólk sammála um að óhóflegur dráttur á afgreiðslu umsókna sé til þess fallinn að skaða hagsmuni umsækjenda enda augljóst að langvarandi óvissa um framtíðaráform, dvalarstað og öryggi getur haft verulega neikvæð áhrif á heilsu og velferð einstaklinga. Þá er það almennt viðurkennt að þessum sjónarmiðum sé gefið ríkara vægi við ákvarðanatöku er varða börn.
Á meðan ekki er kveðið á um fresti sem miða við dvalartíma hér á landi í lögum um útlendinga munu mál barnafjölskyldna sem hér hafa dvalið um langt skeið án þess að öðlast við það nein réttindi, halda áfram að skjóta upp kollinum, líkt og gerst hefur ítrekað undanfarin ár.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Ylja er „eins og gott knús“
Innanlandsstarf 06. maí 2025Samfélagið á Rás 1 heimsótti neyslurýmið Ylju sem Rauði krossinn rekur og ræddi við starfsfólk og konu sem nýtir sér þjónustuna sem þar býðst. Þátturinn gefur einstaklega góða innsýn í starfsemi Ylju og um gagnsemi úrræðisins.

Mannúðaraðstoð að hruni komin á Gaza
Alþjóðastarf 02. maí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur lýst yfir að mannúðaraðstoð í Gaza sé á barmi algjörs hruns eftir tveggja mánaða stöðvun á flutningi birgða til Gaza. Þessi alvarlega staða hefur leitt til þess að íbúar svæðisins eru nú án lífsnauðsynlegrar mannúðaraðstoðar eins og matar, vatns og lyfja. Skortur á þessum nauðsynjum setur líf hundruða þúsunda íbúa í beina og bráða hættu.

Mánuður frá hamförunum: Enn mikil neyð
Alþjóðastarf 28. apríl 2025„Fólk heldur að um leið og fjölmiðlar hætti að fjalla um hlutina þá sé ekkert að gerast,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Svo sé hins vegar alls ekki. „Það geta liðið mánuðir og jafnvel ár þar til fólk verður búið að ná sér eftir þetta áfall.“