Almennar fréttir
Neyðarsöfnun fyrir Beirút
05. ágúst 2020
Rauði krossinn á Íslandi tekur þátt í samræmdu átaki Rauða kross hreyfingarinnar vegna hamfarasprenginga í Beirút, höfuðborg Líbanon og hefur hafið neyðarsöfnun.
Rauði krossinn á Íslandi tekur þátt í samræmdu átaki Rauða kross hreyfingarinnar vegna hamfarasprenginga í Beirút, höfuðborg Líbanon og hefur hafið neyðarsöfnun.
Í gær, þriðjudaginn 4. ágúst, urðu miklar sprengingar á hafnarsvæði Beirút höfuðborgar Líbanon. Staðfest er að yfir eitt hundrað séu látin og yfir fjögur þúsund særðir en óttast er að tölur um fjölda látinna og særðra muni hækka, því enn er margra saknað.
Talið er að allt að þrjú hundruð þúsund manns hafi misst heimili sín í sprengingunum og ljóst er að þörfin fyrir aðstoð er gríðarleg. Þá ber að hafa í huga að Líbanon er það ríki sem hýsir hæsta hlutfall flóttafólks í heimi miðað við höfðatölu. Um fjórðungur íbúa er flóttafólk og þar af er rúm 1,5 milljón manns frá Sýrlandi. Þessar hamfarir koma að auki ofan í COVID-19 faraldurinn og óttast er að sú ringulreið sem skapast hefur í kjölfar sprengingarinnar kunni að valda aukningu í smitum, m.a. vegna þess hve illa gengur að sinna persónulegu hreinlæti og viðhafa fjarlægðartakmörk.
Sprengingarnar ollu gríðarlegum skemmdum á höfninni og stóru svæði allt frá miðborg Beirút í úthverfi borgarinnar. Sprengingarnar samsvöruðu 4,5 stiga jarðskjálfta á Richter og var a.m.k. önnur sprengingin það öflug að hljóðbylgjan barst til Kýpur í 240 km fjarlægð frá Beirút. Miklar skemmdir eru á byggingum og innviðum og samgöngur í borginni eru erfiðar þar sem glerbrot og byggingarbrak teppa götur.?
Rauði krossinn í Líbanon virkjaði strax neyðarkerfi sitt og er í framlínu aðgerða á vettvangi. Félagið vinnur í kappi við tímann við að bjarga mannslífum, en hefur ekki undan að flytja látna, særða og slasaða af vettvangi auk þess sem sjúkrahús eru yfirfull.
Undanfarin ár hefur Rauði krossinn á Íslandi unnið að því að efla neyðarheilbrigðisþjónustu Rauða krossins í Líbanon með stuðningi utanríkisráðuneytisins. Sú vinna hefur nýtist vel í að efla og auka gæði heilbrigðisþjónustu í landinu. Þá má nefna að starfsfólk sjúkrabíla Rauða krossins eru að mestum hluta sjálfboðaliðar.
- Hægt er að styrkja hjálparstarf Rauða krossins um 2900 kr. með því að senda SMS-ið HJALP í númerið 1900.
- Einnig má leggja inn á reikning 0342 - 26 -12, kt. 530269-2649.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
Innanlandsstarf 01. ágúst 2025Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Hætt verður að taka við umsóknum í styrkarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga en áfram stutt við einstaklinga með fræðslu og námskeiðum.

Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.