Almennar fréttir
Neyðarsöfnun vegna COVID-19 í Malaví lokið
10. mars 2021
Faraldurinn óx hratt í byrjun árs í Afríkuríkinu.
Neyðarsöfnun Rauða krossins vegna COVID-19 í Malaví er lokið. Alls söfnuðust tæplega 600.000 krónur sem fara til eflingar Rauða krossinum í Malaví. Faraldurinn óx hratt í byrjun árs en aftur hefur náðst að hefta útbreiðsluna og fyrstu skammtar af bóluefni hafa borist til landsins. Heilbrigðiskerfi landsins er veikt fyrir og því afskaplega mikilvægt að koma böndum á útbreiðsluna hratt og örugglega.
Rauði krossinn eru stærstu hjálparsamtök Malaví
Tugþúsundir sjálfboðaliða félagins sinna mikilvægu hlutverki í viðbragðskerfi landsins. Við á Íslandi þekkjum vel mikilvægi þess að geta treyst á vel þjálfaða sjálfboðaliða um land allt - í borgum, bæjum og sveitum – þegar bregðast þarf hratt við og koma mikilvægum upplýsingum til skila.
Frá aldamótum hefur Rauði krossinn á Íslandi starfað náið með systurfélagi sínu í Malaví, bæði að verkefnum í þróunarsamvinnu og að ýmsum neyðaraðgerðum sem sífellt verða tíðari vegna hamfarahlýnunar. Frá því veiran greindist fyrst í Afríku hefur Rauði krossinn lagt áherslu á forvarnir og fræðslu um smitleiðir, mikilvægi handþvottar, grímunotkun, dreifingu hlífðarbúnaðar og þess að viðhalda nálægðarmörkum. Mikil vinna hefur farið í að leiðrétta sögusagnir og tryggja réttar upplýsingar.
Rauði krossinn vill þakka öllum þeim sem studdu við söfnunina fyrir þeirra mikilvæga framlag. Takk fyrir stuðninginn!
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“