Almennar fréttir
Sérðu mig?
29. nóvember 2019
Um 450 einstaklingar hafa notið góðs af úthlutun úr sárafátæktarsjóði Rauða krossins í ár.
Sérðu mig?
Alls hefur 451 einstaklingur notið góðs af svokölluðum sárafátæktarsjóði Rauða krossins á Íslandi síðan að úthlutun úr honum hófst í mars. Þá hafa 249 umsóknir borist og 215 verið samþykktar.
Sárafátæktarsjóðnum er ætlað að styðja við mjög tekjulága einstaklinga en á hverjum tíma eru allt að 6000 einstaklingar sem glíma við sárafátækt á Íslandi samkvæmt skýrslu Hagstofunnar um sárafátækt.
„Til Rauða krossins leita oft einstaklingar í hvers kyns neyð. Fram að stofnun sjóðsins hafði Rauði krossinn aðeins stutt við fólk sem býr við mikla fátækt og neyð með fjárstuðningi í kringum jólin með jólaðstoð. Hins vegar er ljóst að þörfin er fyrir hendi allt árið í kring og því var stofnaður sérstakur sjóður með 100 milljón króna stofnframlagi af sjálfsaflafé Rauða krossins“ segir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins.
„Við fundum fyrir þörf og erum með þessu að reyna að svara henni. Tilgangur Rauða kross hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu berskjaldaðra hópa og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Við viljum vera málsvari þessa hóps og erum því að vekja athygli á að hér á landi býr fólk við sárafátækt og við viljum fá almenning til að viðurkenna tilvist þeirra með því að skrifa undir á síðunni https://sarafataekt.raudikrossinn.is/.“
Skilyrðin sem þarf að uppfylla til að fá úthlutað úr sjóðnum eru m.a. að vera með undir 200.000 krónum fyrir skatt í tekjur á mánuði fyrir einstaklinga og undir 300.000 krónum fyrir skatt samtals fyrir sambúðarfólk/hjón. Bætur líkt og húsaleigubætur, barnabætur og meðlag eru ekki teknar með inn í þá tölu.
Umsækjendur sem uppfylla skilyrðin fá úthlutað 40.000 krónum fyrir einstaklinga, 50.000 krónum fyrir sambúðarfólk en styrkurinn hækkar um 10.000 krónur fyrir hvert barn. Um neyðarstyrk er að ræða en ekki eiginlega fjárhagsaðstoð til lengri tíma. Hægt er að fá úthlutað úr sjóðnum tvisvar á almanaksári. Styrkurinn er greiddur út á gjafakorti frá Íslandsbanka og er fólki í sjálfsvald sett í hvaða nauðsynjar styrkurinn er nýttur.
Skilyrði fyrir neyðarstyrk Rauða krossins:
- Íslensk kennitala
- Lögheimili á Íslandi
- Mánaðarlegar tekjur eftir skatt eru 200.000 kr. eða minna (einstaklingar) eða samanlagt 300.000 kr. eða minna (hjón/sambúðarfólk).
- Eignir eru ekki umfram íbúðarhúsnæði og ein fjölskyldubifreið.
- Búið að fullnýta rétt sinn til greiðslna frá félagsþjónustu sveitarfélaga, atvinnuleysissjóði og tryggingastofnun.
- Athugð að barnabætur, meðlag og húsaleigubætur eru ekki taldar með í tekjuviðmiðum.
Fjárhæðir neyðarstyrks
- Einstaklingar 40.000 kr. ?
- Hjón og sambúðarfólk 50.000 kr. ?
Styrkur hækkar um 10.000 kr. fyrir hvert barn yngra en 18 ára sem er á forræði umsækjanda og á sama lögheimili og umsækjandi. ?
Hér er hægt að sækja um styrk úr sjóðnum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
Innanlandsstarf 01. ágúst 2025Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Hætt verður að taka við umsóknum í styrkarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga en áfram stutt við einstaklinga með fræðslu og námskeiðum.

Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.