Almennar fréttir
Þróunarsamvinna aldrei mikilvægari en nú
28. mars 2025
Bakslag í mannréttindum og minnkandi stuðningur við þróunarsamvinnu verður til umræðu á opnum fundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 1. apríl.
Þróunarsamvinna á viðsjárverðum tímum er yfirskrift opins fundar sem fram fer þann 1. apríl á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, UNICEF á Íslandi, UN Women Ísland, Rauða krossins og Barnaheilla. Fundurinn verður haldinn í Þjóðminjasafninu, hefst kl. 12 og mun standa í rúman klukkutíma.
Á fundinum verður fjallað um hvernig þrengt hefur að stuðningi við þróunarsamvinnu og það bakslag sem við stöndum frammi fyrir í mannréttindamálum í heiminum. Hvaða áhrif hefur þessi þróun á frið og stöðugleika á heimsvísu? Hverju hefur þróunarsamvinna skilað og er sá árangur nú í hættu? Hvert er mikilvægi Íslands og hinna Norðurlandanna sem gjafaríkja til þróunarsamvinnu og málsvara mannréttinda á alþjóðavettvangi?

Isabel Burchard, sem fer fyrir UNICEF Nordic donor relations, og Stella Samúelsdóttir, formaður þróunarsamvinnunefndar og framkvæmdastýra UNWomen, flytja erindi.
Að erindum loknum setjast þær í panel ásamt Gísla Rafni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi, Svanhildi Þorvaldsdóttur, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Tótlu Sæmundsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Fundarstjóri verður Pia Hansson, forstöðumaður Höfða friðarseturs.
Fundurinn er opinn öllum og fer fram á ensku.
Hægt er að skrá sig á fundinn hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.

Nýtt forvarnarátak: Öryggi barna í sundi
Innanlandsstarf 23. júní 2025„Drukknun er algengari en flestir halda og stundum er því talað um hinn þögla faraldur,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Félagið hefur hleypt af stokkunum fræðslu- og forvarnarátaki um öryggi barna í sundi í samvinnu við Reykjavíkurborg og Samtök forstöðumanna sundstaða á Íslandi.

Sigríður tekur við formennsku af Silju Báru
Almennar fréttir 19. júní 2025„Ég tek við starfi formanns með mikilli auðmýkt, tilhlökkun og virðingu fyrir öllum þeim sem starfa fyrir Rauða krossinn, bæði sjálfboðaliðum og starfsfólki,“ segir Sigríður Stefánsdóttir, nýr formaður Rauða krossins á Íslandi.