Almennar fréttir
Þróunarsamvinna aldrei mikilvægari en nú
28. mars 2025
Bakslag í mannréttindum og minnkandi stuðningur við þróunarsamvinnu verður til umræðu á opnum fundi í Þjóðminjasafninu þriðjudaginn 1. apríl.
Þróunarsamvinna á viðsjárverðum tímum er yfirskrift opins fundar sem fram fer þann 1. apríl á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, UNICEF á Íslandi, UN Women Ísland, Rauða krossins og Barnaheilla. Fundurinn verður haldinn í Þjóðminjasafninu, hefst kl. 12 og mun standa í rúman klukkutíma.
Á fundinum verður fjallað um hvernig þrengt hefur að stuðningi við þróunarsamvinnu og það bakslag sem við stöndum frammi fyrir í mannréttindamálum í heiminum. Hvaða áhrif hefur þessi þróun á frið og stöðugleika á heimsvísu? Hverju hefur þróunarsamvinna skilað og er sá árangur nú í hættu? Hvert er mikilvægi Íslands og hinna Norðurlandanna sem gjafaríkja til þróunarsamvinnu og málsvara mannréttinda á alþjóðavettvangi?
Isabel Burchard, sem fer fyrir UNICEF Nordic donor relations, og Stella Samúelsdóttir, formaður þróunarsamvinnunefndar og framkvæmdastýra UNWomen, flytja erindi.
Að erindum loknum setjast þær í panel ásamt Gísla Rafni Ólafssyni, framkvæmdastjóra Rauða krossins á Íslandi, Svanhildi Þorvaldsdóttur, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, og Tótlu Sæmundsdóttur, framkvæmdastjóra Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Fundarstjóri verður Pia Hansson, forstöðumaður Höfða friðarseturs.
Fundurinn er opinn öllum og fer fram á ensku.
Hægt er að skrá sig á fundinn hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.