Alþjóðastarf
Engin mannúðaraðstoð til Gaza í 18 daga
19. mars 2025
Palestínski Rauði hálfmáninn er að störfum við erfiðar aðstæður á Gaza eftir að loftárásir hófust enn á ný. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á svæðið í á þriðju viku.
Hvorki matvörur, vatn, teppi, föt, tjöld né önnur nauðsynleg hjálpargögn hafa komist inn á Gaza síðan landamærastöðvar lokuðust 2. mars. Loftárásir hófust að nýju í fyrrinótt og bráðateymi palestínska Rauða hálfmánans hafa sinnt tugum særðra síðan. Konur og börn eru meðal þeirra er féllu í árásunum. „Átökum verður að ljúka,“ segir í nýrri tilkynningu frá Alþjóðasamtökum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. „Áframhaldandi ofbeldi fylgir meiri hætta og þjáning, sem gerir íbúum Gaza enn erfiðara fyrir að lifa af.“
Heilbrigðisstofnanir um alla Gaza-ströndina voru orðnar yfirfullar og loftárásirnar nú auka enn frekar á það neyðarástand sem á þeim ríkir.

Öll heilbrigðisþjónusta á Gaza er í lamasessi eftir átök síðustu sextán mánaða. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á Gaza í átján daga, hvorki lækningavörur, lyf, eldsneyti né annað. „Án þessara nauðsynlegu birgða verður sífellt erfiðara fyrir palestínska Rauða hálfmánann að veita lífsnauðsynlega meðferð og reka sjúkraflutningaþjónustu sína,“ segir í tilkynningu Alþjóðasamtakanna. Þar er bent á að af 53 sjúkrabílum sem palestínski Rauði hálfmáninn hefur í flota sínum sé nú aðeins hægt að nota 23 vegna eldsneytisskorts.
„Alþjóðasamtök Rauða krossins og Rauða hálfmánans taka ekki afstöðu með neinu öðru en mannúðinni,“ segir í tilkynningunni.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.