Alþjóðastarf
Engin mannúðaraðstoð til Gaza í 18 daga
19. mars 2025
Palestínski Rauði hálfmáninn er að störfum við erfiðar aðstæður á Gaza eftir að loftárásir hófust enn á ný. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á svæðið í á þriðju viku.
Hvorki matvörur, vatn, teppi, föt, tjöld né önnur nauðsynleg hjálpargögn hafa komist inn á Gaza síðan landamærastöðvar lokuðust 2. mars. Loftárásir hófust að nýju í fyrrinótt og bráðateymi palestínska Rauða hálfmánans hafa sinnt tugum særðra síðan. Konur og börn eru meðal þeirra er féllu í árásunum. „Átökum verður að ljúka,“ segir í nýrri tilkynningu frá Alþjóðasamtökum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. „Áframhaldandi ofbeldi fylgir meiri hætta og þjáning, sem gerir íbúum Gaza enn erfiðara fyrir að lifa af.“
Heilbrigðisstofnanir um alla Gaza-ströndina voru orðnar yfirfullar og loftárásirnar nú auka enn frekar á það neyðarástand sem á þeim ríkir.
Öll heilbrigðisþjónusta á Gaza er í lamasessi eftir átök síðustu sextán mánaða. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á Gaza í átján daga, hvorki lækningavörur, lyf, eldsneyti né annað. „Án þessara nauðsynlegu birgða verður sífellt erfiðara fyrir palestínska Rauða hálfmánann að veita lífsnauðsynlega meðferð og reka sjúkraflutningaþjónustu sína,“ segir í tilkynningu Alþjóðasamtakanna. Þar er bent á að af 53 sjúkrabílum sem palestínski Rauði hálfmáninn hefur í flota sínum sé nú aðeins hægt að nota 23 vegna eldsneytisskorts.
„Alþjóðasamtök Rauða krossins og Rauða hálfmánans taka ekki afstöðu með neinu öðru en mannúðinni,“ segir í tilkynningunni.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.
Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.