Alþjóðastarf
Engin mannúðaraðstoð til Gaza í 18 daga
19. mars 2025
Palestínski Rauði hálfmáninn er að störfum við erfiðar aðstæður á Gaza eftir að loftárásir hófust enn á ný. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á svæðið í á þriðju viku.
Hvorki matvörur, vatn, teppi, föt, tjöld né önnur nauðsynleg hjálpargögn hafa komist inn á Gaza síðan landamærastöðvar lokuðust 2. mars. Loftárásir hófust að nýju í fyrrinótt og bráðateymi palestínska Rauða hálfmánans hafa sinnt tugum særðra síðan. Konur og börn eru meðal þeirra er féllu í árásunum. „Átökum verður að ljúka,“ segir í nýrri tilkynningu frá Alþjóðasamtökum Rauða krossins og Rauða hálfmánans. „Áframhaldandi ofbeldi fylgir meiri hætta og þjáning, sem gerir íbúum Gaza enn erfiðara fyrir að lifa af.“
Heilbrigðisstofnanir um alla Gaza-ströndina voru orðnar yfirfullar og loftárásirnar nú auka enn frekar á það neyðarástand sem á þeim ríkir.
Öll heilbrigðisþjónusta á Gaza er í lamasessi eftir átök síðustu sextán mánaða. Engin mannúðaraðstoð hefur komist inn á Gaza í átján daga, hvorki lækningavörur, lyf, eldsneyti né annað. „Án þessara nauðsynlegu birgða verður sífellt erfiðara fyrir palestínska Rauða hálfmánann að veita lífsnauðsynlega meðferð og reka sjúkraflutningaþjónustu sína,“ segir í tilkynningu Alþjóðasamtakanna. Þar er bent á að af 53 sjúkrabílum sem palestínski Rauði hálfmáninn hefur í flota sínum sé nú aðeins hægt að nota 23 vegna eldsneytisskorts.
„Alþjóðasamtök Rauða krossins og Rauða hálfmánans taka ekki afstöðu með neinu öðru en mannúðinni,“ segir í tilkynningunni.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.