Alþjóðastarf
Fæðuskortur í skugga COVID-19
21. apríl 2020
Þegar heimsfaraldur ógnar lífi og heilsu einstaklinga í ofanálag við fæðuskort þarf að taka höndum saman og bregðast hratt við
Fæðuskortur í skugga COVID-19
Í Afríku sunnan Sahara búa yfir 20 milljónir barna og foreldrar þeirra við mikinn fæðuskort. COVID-19 smitum í Afríku fjölgar nú ört og mikil hætta er á hraðri útbreiðslu í álfunni þar sem innviðir eru ekki nógu sterkir til að stemma stigu við faraldrinum. Þrátt fyrir slæmt ástand víðsvegar í heiminum má búast við ófyrirsjáanlegum afleiðingum á líf og heilsu fólks í löndum Afríku ef útbreiðsla faraldursins verður óheft. Þegar heimsfaraldur ógnar lífi og heilsu einstaklinga í ofanálag við fæðuskort þarf að taka höndum saman og bregðast hratt við.
Rauði krossinn er til staðar í Afríku. Sjálfboðaliðar hreyfingarinnar þekkja sitt nærsamfélag og vita hvað þarf, fyrir hverja, á hvaða tíma og á hvaða stað. Þannig er tryggt að aðstoðin komist skjótt til þeirra sem mest þurfa á henni að halda. Ásamt því að fræða sín samfélög um hvernig eigi að verjast COVID-19 og aðstoða stjórnvöld við að fyrirbyggja útbreiðslu, sinna sjálfboðaliðar Rauða krossins skilvirkri og áreiðanlegri dreifingu lífsbjargandi hjálpargagna, meðal annars næringu fyrir svöng börn.
Látum ekki sjálfboðaliða Rauða krossins standa tómhentir þar sem þörfin er mest. Leggjumst á eitt við að fylla fang þeirra af lífsbjargandi hjálpargögnum, matvælum og hreinlætisvörum sem bjarga lífum - á tímum Covid19 sem öðrum tímum. Þú getur hjálpað með því að leggja Rauða krossinum lið með því að gerast Mannvinur Rauða krossins.
Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri hjálpar- og mannúðarsviðs Rauða krossins á Íslandi
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.