Alþjóðastarf
Neyðarsöfnun fyrir Afríku lokið
20. desember 2022
Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi vegna alvarlegs fæðuskorts í fjölda Afríkuríkja, fyrst og fremst á horni Afríku, er lokið.

Söfnunin hefur staðið yfir í rúman mánuð og á þeim tíma hefur um milljón króna safnast, sem verður notuð til að veita lífsbjargandi mannúðaraðstoð á svæðinu með því að gefa fólki aðgang að vatni, matvælum, fjárhagsaðstoð og heilbrigðisaðstoð.
Söfnuninni var ætlað að koma til móts við þann alvarlega fæðuskort sem tugmilljónir standa frammi fyrir í fjölda ríkja í Afríku sunnan Sahara, en ástandið er einna verst í Sómalíu, þar sem milljónir eru á barmi hungursneyðar. Fæðuskorturinn hefur einnig leitt til ýmissa samfélagslegra vandamála. Ýmsir áhrifaþættir hafa skapað þessar erfiðu aðstæður, fyrst og fremst langvinnir þurrkar.
Rauði krossinn þakkar þeim sem lögðu söfnuninni lið kærlega fyrir sitt framlag, það mun nýtast vel til að mæta þeim miklu erfiðleikum sem fólk á þessum svæðum stendur frammi fyrir.
Að sögn Atla Viðars Thorstensen, sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða krossins, er niðurstaðan úr neyðarsöfnuninni þó ákveðin vonbrigði því hamfarirnar eru svo umfangsmiklar að við höfum ekki séð annað eins í marga áratugi þegar kemur að fæðuóöryggi og hungri í svo mörgum ríkjum álfunnar.
„Þetta er þó kannski skiljanlegt að einhverju leyti“, segir hann. „Átökin í Úkraínu hafa beint sjónum ríkja og almennings að neyðinni þar, sem er gríðarlega mikil, og vert er að þakka fyrir þá aðstoð sem bæði ríkisstjórnir og almenningur víða um heim hafa sýnt þolendum átakanna þar í landi. Það er þó vonandi að það sé til inneign fyrir sambærilega samstöðu og stuðning fyrir þá tugi milljóna sem standa frammi fyrir verstu þurrkum og fæðuskort í fjóra áratugi í fjölmörgum löndum Afríku sunnan Sahara.”
Þrátt fyrir að neyðarsöfnuninni sé lokið þýðir það alls ekki að Rauði krossinn á Íslandi sé hættur að reyna að mæta erfiðleikunum á svæðinu. Þau sem vilja styðja við hjálparstarfið í þessum ríkjum geta áfram gert það með því að gerast Mannvinir Rauða krossins hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.