Alþjóðastarf
Neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi vegna hungurs í Afríku
09. nóvember 2022
Brýnt er að auka mannúðaraðstoð til að koma í veg fyrir hungursneyð og hjálpa samfélögum um alla Afríku að takast á við afleiðingar þurrka og hækkandi matvælaverðs sem orsakast af loftslagsbreytingum og vopnuðum átökum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun til að styðja við viðbrögð vegna viðvarandi hungurs í Afríku, sem ógnar 146 milljónum íbúa um alla álfuna. Þar af eru 22 milljónir á Horni Afríku sem standa frammi fyrir alvarlegu fæðuóöryggi.
Það er bæði þörf á fjármagni og pólitískum vilja alþjóðasamfélagsins til að bregðast við þeim alvarlega fæðuskorti sem við blasir í Afríku. Án fullnægjandi viðbragða mun mikill fjöldi fólks látast úr hungri og sjúkdómum sem tengjast alvarlegum fæðuskorti, vannæringu og hungri. Afleiðingarnar munu vara í ár og jafnvel áratugi. Hungur og fæðuskort má rekja til veikra innviða, fátæktar, aukinnar verðbólgu, orkukreppu og vopnaðra átaka Úkraínu og öðrum ríkjum, auk þeirra alvarlegu og neikvæðu breytinga sem eru að verða af völdum loftslagsbreytinga.
Í Sómalíu, þar sem Rauði krossinn á Íslandi hefur veitt stuðning frá árinu 2012, er fjöldi vannærðra barna sem þarfnast umönnunar kominn yfir 1,8 milljónir á þessu ári og eitt af hverjum sex börnum þjáist nú af alvarlegri vannæringu.
„Við erum að upplifa hungur af stærðargráðu sem átti aldrei að sjást aftur,“ segir Kristín S. Hjámtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Um eða yfir 20 ríki í Afríku standa frammi fyrir svo alvarlegum vanda að alþjóðasamfélagið verður bregðast við á afgerandi hátt til að afstýra þeim hörmungum, þjáningum og hungurdauða sem alltof margir standa annars frammi fyrir. Við í Rauða krossinum, ásamt systurfélögum okkar í Afríku, gerum hvað við getum, en betur má ef duga skal,“ bætir Kristín við og kallar eftir aukinni samábyrgð fyrirtækja, almennings og stjórnvalda. „Okkur ber siðferðisleg skylda til að leggja okkar af mörkum og þar með einnig koma í veg fyrir að mikill fjöldi fólks neyðist til að leggja á flótta. Það má ekki gleyma því að á bak við þennan fjölda er raunverulegt fólk; karlar, konur og börn sem berjast fyrir lífi sínu og takast á við daglegt hungur sem getur að lokum leitt til dauða.“
Útlit er fyrir að ástandið komi til með að versna en þó er margt sem hægt er að gera til að bjarga mannslífum. Það þarf hins vegar að bregðast hratt við og veita lífsbjargandi aðstoð til þeirra milljóna íbúa sem þurfa á mataraðaðstoð að halda.
Rauði krossinn á Íslandi ásamt alþjóðlegum samstarfsaðilum sínum hvetur almenning til að kynna sér hvað er að gerast í Afríku og leggja sitt af mörkum til mannúðarviðbragða. Áherslan er lögð á að bjarga mannslífum. Rauða kross-hreyfingin veitir neyðaraðstoð eins og að úthluta peningum og matarbirgðum fyrir börn og bæta aðgengi að hreinu vatni og grunnheilbrigðisþjónustu. Á sama tíma þurfum við að gera meira, hraðar og betur með hjálp nærsamfélagsins.
Hvernig veitir þú stuðning?
Sendu HJÁLP í síma 1900
Leggðu inn með Aur/Kass: raudikrossinn
Leggðu inn á reikning Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“

Mikilvægt að fá að vera til staðar fyrir fólk í afplánun
Innanlandsstarf 08. júlí 2025Pétur Kristófersson, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, heimsækir fanga og spjallar við þá um það sem á þeim brennur. Tilgangurinn er að aðstoða þá við undirbúning fyrir lífið eftir afplánun.