Alþjóðastarf
Rauði krossinn á Íslandi styrkir mannúðaraðstoð á Gaza
20. desember 2023
Rauði krossinn á Íslandi hefur sent 75 milljónir króna til að styrkja mannúðaraðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins og palestínska Rauða hálfmánans á Gaza.

Rauði krossinn á Íslandi styður mannúðaraðstoð Alþjóðaráðs Rauða krossins og palestínska Rauða hálfmánans um 75 miljónir króna með aðstoð utanríkisráðuneytisins, Mannvina Rauða krossins og allra þeirra sem studdu neyðarsöfnun Rauða krossins.
Átökin bitna á almennum borgurum
Almennir borgarar bera hitann og þungann af yfirstandi átökum á Gaza. Mikilvægir innviðir og heilu íbúðahverfin hafa verið lögð í rúst. Tölur herma að hátt í 53 þúsund almennir borgarar hafi særst og 20 þúsund hafi látið lífið, þar af yfir fimm þúsund konur og hátt í átta þúsund börn. Um 85% íbúa Gaza eru á vergangi, eða um 1,9 milljón einstaklingar, og um 60% heimila hafa verið eyðilögð eða orðið fyrir skemmdum.
Íbúar Gaza hafa ekki reglulegan aðgang að mat, vatni og öðrum lífsnauðsynjum þar sem matvælaframleiðsla hefur stöðvast.Talið er að um helmingur íbúa Gaza svelti og að 90% þeirra séu reglulega án matar í heilan dag. Aðeins tíu prósent af þeim mat sem nú þarf fyrir 2,2 milljónir einstaklinga hafa komist inn á Gaza síðustu 70 daga. Mikilvægir innviðir eins og rafmagns- og vatnsveitur hafa verið lagðir í rúst. Aðgengi að heilbrigðisaðstoð er mjög takmarkað því sjúkrahús hafa sætt árásum og eru að stórum hluta óstarfhæf. Þúsundir fjölskyldna eru enn án sambands eða frétta af ættingjum sem hafa horfið og mikill fjöldi fólks hefur ekki getað endurheimt líkamsleifar látinna ættingja sinna.
Aðstoða íbúa Gaza gegnum gríðarlega erfiðleika
Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sinnt mikilvægu mannúðarstarfi á Gaza í samvinnu við palestínska Rauða hálfmánann síðan árið 1967. Þessir aðilar aðstoða íbúa Gaza í yfirstandandi átökum, meðal annars við aðgang að matvælum, vatni, rafmagni, hreinlætisvörum og heilbrigðisþjónustu.
Þrátt fyrir gríðarlega erfitt ástand vinnur Alþjóðaráð Rauða krossins og starfsfólk og sjálfboðaliðar palestínska Rauða hálfmánans hörðum höndum að því að koma hjálpargögnum til íbúa svæðisins sem og að veita börnum og fullorðnum sálrænan stuðning. Starfsfólk og sjálfboðaliðar hreyfingarinnar hafa sýnt undraverðan dug og þor og gera allt sem í þeirra valdi stendur til að lina þjáningar fólks í óboðlegum aðstæðum.
Rauði krossinn þakkar öllum þeim sem studdu neyðarsöfnunina kærlega fyrir sitt framlag. Stuðningurinn mun nýtast vel til að mæta þeim miklu erfiðleikum sem íbúar Gaza standa frammi fyrir.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.

Rafrænt HAM-námskeið fyrir Grindvíkinga
Innanlandsstarf 08. október 2025Rauði krossinn heldur áfram að bæta í verkfærakistu Grindvíkinga. Fjarnámskeið í hugrænni atferlismeðferð á vegum Framvegis – símenntunarstöðvar er nú í boði.

36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.