Alþjóðastarf
Sendifulltrúi að störfum í Jemen
28. október 2020
Kolbrún Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi er að störfum í Aden í suðurhluta Jemen.
Kolbrún Þorsteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi er að störfum á meðferðardeild fyrir einstaklinga sem veikjast af Covid19 í Aden í suðurhluta Jemen.
Vegna viðvarandi átaka og skorts á sjúkragögnum hafa margar heilbrigðisstofnanir neyðst til að loka í Jemen. Heilbrigðiskerfið á í erfiðleikum með að veita hundruðum þúsunda einstaklinga grunnþjónustu og lífi þeirra er ógnað vegna læknanlegra sjúkdóma, vannæringar og stríðstengdra áverka. Skortur á rafmagni og eldsneyti og mikil verðbólga gerir það að verkum að matur, lyf og aðrar nauðsynjavörur eru of dýrar fyrir flesta íbúa landsins og gerir erfitt líf af völdum vopnaðra átaka enn erfiðara.
Heilbrigðiskerfið í Jemen er í molum eftir stríðið og hvergi hafa fleiri látist hlutfallslega af völdum veirunnar eftir afar erfiða fyrstu bylgju sjúkdómsins þar í landi. Meðferðardeildin sem Kolbrún starfar á er meðal annars útbúin 60 rúmum fyrir sjúklinga, röntgenherbergi, legudeildum, hágæslu, aðstöðu fyrir forgangsröðun sjúklinga og rannsóknarstofu. Nokkur tonn af sjúkragögnum og búnaði voru flutt á staðinn.
Kolbrún hefur nú þegar hafið störf á deildinni og verður fram í janúar. Áður hefur hún farið sem sendifulltrúi á vegum Rauða krossins til Cox´s Bazar í Bangladess í lok árs 2018.
Með stuðningi utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins getur Rauði krossinn á Íslandi stutt við jemenska Rauða hálfmánann í aðgerðum sínum, bæði í baráttunni gegn Covid19 en einnig afleiðinga vopnaðra átaka sl. ára.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Söfnuðu pening í fötuna í stað sælgætis
Almennar fréttir 19. desember 2025Börn sem þurfa aðstoð eru ofarlega í hugum Jóhanns Atla, Jans Kára og Björns Dags, níu ára pilta úr Garðabæ sem söfnuðu fé fyrir Rauða krossinn.
Smíðuðu, bökuðu og föndruðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 15. desember 2025„Við völdum Rauða krossinn því okkur finnst þau gera mikið gagn fyrir samfélagið okkar,“ sagði nemandi í Álfhólsskóla á fallegri athöfn þar sem Rauða krossinum var afhent fé sem nemendur söfnuðu á góðgerðardegi í skólanum.
Gerðist sjálfboðaliði eftir að starfsferli lauk
Innanlandsstarf 11. desember 2025Í sjö ár hefur Guðrún Salome Jónsdóttir, fyrrverandi kennari, tekið vaktir í fatabúðum Rauða krossins. Hún er þar sjálfboðaliði og segir það gefandi og veita sér ánægju.