Fara á efnissvæði

Alþjóðastarf

Þörf á tafarlausum pólitískum aðgerðum

18. september 2025

„Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“

Hlúð að ungum, særðum manni á neyðarsjúkrahúsinu Alsarya í Gaza-borg. Þar stendur starfsfólk og sjálfboðaliðar palestínska Rauða hálfmánans vaktina. Mynd: Palestínski Rauði hálfmáninn

„Nauðungarflutningar frá Gaza-borg eru hreinasta kvalræði fyrir hundruð þúsunda fólks sem er þegar sært á líkama og sál,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Að þvinga fólk á flótta frá suðri til norðurs auki enn á hörmungarástandið á Gaza og brjóti í bága við þær reglur sem þjóðir heims hafa sammælst um að skuli gilda í stríði. „Alþjóðleg mannúðarlög voru sett til að draga úr þjáningum almennra borgara í vopnuðum átökum,“ segir Gísli. „Þeim ber að fylgja og afleiðingar hljótast af brotum á þeim.“

Á hverjum einasta degi eru almennir borgarar á Gaza drepnir, börn sem fullorðnir. Þau sem lifa af eru flæmd á brott með valdi og hrekjast milli staða í leit að öryggi sem hvergi er að finna. Ráðist er á sjúkrahús og heilbrigðis- og mannúðarstarfsfólk eru sömuleiðis skotmörk. Miklar takmarkanir eru á flutningi mannúðaraðstoðar inn á Gaza sem og dreifingu hjálpargagna til fólksins. Það ríkir hungursneyð.

„Við þurfum tafarlausar pólitískar aðgerðir til að draga úr þjáningum almennra borgara á Gaza – fólksins sem hefur þurft að þola ólýsanlegan hrylling upp á hvern einasta dag í að verða tvö ár,“ segir Gísli. „Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax. Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“