Alþjóðastarf
Þörf á tafarlausum pólitískum aðgerðum
18. september 2025
„Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“
„Nauðungarflutningar frá Gaza-borg eru hreinasta kvalræði fyrir hundruð þúsunda fólks sem er þegar sært á líkama og sál,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. Að þvinga fólk á flótta frá suðri til norðurs auki enn á hörmungarástandið á Gaza og brjóti í bága við þær reglur sem þjóðir heims hafa sammælst um að skuli gilda í stríði. „Alþjóðleg mannúðarlög voru sett til að draga úr þjáningum almennra borgara í vopnuðum átökum,“ segir Gísli. „Þeim ber að fylgja og afleiðingar hljótast af brotum á þeim.“
Á hverjum einasta degi eru almennir borgarar á Gaza drepnir, börn sem fullorðnir. Þau sem lifa af eru flæmd á brott með valdi og hrekjast milli staða í leit að öryggi sem hvergi er að finna. Ráðist er á sjúkrahús og heilbrigðis- og mannúðarstarfsfólk eru sömuleiðis skotmörk. Miklar takmarkanir eru á flutningi mannúðaraðstoðar inn á Gaza sem og dreifingu hjálpargagna til fólksins. Það ríkir hungursneyð.
„Við þurfum tafarlausar pólitískar aðgerðir til að draga úr þjáningum almennra borgara á Gaza – fólksins sem hefur þurft að þola ólýsanlegan hrylling upp á hvern einasta dag í að verða tvö ár,“ segir Gísli. „Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax. Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.