Innanlandsstarf
Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
01. ágúst 2025
Þann 1. september næstkomandi verður hætt að taka við umsóknum í styrktarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga sem Rauði krossinn stofnaði til á síðasta ári. Áfram verður stutt við Grindvíkinga við að aðlagast nýjum veruleika með fræðslu og stuðningsnámskeiðum.
Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Þann 1. september næstkomandi verður hætt að taka við umsóknum í styrktarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga sem Rauði krossinn stofnaði til á síðasta ári. Var ákvörðun um þetta tekin á fundi úthlutunarnefndar sjóðsins í lok júlí.
Áfram verður stutt við Grindvíkinga við að aðlagast nýjum veruleika með fræðslu og stuðningsnámskeiðum. Verður fyrirkomulag þess stuðnings kynnt á næstu vikum. Einnig verður áfram lögð áhersla á að efla viðnámsþrótt allra íbúa á Suðurnesjum.
Rauði krossinn fékk haustið 2024 styrk frá fyrirtækinu Rio Tinto til að styðja við samfélagið sem þurfti að flytja vegna hamfaranna og til að efla seiglu á Suðurnesjum öllum. Rauði krossinn setti í kjölfarið styrktarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga á fót með það að markmiði að efla seiglu Grindvíkinga sérstaklega.
Frá stofnun hefur sjóðurinn gegnt mikilvægu hlutverki í að styðja fjölbreytt verkefni í þágu Grindvíkinga, með sérstakri áherslu á stuðning, virkni og samveru, einkum meðal ungs fólks og eldri borgara.
Á þeim tíma sem sjóðurinn hefur verði starfræktur hefur 21 umsókn um styrk borist. Áfram verður tekið við umsóknum í sjóðinn til 1. september næstkomandi.
Það er von Rauða krossins að stuðningur sjóðsins hafi stuðlað að jákvæðum breytingum og eflt trú einstaklinga á eigin getu.
Rauði krossinn færir öllum umsækjendum, samstarfsaðilum og öðrum sínar innilegustu þakkir fyrir traust, þátttöku og elju á undanförnum mánuðum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“