Innanlandsstarf
Breytt fyrirkomulag á stuðningi við Grindvíkinga
01. ágúst 2025
Þann 1. september næstkomandi verður hætt að taka við umsóknum í styrktarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga sem Rauði krossinn stofnaði til á síðasta ári. Áfram verður stutt við Grindvíkinga við að aðlagast nýjum veruleika með fræðslu og stuðningsnámskeiðum.

Í haust verða gerðar breytingar á stuðningi Rauða krossins við Grindvíkinga sem þurftu að rýma heimili sín vegna jarðhræringanna 10. nóvember 2023. Þann 1. september næstkomandi verður hætt að taka við umsóknum í styrktarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga sem Rauði krossinn stofnaði til á síðasta ári. Var ákvörðun um þetta tekin á fundi úthlutunarnefndar sjóðsins í lok júlí.
Áfram verður stutt við Grindvíkinga við að aðlagast nýjum veruleika með fræðslu og stuðningsnámskeiðum. Verður fyrirkomulag þess stuðnings kynnt á næstu vikum. Einnig verður áfram lögð áhersla á að efla viðnámsþrótt allra íbúa á Suðurnesjum.
Rauði krossinn fékk haustið 2024 styrk frá fyrirtækinu Rio Tinto til að styðja við samfélagið sem þurfti að flytja vegna hamfaranna og til að efla seiglu á Suðurnesjum öllum. Rauði krossinn setti í kjölfarið styrktarsjóðinn Þrótt Grindvíkinga á fót með það að markmiði að efla seiglu Grindvíkinga sérstaklega.
Frá stofnun hefur sjóðurinn gegnt mikilvægu hlutverki í að styðja fjölbreytt verkefni í þágu Grindvíkinga, með sérstakri áherslu á stuðning, virkni og samveru, einkum meðal ungs fólks og eldri borgara.
Á þeim tíma sem sjóðurinn hefur verði starfræktur hefur 21 umsókn um styrk borist. Áfram verður tekið við umsóknum í sjóðinn til 1. september næstkomandi.
Það er von Rauða krossins að stuðningur sjóðsins hafi stuðlað að jákvæðum breytingum og eflt trú einstaklinga á eigin getu.
Rauði krossinn færir öllum umsækjendum, samstarfsaðilum og öðrum sínar innilegustu þakkir fyrir traust, þátttöku og elju á undanförnum mánuðum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
Alþjóðastarf 01. október 2025Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.

Grindvíkingar í fókus: Nýtt stuðningsverkefni
Innanlandsstarf 01. október 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ýtt úr vör nýju verkefni og býður Grindvíkingum á fjölda námskeiða, vinnustofa og viðburða, endurgjaldslaust. Verkefnið er unnið í samstarfi við KVAN, í samráði við Grindavíkurbæ og með stuðningi Rio Tinto.