Innanlandsstarf
Coca-Cola og Rauði krossinn hjálpa flóttafólki að aðlagast íslensku samfélagi
25. september 2024
Coca-Cola Europacific Partners(CCEP) á Íslandi og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað samstarfssamning um nýtt verkefni sem kallast „Lyklar að íslensku samfélagi – The Keys to Society“ og miðar að því að styðja og valdefla þau sem sótt hafa um alþjóðlega vernd og einnig þau sem hafa fengið hér vernd.

Coca-Cola Europacific Partners(CCEP) á Íslandi og Rauði krossinn á Íslandi hafa undirritað samstarfssamning um nýtt verkefni sem kallast „Lyklar að íslensku samfélagi – The Keys to Society.“ Verkefnið miðar að því að styðja og valdefla umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk við að aðlagast íslensku samfélagi og taka sín fyrstu skref á vinnumarkaði.
CCEP mun styrkja verkefnið um 10 milljónir króna á ári næstu þrjú árin, sem hluti af stefnu sinni í samfélagsábyrgð. Rauði krossinn mun svo sjá um framkvæmd námskeiða sem styrkja einstaklinga til að fóta sig í íslensku samfélagi og auka færni þeirra til að sækja vinnu.
„Við hjá Coca-Cola á Íslandi erum stolt af því að styðja Rauða krossinn í að hjálpa þessum viðkvæma hópi að aðlagast samfélaginu og vinnumarkaðnum, svo þau geti orðið virkir þátttakendur,“ segir Anna Regína Björnsdóttir, forstjóri Coca-Cola á Íslandi. „Mikilvægt er að stuðla að jafnrétti og búa til aðstæður þar sem fólk af erlendum uppruna fær tækifæri til að læra um íslenskt samfélag og vinnumarkað.“
Námskeiðin verða í boði á úkraínsku, spænsku, arabísku og ensku, með möguleika á fleiri tungumálum. Þjálfunin skiptist í tvo hluta: Fyrri hluti er fyrir nýkomna umsækjendur sem enn eru í umsóknarferli og mun veita þeim innsýn í gildi og virkni samfélagsins. Seinni hluti er fyrir þau sem þegar hafa fengið alþjóðlega vernd og mun aðstoða þau við að fóta sig á vinnumarkaði.
„Þetta er þýðingarmikill samningur sem veitir þessu mikilvæga verkefni sannarlega nauðsynlegan stuðning,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Við erum þakklát CCEP fyrir að styrkja þetta verkefni, sem mun valdefla umsækjendur um alþjóðlega vernd á Íslandi og þannig styrkja íslenskt samfélag.“
CCEP hefur það markmið að gefa fólki sem stendur frammi fyrir hindrunum á vinnumarkaði hæfnina sem það þarf til að ná árangri. Þar sem umsækjendur um alþjóðlega vernd, flóttafólk og innflytjendur mæta hvað mestum hindrunum þegar kemur að velgengni í íslensku samfélagi ákvað CCEP að þróa þetta verkefni í samstarfi við Rauða krossinn á Íslandi.
Verkefnið styður við fjögur af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna: Menntun fyrir öll, góð atvinna og hagvöxtur, aukinn jöfnuður, friður og réttlæti.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.