Innanlandsstarf

Stærstu sveitarfélögin við Eyjafjörð semja við Rauða krossinn

27. maí 2025

Fjallabyggð hefur bæst í hóp þeirra sveitarfélaga er samið hafa við Eyjafjarðardeild Rauða krossins um söfnun, flokkun og sölu á fatnaði og öðrum textíl á svæðinu. „Stór áfangi,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir deildarstjóri.

Á hverju ári sendir Eyjafjarðardeild Rauða krossins fatnað sem fyllir heilan 40 feta gám til Rauða kross verslana víðs vegar um landið.

Fjallabyggð gerði í apríl samstarfssamning við Rauða krossinn við Eyjafjörð um söfnun, flokkun og sölu á textíl. Slíkir samningar höfðu þegar verið undirritaðir við Akureyrarbæ og Dalvíkurbyggð og því hafa nú þrjú stærstu sveitarfélögin á svæðinu samið við félagið um meðhöndlun á textíl.

„Þetta er stór áfangi en viðræður hafa átt sér stað í á annað ár,“ segir Ingibjörg Halldórsdóttir, deildarstjóri Rauða krossins við Eyjafjörð. „Það er því afar ánægjulegt að þetta skuli í höfn.“

Samkvæmt nýjum lögum er sveitarfélögum nú skylt að halda úti sérstakri söfnun á textíl. Rauði krossinn við Eyjafjörð hafði um árabil að mestu séð um að safna textíl á svæðinu; flokka, selja bæjarbúum og senda erlendis til endurvinnslu. Með lögunum hefur ábyrgðin verið færð yfir á sveitarfélögin að sjá til þess að textíl sé safnað og hann endurnýttur eftir bestu getu. Akureyrarbær reið á vaðið og var fyrsta sveitarfélagið á landinu sem samdi við Rauða krossinn um verkefnið.

„Fatasöfnun er mikilvægt fjáröflunarverkefni fyrir Rauða krossinn en jafnframt mikilvægt þjónustuverkefni,“ segir Ingibjörg en deildin veitir m.a. neyðarstuðning í formi fatakorta til þeirra sem á þurfa að halda. „Eins er verkefnið mikilvægt umhverfisverkefni. Við erum í samstarfi við fjölmarga aðila þar sem við komum textíl í endurvinnslu og nýtingu.“

Allra hagur

Hún segir til mikillar fyrirmyndar að sveitarfélögin á starfssvæðinu velji að fara þá leið að semja við hjálparsamtök um framkvæmd verkefnisins. „Það er hagur alls samfélagsins. Meira af fatnaði nýtist í heimabyggð og með þessu er auk þess stutt við hjálparstarf á svæðinu.“

Rauði krossinn við Eyjafjörð sér um fatasendingaþjónustu við aðrar deildir Rauða krossins og sendir árlega frá sér sem nemur um einum 40 feta gám af söluvænum fatnaði í verslanir Rauða krossins víðs vegar um landið.

Gríðarlegt magn af fatnaði endar hjá Rauða krossinum og Eyjafjarðardeildin sendir árlega um 150-170 tonn erlendis til endurvinnslu. „Þrátt fyrir að okkur takist að koma miklu í endurnýtingu er magnið þvílíkt að senda þarf stóran hluta þess sem safnast úr landi,“ segir Ingibjörg. „Besta úrgangsforvörnin er einfaldlega að kaupa minna.“