Fara á efnissvæði

Innanlandsstarf

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs

12. ágúst 2025

Ár sem hefur kennt okkur margt

Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.

Ylja er öruggur staður þar sem einstaklingar geta notað vímuefni í æð eða reykt ópíóíða og/eða örvandi efni undir eftirliti fagsfólks. Þar er boðið upp á lágþröskulda skaðaminnkandi þjónustu, hreinan búnað, heilbrigðisþjónustu og sálrænan stuðning. Ylja bætir lífsgæði, dregur úr heilsutjóni og skapar von.

Frá því að Ylja opnaði hafa rúmlega 240 einstaklingar nýtt sér þjónustuna og samtals hafa verið 3711 heimsóknir. Meðalaldur notenda er 38 ár og meirihlutinn eru einstaklingar sem skilgreina sig sem karlkyn en konur er í kringum 30 % af þeim sem koma.

Hjúkrunarfræðingar frá Landspítala eru með aðsetur í Ylju þrjá daga í viku sem er gífurlega mikilvægt skref í þjónustu við þennan hóp.

Samstarf milli fagstétta og kerfa hefur verið lykilþáttur í árangrinum. Samstillt vinna starfsfólks Ylju, VoR-teymisins og Landspítalans og annarra hefur tryggt samfellda þjónustu og einfaldað tengingu fólks við frekari úrræði. Fyrsta árið hefur gengið vonum framar og staðfestir að Ylja er lykilþáttur í mannúðlegri og skaðaminnkandi þjónustu á höfuðborgarsvæðinu.

Með sterku samstarfi og trausti í farteskinu hlökkum við til að efla þjónustan enn frekar og halda áfram að berjast fyrir öruggari og bættri framtíð.