Almennar fréttir
Áskoranir og ánægjulegir áfangar hjá nýrri höfuðborgardeild
19. mars 2025
Margra forvitnilegra grasa kennir í fyrstu ársskýrslu nýrrar höfuðborgardeildar Rauða krossins. Risastór verkefni blöstu við í fyrra, m.a. opnun neyslurýmisins Ylju sem hefur verið mjög vel tekið.
„Síðasta ár einkenndist af mikilli vinnu og ýmsum áskorunum,“ segir Ósk Sigurðardóttir, deildarstjóri nýrrar höfuðborgardeildar Rauða krossins. „En við náðum að halda öllum boltum á lofti með ótrúlegri samheldni, góðu starfsfólki og mögnuðum sjálfboðaliðum.“
Ný höfuðborgardeild varð til við sameiningu samnefndrar deildar Reykjavíkur og Mosfellsbæjar og deildar Hafnarfjarðar, Kópavogs og Garðabæjar. Þannig eru fimm sveitarfélög nú komin undir sama hatt. Sameiningin, sem hafði verið rædd fram og til baka lengi, var einmitt eitt af stóru verkefnunum sem Ósk og hennar fólk tókst á við í fyrra.

Undirbúningur hafði staðið um hríð sem gerði það að verkum að þegar sameiningin varð að veruleika um mitt ár gekk hún vel að sögn Óskar þótt áfram sé unnið að því að fínstilla verkferla. „Svo var það risastórt verkefni að opna neyslurýmið Ylju,“ segir Ósk. Ylju hafi verið tekið mjög vel úti í samfélaginu og þörfin á slíku úrræði verið ljós alveg frá opnun í ágúst í fyrra.
Með sameiningunni og nýjum verkefnum fjölgaði starfsmönnum sem heyrðu undir höfuðborgardeild verulega eða úr níu í tæplega fjörutíu. Að verkefnum þessarar langstærstu deildar Rauða krossins á Íslandi koma nú 624 sjálfboðaliðar.

Fyrsta ársskýrsla hinnar nýju deildar hefur nú litið dagsins ljós. Neyslurýmið Ylja og Frú Ragnheiður, fjölbreytt vinaverkefni, tungumálaþjálfun og sjálfboðaliðastarf fólks á flótta eru meðal þeirra fjölmörgu verkefna höfuðborgardeildar sem fjallað er um í ársskýrslunni. Fram kemur að skaðaminnkunarverkefnin hafi verið mikil og krefjandi á síðasta ári með enduropnun Ylju eftir langa bið í nýju húsnæði við Borgartún. Í Ylju geta notendur fíkniefna neytt þeirra í öruggu rými undir leiðsögn frá heilbrigðismenntuðum aðilum. „Móttökurnar hafa verið fram úr björtustu vonum og oft og ítrekað fullt út úr dyrum,“ skrifar Fanney Birna Jónsdóttir, formaður stjórnar höfuðborgardeildarinnar, í ávarpi sínu í ársskýrslunni. „Frú Ragnheiður hélt uppi fullri þjónustu allt árið, og hvert metið af öðru slegið í komum, förgun búnaðar og öðru og ljóst að þörfin er enn eins brýn og verið hefur.“
Í ársskýrslunni er minnt á að það séu sjálfboðaliðar Rauða krossins sem bera hitann og þungann af starfi deildarinnar. „Kraftur deildarinnar liggur í fjölbreyttum sjálfboðaliðahópi,“ segir á einum stað. Fanney Birna þakkar sjálfboðaliðunum sérstaklega fyrir sín störf í ávarpi formanns, „hvar sem þau starfa innan deildarinnar með Rauða kross hugsjónina í fyrirrúmi; mannúðina, sérstaklega fyrir þeirra störf. Án þeirra væru verkefni deildarinnar ómöguleg“.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fólk á Gaza sárbiður um hjálp
Alþjóðastarf 19. maí 2025Aukinn þungi hefur færst í hernaðaraðgerðir á Gaza síðustu daga og hundruð almennra borgara, sem skulu njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, verið drepin. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Við verðum að brýna raustina“
Almennar fréttir 13. maí 2025„Á tímum sem þessum getum við ekki staðið þögul hjá,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi. „Við verðum að brýna raustina og láta í okkur heyra, hvar sem færi gefst.“

Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.