Fara á efnissvæði

Almennar fréttir

Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn

30. desember 2025

Matthías Snorrason, Leó Snorrason, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.

Matthías Snorrason, Leó Snorrason, Óskar Snorrason og Emma Högnadóttir færðu Rauða krossinum söfnunarfé sitt nýverið. Mynd: Sandra

„Við fengum þessa hugmynd og ákváðum strax að fara af stað,“ sögðu frændsystkinin Matthías Snorrason, Leó Snorrason, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason er þau komu og afhentu Rauða krossinum fé sem þau höfðu safnað fyrir félagið.

Hugmyndin fólst í því að ganga í hús og safna flöskum og dósum sem síðan var skilað til endurvinnslu gegn gjaldi. Söfnunin fór fram í Vesturbænum og augljóslega tóku íbúar þar vel í hugmyndina góðu því þegar upp var staðið hafði frænsystkinunum tekist að safna 26 þúsund krónum.

Söfnunarféð vilja þau að verði nýtt til að rétta þeim sem þurfa hjálparhönd. Sérstaklega er þeim annt um að börnum á Gaza verði hjálpað.

Rauði krossinn þakkar þem Matthíasi, Leó, Emmu og Óskari kærlega fyrir stuðninginn og mun sjá til þess að féð nýtist þeim sem á þurfa að halda.