Fara á efnissvæði

Almennar fréttir

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp

25. ágúst 2025

Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Rauði krossinn á Íslandi hefur bætt námskeiði á íslensku um sálræna fyrstu hjálp (e. Psychological First Aid) við námskeiðasafn sitt á netinu. Námskeiðið er ókeypis og er hugsað fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins sem og allt áhugafólk um velferð og hjálp við aðra.

„Á vefnámskeiðinu um sálræna fyrstu hjálp er farið yfir grunnatriði þess hvernig hægt er að veita fólki stuðning þegar á þarf að halda, til dæmis í kjölfar slysa, hamfara eða annarra alvarlegra atburða,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum. Hún segir námskeiðið koma til með að gagnast öllum þeim sem vinna með fólki og vilja efla færni sína í að vera til staðar þegar á reynir.

Á námskeiðinu eru kenndar viðurkenndar aðferðir varðandi sálræna fyrstu hjálp og algeng viðbrögð fólks í kjölfar áfalla. Einnig er farið yfir mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér þegar verið er að aðstoða aðra. Kynntar eru æfingar til sjálfsræktar og aðferðir til að aðstoða fólk við að ná ró og einhverri stjórn á aðstæðum sínum. „Markmiðið með viðeigandi stuðningi er að draga úr streituviðbrögðum, efla seiglu og stuðla þannig að eðlilegum bata eftir áföll,“ segir Elfa.

Vefnámskeiðið er aðgengilegt hvar og hvenær sem er.

Einfalt er að útbúa aðgang á námskeiðavef Rauða krossins og fá þannig aðgang að þessu námskeiði sem og öðrum frá Rauða krossinum á Íslandi og Alþjóðaráði Rauða krossins.

Smelltu hér til að skrá þig