Almennar fréttir
Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
25. ágúst 2025
Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Rauði krossinn á Íslandi hefur bætt námskeiði á íslensku um sálræna fyrstu hjálp (e. Psychological First Aid) við námskeiðasafn sitt á netinu. Námskeiðið er ókeypis og er hugsað fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins sem og allt áhugafólk um velferð og hjálp við aðra.
„Á vefnámskeiðinu um sálræna fyrstu hjálp er farið yfir grunnatriði þess hvernig hægt er að veita fólki stuðning þegar á þarf að halda, til dæmis í kjölfar slysa, hamfara eða annarra alvarlegra atburða,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum. Hún segir námskeiðið koma til með að gagnast öllum þeim sem vinna með fólki og vilja efla færni sína í að vera til staðar þegar á reynir.
Á námskeiðinu eru kenndar viðurkenndar aðferðir varðandi sálræna fyrstu hjálp og algeng viðbrögð fólks í kjölfar áfalla. Einnig er farið yfir mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér þegar verið er að aðstoða aðra. Kynntar eru æfingar til sjálfsræktar og aðferðir til að aðstoða fólk við að ná ró og einhverri stjórn á aðstæðum sínum. „Markmiðið með viðeigandi stuðningi er að draga úr streituviðbrögðum, efla seiglu og stuðla þannig að eðlilegum bata eftir áföll,“ segir Elfa.
Vefnámskeiðið er aðgengilegt hvar og hvenær sem er.
Einfalt er að útbúa aðgang á námskeiðavef Rauða krossins og fá þannig aðgang að þessu námskeiði sem og öðrum frá Rauða krossinum á Íslandi og Alþjóðaráði Rauða krossins.
Svona býrðu til aðgang:
1. Farðu á www.ifrc.org/learning og smelltu á „Sign up“ efst til hægri til að stofna aðgang.
2. Veldu „Volunteer“ eða „Other“
Þegar þú ert beðin(n) um að velja „Affiliation“, veldu annað hvort:
Volunteer ef þú ert sjálfboðaliði
Other ef þú ert ekki tengd(ur) Rauða krossinum formlega
3. Veldu „Iceland“ sem Division
Þegar þú ert spurð(ur) um „Division“, veldu Iceland úr listanum.
4. Skráðu kennitölu ef þú vilt tengja námskeið við Mínar síður.
Ef þú vilt að námskeiðin sem þú klárar verði sýnileg á Mínum síðum á raudikrossinn.is, skaltu skrá kennitölu í reitinn „Social Security Number“.
5. Aðgangur að fjölda námskeiða
Þegar skráningu er lokið hefur þú aðgang að öllu efni á IFRC Learning Platform – þar á meðal námskeiðum sem Rauði krossinn á Íslandi hefur þróað sérstaklega.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.

„Maður gefur af sér en fær svo mikið til baka“
Innanlandsstarf 05. ágúst 2025Notendur Frú Ragnheiðar tóku Írisi Ósk Ólafsdóttur strax vel er hún hóf þar sjálfboðaliðastörf. „Þrátt fyrir að starfið geti tekið á andlega þá er það líka það sem gerir þetta svo verðmætt því þetta snýst um að vera manneskja fyrir aðra manneskju á stundum sem skipta máli,“ segir Íris.