Almennar fréttir
„Við verðum að brýna raustina“
13. maí 2025
Líklegt er að tímabil ófriðar og sundrungar verði viðvarandi um nokkurt skeið, skrifar Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins, í ávarpi sínu í nýútkominni ársskýrslu félagsins. „Verulega hefur dregið úr framlögum ríkja til mannúðargeirans á meðan framlögum til varnarmála og hergagnaframleiðslu vex fiskur um hrygg.“

Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, skrifar:
Rauði krossinn hefur staðið vörð um mannúð í áraraðir, hér á Íslandi í heila öld og á alþjóðavettvangi í hálfa aðra öld. Við sem erum alin upp í skugga kalda stríðsins áttum ekki öðru að venjast en að yfir heiminum grúfði kjarnorkuvá.
Stórveldaspennan hvarf þó skyndilega undir lok níunda áratugar síðustu aldar og heimsmyndin breyttist hratt í kjölfarið. Þær fylltu mörg okkar von um að alþjóðasamfélagið væri á betri leið og friður myndi ríkja til lengri tíma.
Óveðurský voru þó fljót að hrannast upp, stríðin á Balkanskaga minntu harkalega á að þjóðernishreinsanir væru ekki hættar að eiga sér stað og settu kynbundið ofbeldi í átökum á dagskrá alþjóðastofnana. Átökum á milli ríkja fækkaði en átök innan landamæra ríkja urðu meira áberandi.
Nú eru endalok kalda stríðsins, og sú bjartsýni um framtíðina sem þeim fylgdu, orðin fjarlæg minning og líklegt er að tímabil ófriðar og sundrungar verði viðvarandi um nokkurt skeið. Víglínurnar eru þó óskýrar og á köflum óvæntar, þær snerta bæði landamæri og hugmyndafræði.

Stofnanir og samtök sem starfa í mannúðargeiranum fara ekki varhluta af þessari þróun. Verulega hefur dregið úr framlögum ríkja til mannúðargeirans á meðan framlögum til varnarmála og hergagnaframleiðslu vex fiskur um hrygg.
Ýmis teikn eru á lofti um að stofnanir og samtök sem hafa notið virðingar og verndar alþjóðasamfélagsins um langt skeið eigi undir högg að sækja. Vísindastofnanir, háskólar og alþjóðastofnanir sem vinna að útbreiðslu vísinda, þekkingar og heilbrigðis hafa misst fyrri stöðu sína í baráttu við gervivísindi og upplýsingaóreiðu. Sama gildir um mannúðarstofnanir sem hafa mannúð, óhlutdrægni og hlutleysi að leiðarljósi.
Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur orðið fyrir miklum áföllum á síðustu árum. Sjúkraflutningafólk og annað hjálparstarfsfólk hreyfingarinnar er svívirt og myrt við störf sín. Táknin okkar sem notið hafa virðingar alþjóðasamfélagsins síðustu 160 ár veita ekki sömu vernd og öryggi og þau hafa gert áður.
Rauði krossinn á Íslandi hefur verið sterkur bakhjarl fyrir íslenskt samfélag í 100 ár. Sömuleiðis höfum við staðið þétt við bakið á systurfélögum okkar víða um heim, Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans og Alþjóðaráði Rauða krossins. Framlag okkar er ekki einungis metið í fjármagni, heldur tölum við máli mannúðar, gegn sundrungu og óréttlæti.
Á tímum sem þessum getum við ekki staðið þögul hjá. Við verðum að brýna raustina og láta í okkur heyra, hvar sem færi gefst. Ég hvet allt Rauða kross fólk á Íslandi til að taka höndum saman. Finnum nýjar leiðir til fjáröflunar. Finnum nýjar leiðir til að láta að okkur kveða. Finnum nýjar leiðir til að spyrna við fótum og efla og styrkja Rauða krossinn, öllum jarðarbúum til heilla.
Lestu ársskýrslu Rauða krossins á Íslandi hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.