Alþjóðastarf
28 milljónir til að mæta kóleru í Malaví
02. mars 2023
Utanríkisráðuneytið veitti Rauða krossinum 28 milljón króna framlag til að styðja baráttu gegn kólerufaraldri í Malaví.

Utanríkisráðuneytið hefur samþykkt að veita Rauða krossinum 28 milljón króna viðbótarframlag í gegnum rammasamning um mannúðaraðstoð til að fjármagna verkefni Rauða krossins í Mangochi-héraði í Malaví til að bregðast við kólerufaraldri þar í landi.
Í Malaví er nú versti kólerufaraldur sem hefur geisað þar í tvo áratugi. Fyrstu smitin voru tilkynnt í febrúar 2022 á Machinga-svæðinu, en í mars á síðasta ári var faraldri lýst yfir. Þurrkar og næringarskorturinn sem þeim fylgir hafa haft mikil áhrif á stór svæði í Malaví og gert samfélögin, og sérstaklega börn, berskjölduð og aukið líkur á að þau láti lífið í faraldrinum. Í lok janúar höfðu 1108 manns látist og yfir 34 þúsund veikst og sem stendur eru flestir veikir í Mangochi-héraði.
Faraldurinn ógnar framförum
„Rauði krossinn á Íslandi hefur starfað náið með Rauða krossinum í Malaví að margs konar uppbyggingar- og mannúðarverkefnum á undanförnum 20 árum,“ segir Atli Viðar Thorstensen, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. „Með stuðningi frá utanríkisráðuneytinu og aðstoð Mannvina Rauða krossins höfum við séð jákvæðan árangur af starfi okkar, sem er borið uppi af sjálfboðaliðum Rauða krossins í Malaví.
Við höfum séð jákvæða þróun varðandi t.d. jafnrétti kynjanna, aukna vernd stúlkna og kvenna, bætt fæðuöryggi og aðgengi að vatni og hreinlæti. Hins vegar teflir kólerufaraldur á borð við þennan árangrinum í tvísýnu og þess vegna er mikilvægt að sporna við honum hratt og vel. Framlag utanríkisráðuneytisins kemur sér því einstaklega vel fyrir systkini okkar í Malaví sem standa frammi fyrir þessum áskorunum,“ bætir Atli við.
Reynt að efla seiglu samfélagsins
Malaví er landlukt land sem deilir landamærum með Mósambík, Sambíu og Tansaníu í suðurhluta Afríku. Það er eitt fátækasta land heims, þrátt fyrir verulegar umbætur í efnahags og skipulagsmálum til að stuðla að hagvexti á síðustu áratugum, sem hafa verið studdar af utanríkisráðuneytinu í gegnum sendiráð Íslands í höfuðborginni, Lilongwe. Yfir 80% íbúa starfa við landbúnað og atvinnulífið er afar viðkvæmt fyrir utanaðkomandi áföllum.
Frá árinu 2016 hefur starf Rauða krossins á Íslandi í Malaví snúist um að efla seiglu samfélagsins á ýmsan hátt með fjárhagslegum stuðningi frá utanríkisráðuneyti og í samstarfi við önnur landsfélög Rauða krossins. Þetta hefur verið gert með því að stuðla að lýðheilsu, inngildingu og valdeflingu og auka aðgang að hreinu vatni, auka hreinlæti og draga úr hættu á hamförum. Verkefni Rauða krossins hafa stuðlað að aukinni bólusetningartíðni hjá börnum yngri en fimm ára, aukinni viðurkenningu á getnaðarvörnum og stutt skólagöngu stúlkna og ungmenna.
----
Rauði krossinn á Íslandi tilheyrir allri þjóðinni, en án stuðning hennar getur félagið ekki sinnt þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem það stendur fyrir, samfélaginu til góðs. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum með því að gerast Mannvinur.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samið um ráðgjöf vegna fjölskyldusameininga
Innanlandsstarf 01. september 2025Rauði krossinn á Íslandi mun halda áfram að sinna ráðgjöf við flóttafólk vegna fjölskyldusameininga samkvæmt nýgerðum samningi við dómsmálaráðuneytið.

Ungu fólki úr Grindavík boðið á námskeið
Innanlandsstarf 01. september 2025Ungu fólki úr Grindavík á aldrinum 16-25 ára býðst í haust og vetur að sækja ókeypis námskeið sem hluta af verkefninu Viðnámsþróttur Suðurnesja. Markmiðið er að efla seiglu og sjálfstraust og veita hagnýt verkfæri sem nýtast í daglegu lífi til framtíðar.

Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.