Alþjóðastarf
36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
03. október 2025
Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í Úkraínu.
Rauði krossinn á Íslandi styrkti í september mannúðarstarf í Úkraínu um rúmlega 36 milljónir króna. Framlagið er svar við neyðarbeiðni Alþjóðasambands Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) vegna afleiðinga átakanna í Úkraínu. Styrkurinn er veittur með stuðningi utanríkisráðuneytisins og fjárframlögum frá almenningi á Íslandi.
„Átökin í Úkraínu hafa nú staðið í vel á fjórða ár og hafa á þeim tíma komið hart niður á almennum borgurum,“ segir Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri í alþjóðateymi Rauða krossins. „Innviðir í landinu hafa víða orðið fyrir miklum skemmdum og átökin því haft veruleg áhrif á aðgengi fólks að vatni, rafmagni, menntun og heilbrigðisþjónustu.“ Undir þessum kringumstæðum hefur það reynst áskorun að koma mannúðaraðstoð til þeirra sem búa á þeim svæðum sem hafa orðið hvað verst úti. IFRC hefur allt frá því átökin brutust út í upphafi árs 2022, með starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins í Úkraínu í broddi fylkingar, sinnt fólki sem oft er í mikilli neyð.
Milljónir almennra borgara hafa neyðst til að flýja Úkraínu en talið er að um 3,6 milljónir séu enn á flótta innan landsins. Starf Rauða krossins felst m.a. í því að útvega fólki mat og hreint vatn, tryggja því aðgang að hreinlætisaðstöðu, grunnheilbrigðisþjónustu og húsaskjóli. Einnig er lögð áhersla á að vernda fólk gegn ofbeldi og mismunun.
Átta sendifulltrúar á vettvang
Frá því átökin hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í Úkraínu. Einnig hefur félagið sent átta sendifulltrúa til stuðnings við neyðarviðbrögð hreyfingarinnar tengd átökunum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.