Alþjóðastarf
46 milljónir til Tyrklands og Sýrlands vegna skjálftanna
05. maí 2023
Rauði krossinn á Íslandi sendir alls 46 milljónir króna til að styðja við hjálpar- og mannúðarstörf vegna mannskæðu jarðskjálftanna sem urðu í Tyrklandi og Sýrlandi fyrir þremur mánuðum.
Í febrúar síðastliðnum urðu jarðskjálftar í Tyrklandi og Sýrlandi sem voru þeir stærstu í heila öld og ollu gríðarlegri eyðileggingu. Ljóst er að yfir 14,7 milljónir einstaklinga urðu fyrir áhrifum vegna skjálftanna, 60 þúsund manns týndu lífi og milljónir lentu á vergangi. Nú, þremur mánuðum síðar, þurfa þessir einstaklingar enn á miklum stuðningi að halda, sérstaklega fjárhagsaðstoð, eftir að hafa misst heimili sín, lífsviðurværi og allar eigur.
Heilu samfélögin, jafnvel heilu borgirnar, neyðast nú til að byrja upp á nýtt og sú vegferð er rétt að byrja. Fjölskyldur eiga líka erfitt með að jafna sig á því áfalli sem þau hafa orðið fyrir og eru margar hverjar í tímabundnu húsaskjóli sem er ekki nægilega öruggt. Því er brýn þörf fyrir áframhaldandi stuðning og fjármagn til að styðja bæði við áríðandi þarfir sem og langtíma uppbyggingu.
Það hefur skipt gríðarlega miklu máli að fá utanaðkomandi aðstoð á hamfarasvæðin og fjöldi landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans um allan heim hafa sent neyðaraðstoð og margvísleg hjálpargögn til að styðja við björgunarstörf og bæta aðstæður þolenda.
Mörg þúsund sjálfboðaliðar og starfsmenn frá Rauða hálfmánanum í Sýrlandi og Tyrklandi hafa verið á vettvangi að styðja við þolendur skjálftanna frá fyrsta degi. Með öflugum fjárstuðningi frá alþjóðasambandi Rauða krossins hefur verið hægt að efla þjónustu þessara félaga og ná til tæplega fjögurra milljón fleiri þolenda skjálftanna en annars hefðu verið hægt.
Viðbrögð Rauða krossins á Íslandi
Rauði krossinn á Íslandi hóf neyðarsöfnun vegna jarðskjálftanna sama dag og fréttir bárust af hamförunum. Um leið og söfnunin hófst var ljóst að þessar þjáningar snertu mörg hér á landi og með framlögum almennings og fyrirtækja söfnuðust alls 23.195.963 króna sem fara beint til hamfarasvæðanna.
Rauði krossinn á Íslandi sendi 15 milljónir króna til þolenda skjálftanna í Tyrklandi fljótlega eftir að þeir áttu sér stað, en sú upphæð kom að hluta frá neyðarsöfnuninni, að hluta frá Mannvinum Rauða krossins og með stuðningi utanríkisráðuneytisins. Þessum fjárstyrk verður svo fylgt eftir með 31 milljón króna í viðbót, sem munu styðja við áframhaldandi mannúðarstarf í Sýrlandi. Ástandið þar í landi er sérlega bágborið vegna vopnaðra átaka sem hafa staðið yfir í meira en áratug með tilheyrandi eyðileggingu og mannfalli, svo skjálftarnir gerðu vont ástand verra. Því er þörfin fyrir fjárhagsaðstoð meiri þar en í Tyrklandi.
Rauði krossinn vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg og stutt neyðarsöfnunina. Hver einasta króna verður nýtt í hjálparstarf á hamfarasvæðinu og mun koma að góðum notum til að mæta þeim miklu erfiðleikum sem fólkið á hamfarasvæðunum stendur frammi fyrir.
Þrátt fyrir að neyðarsöfnuninni sé lokið þýðir það alls ekki að Rauði krossinn á Íslandi sé hættur að styðja þolendur skjálftanna. Þau sem vilja styðja við hjálparstarfið í þessum ríkjum geta áfram gert það með því að gerast Mannvinir Rauða krossins hér.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“
Alþjóðastarf 26. janúar 2026„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram.“
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“