Alþjóðastarf
50 milljónir króna til neyðarsjúkrahússins á Gaza
03. september 2025
„Neyðarsjúkrahús Rauða krossins á Gaza er líflína þúsunda í hörmungunum miðjum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins. Félagið styrkti nýverið áframhaldandi starfsemi sjúkrahússins.
Rauði krossinn á Íslandi styrkti nýverið neyðarsjúkrahús Rauða krossins á Gaza um 50 milljónir króna með stuðningi Mannvina og utanríkisráðuneytisins. Rauði krossinn hefur stutt mannúðarstarf palestínska Rauða hálfmánans og alþjóðaráðs Rauða krossins á Gaza allt frá upphafi viðbragða í árslok 2023 og hefur auk þess sent fjóra sendifulltrúa til starfa á neyðarsjúkrahúsinu.
Sjúkrahúsið var hugsað til bráðabirgða en starfar enn, sextán mánuðum eftir að því var komið á laggirnar. Það gegnir stöðugt stærra hlutverki í heilbrigðisþjónustu á Gaza því margar opinberar sjúkrastofnanir eru orðnar óstarfhæfar.
„Heilbrigðiskerfið á Gaza er hrunið,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Neyðarsjúkrahús Rauða krossins er líflína þúsunda í hörmungunum miðjum.“
Þar er ekki aðeins veitt bráðaaðstoð heldur einnig mæðravernd, fæðingarhjálp og geðheilbrigðisþjónusta. Á sjúkrahúsinu, sem starfrækt er í tjaldbúðum, hafa 620 börn komið í heiminn og 8.200 skurðaðgerðir verið framkvæmdar svo dæmi séu tekin. 35 prósent allra sjúklinganna hafa verið börn.
Álagið á starfsfólk á neyðarsjúkrahúsinu er gríðarlegt. Og aðstæðurnar sem það starfar í verða sífellt flóknari. Neyðin vex stöðugt. Aðeins litlu magni hjálpargagna er hleypt inn á Gaza og sjúkrahús sem áður tóku við sjúklingum frá neyðarsjúkrahúsinu eru ýmist með skerta starfsemi eða enga. Á síðustu vikum hafa ítrekað komið stórir hópar fólks inn á sjúkrahúsið með skotáverka, þeirra á meðal börn. Oftast er um að ræða fólk sem skotið var á er það var að sækja sér mataraðstoð. Í ofanálag ríkir nú hungursneyð á Gaza.
„Ótti við hungur, hrakningar, skot- og sprengjuárásir og annað ofbeldi veldur öllum almennum borgurum á Gaza viðvarandi angist á hverjum einasta degi,“ segir Gísli. „Hjálpar- og heilbrigðisstarfsfólk fer ekki varhluta af þessu hrikalega ástandi en heldur áfram að hætta eigin lífi fyrir aðra.“
Gísli minnir enn og aftur á að alþjóðleg mannúðarlög, sem ríki heims hafa sammælst um og ber að fylgja, eru skýr: Almennir borgarar eru ekki skotmörk. Konur og börn njóta sérstakrar verndar. Hjálpar- og heilbrigðisstarfsfólk sömuleiðis. Leyfa skal greiðan, óheftan og skjótan flutning neyðaraðstoðar til þeirra sem á þurfa að halda.
Fordæma þurfi hátt og skýrt brot á þessum lögum. „Þjóðarleiðtogar þurfa að sýna í orði og verki að þeir séu í liði með mannúðinni. Í liði með almennum borgurum á Gaza. Nú þarf að sýna dirfsku og kjark. Þessum manngerðu hörmungum verður að linna. Hver einasta mínúta án vopnahlés kostar mannslíf.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.