Alþjóðastarf
50 milljónir króna til neyðarsjúkrahússins á Gaza
03. september 2025
„Neyðarsjúkrahús Rauða krossins á Gaza er líflína þúsunda í hörmungunum miðjum,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins. Félagið styrkti nýverið áframhaldandi starfsemi sjúkrahússins.

Rauði krossinn á Íslandi styrkti nýverið neyðarsjúkrahús Rauða krossins á Gaza um 50 milljónir króna með stuðningi Mannvina og utanríkisráðuneytisins. Rauði krossinn hefur stutt mannúðarstarf palestínska Rauða hálfmánans og alþjóðaráðs Rauða krossins á Gaza allt frá upphafi viðbragða í árslok 2023 og hefur auk þess sent fjóra sendifulltrúa til starfa á neyðarsjúkrahúsinu.
Sjúkrahúsið var hugsað til bráðabirgða en starfar enn, sextán mánuðum eftir að því var komið á laggirnar. Það gegnir stöðugt stærra hlutverki í heilbrigðisþjónustu á Gaza því margar opinberar sjúkrastofnanir eru orðnar óstarfhæfar.
„Heilbrigðiskerfið á Gaza er hrunið,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Neyðarsjúkrahús Rauða krossins er líflína þúsunda í hörmungunum miðjum.“

Þar er ekki aðeins veitt bráðaaðstoð heldur einnig mæðravernd, fæðingarhjálp og geðheilbrigðisþjónusta. Á sjúkrahúsinu, sem starfrækt er í tjaldbúðum, hafa 620 börn komið í heiminn og 8.200 skurðaðgerðir verið framkvæmdar svo dæmi séu tekin. 35 prósent allra sjúklinganna hafa verið börn.
Álagið á starfsfólk á neyðarsjúkrahúsinu er gríðarlegt. Og aðstæðurnar sem það starfar í verða sífellt flóknari. Neyðin vex stöðugt. Aðeins litlu magni hjálpargagna er hleypt inn á Gaza og sjúkrahús sem áður tóku við sjúklingum frá neyðarsjúkrahúsinu eru ýmist með skerta starfsemi eða enga. Á síðustu vikum hafa ítrekað komið stórir hópar fólks inn á sjúkrahúsið með skotáverka, þeirra á meðal börn. Oftast er um að ræða fólk sem skotið var á er það var að sækja sér mataraðstoð. Í ofanálag ríkir nú hungursneyð á Gaza.
„Ótti við hungur, hrakningar, skot- og sprengjuárásir og annað ofbeldi veldur öllum almennum borgurum á Gaza viðvarandi angist á hverjum einasta degi,“ segir Gísli. „Hjálpar- og heilbrigðisstarfsfólk fer ekki varhluta af þessu hrikalega ástandi en heldur áfram að hætta eigin lífi fyrir aðra.“

Gísli minnir enn og aftur á að alþjóðleg mannúðarlög, sem ríki heims hafa sammælst um og ber að fylgja, eru skýr: Almennir borgarar eru ekki skotmörk. Konur og börn njóta sérstakrar verndar. Hjálpar- og heilbrigðisstarfsfólk sömuleiðis. Leyfa skal greiðan, óheftan og skjótan flutning neyðaraðstoðar til þeirra sem á þurfa að halda.
Fordæma þurfi hátt og skýrt brot á þessum lögum. „Þjóðarleiðtogar þurfa að sýna í orði og verki að þeir séu í liði með mannúðinni. Í liði með almennum borgurum á Gaza. Nú þarf að sýna dirfsku og kjark. Þessum manngerðu hörmungum verður að linna. Hver einasta mínúta án vopnahlés kostar mannslíf.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
Alþjóðastarf 01. október 2025Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.

Grindvíkingar í fókus: Nýtt stuðningsverkefni
Innanlandsstarf 01. október 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ýtt úr vör nýju verkefni og býður Grindvíkingum á fjölda námskeiða, vinnustofa og viðburða, endurgjaldslaust. Verkefnið er unnið í samstarfi við KVAN, í samráði við Grindavíkurbæ og með stuðningi Rio Tinto.