Alþjóðastarf

75 árum eftir Hiroshima og Nagasaki er ógnin enn til staðar

06. ágúst 2020

Í dag eru 75 ár frá því kjarnorkusprengjunum var varpað á Hiroshima og síðar á Nagasaki. 

Fyrir 75 árum að morgni 6. ágúst árið 1945 varpaði B-29 flugvél nýju vopni á borgina Hiroshima. Kjarnorkusprengja þurrkaði út borgina og varð þegar í stað um 70 þúsund einstaklingum að bana. Tugir þúsunda einstaklinga til viðbótar hlutu áverka. Þremur dögum síðar þann 9. ágúst lagði önnur kjarnorkusprengja borgina Nagasaki í rúst og varð um 39 þúsund einstaklingum að bana.

Árið 1950 var áætlað að um 340 þúsund einstaklingar hefðu látist vegna áhrifa sprengjanna, meðal annars af völdum veikinda eftir að hafa orðið fyrir jónandi geislun. Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) og japanski Rauða krossinn urði vitni að ólýsanlegri þjáningu og eyðileggingu þegar læknar og hjálparstarfsmenn reyndu, við nánast ómögulegar aðstæður, að aðstoða deyjandi og slasaða einstaklinga.

Í dag eru 75 ár frá því kjarnorkusprengjunum var varpað á Hiroshima og síðar á Nagasaki. Á sama tíma hefur hættan á notkun kjarnorkuvopna aldrei verið meiri frá lokum kalda stríðsins. Þrætur milli kjarnorkuríka hafa aukist sem og hótanir um notkun kjarnorkuvopna.

Ný kjarnorkuvopn eru þróuð á sama tíma sem ríki hunsa ákvæði alþjóðasamninga um útrýmingu kjarnorkuvopna. Þessi þróun vekur ugg og því er þörf á því að alþjóðasamfélagið samþykki alhliða bann á eign kjarnorkuvopna og stuðli að útrýmingu þeirra. Sannað þykir að áhrif kjarnorkuvopna eru skelfileg og notkun slíkra vopna gæti aldrei samræmst ákvæðum alþjóðlegra mannúðarlaga.

“Sá hryllingur sem kjarnorkusprengja veldur kann að vera fjarlæg saga í huga margra. Þó er það þannig að hættan á því að kjarnorkuvopn verði notuð aftur er mjög mikil. Ríki hunsa alþjóðasamninga er miða að því að fækka og draga úr útbreiðslu kjarnorkusprengja. Ný vopn eru framleidd samhliða alvarlegum hótunum um notkun þeirra. Slíkt vopnakapphlaup er ógnverkjandi. Við verðum að þrýsta á að öll ríki banni kjarnorkuvopn,” segir Peter Maurer, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), en stofnunin eru hluti af alþjóðarhreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans sem starfar á átaka- og hamfarasvæðum um allan heim.

Francesco Rocca, forseti Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC) tekur í sama streng í fréttatilkynningu og segir að “alþjóðasamfélagið gæti ekki hjálpað öllum í neyð í kjölfar kjarnorkusprengingar.” Að engar mögulegar mannúðaraðgerðir gætu með fullnægjandi hætti tekist á við þær aðstæður sem skapast fyrir fólk og umhverfi vegna geislunar, eyðileggingar og mengunar. Engin þjóð er tilbúin að takast á við kjarnorkuárekstra.

Á fundi Sameinuðu þjóðanna í júlí 2017, samþykktu 122 ríki sáttmála um bann við kjarnorkuvopnum. Í dag hafa 40 ríki fullgilt sáttmálann sem er bindandi fyrir þau ríki eftir að fimmtugasta ríkið hefur fullgilt sáttmálann. Sáttmálinn bannar þróun, prófun, framleiðslu, geymslu, flutning og notkun kjarnorkuvopna og hótanir um notkun þeirra. Sáttmálinn kveður á um að kjarnorkuríki sem ganga að sáttmálanum fái ákveðinn tímaramma til að sýna fram á eyðingu allra kjarnorkuvopna og áætlana um þróun nýrra vopna.

Í fréttatilkynningu dagsins hrósa Rocca og Maurer þeim ríkjum sem þegar hafa gengið til liðs við nýja sáttmálann og hvetja öll önnur ríki til að gera slíkt hið sama og tryggja þannig að atburðirnir frá 1945 endurtaki sig ekki. Þeir telja einnig mikilvægt að sáttmálinn um bann við kjarnorkuvopnum verði nýtt viðmið alþjóðlegra mannúðarlaga.

Rocca undirstrikar einnig að mikilvægi þess að vekja athygli skelfilegum afleiðingum og ómannúðleika kjarnorkuvopna. Að lokum nefnir hann, að þjóðarleiðtogar verði að gefa skýr og ótvíræð skilaboð að notkun kjarnorkuvopna, undir hvaða kringumstæðum sem er, sé óviðunandi út frá mannúðlegum, siðferðislegum og lagalegum forsendum.

Það er álitið að yfir 14.000 kjarnorkusprengjur séu til í heiminum í dag og mögulegt að beita þúsundum sprengja á augabragði. Margar af þessum sprengjum búa yfir er tífalt meiri mætti en sprengjurnar sem féllu á Nagasaki og Hiroshima.


\"Imgonline-com-ua-twotoone-SBKc609KE2OC\"