Alþjóðastarf
Algjörlega yfirþyrmandi aðstæður
06. júní 2025
Þegar Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir starfaði á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins á Gaza var ástandið oft erfitt. Tugir særðra gátu komið samtímis sem var krefjandi fyrir alla og hratt gekk á birgðir. Nú hefur sá fjöldi margfaldast. Hátt í 200 hafa komið samtímis. „Þetta hlýtur að hafa verið algjörlega yfirþyrmandi fyrir starfsfólkið sem er að vinna þarna.“
Fólk í streituástandi. Svangt og á stöðugum flækingi undan loftárásum sem gerðar eru hvenær sem er sólarhringsins. Hræðsla og óöryggi.
„Það er hræðilegt ástand þarna,“ segir Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir sem fór sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi til starfa á neyðarsjúkrahúsi hreyfingarinnar á Gaza í fyrra og er enn í sambandi við kollega sem þar vinna. Í viðtali við Spegilinn á Rás 1 lýsti hún ástandinu eins og það var er hún starfaði á sjúkrahúsinu og hvernig það er orðið í dag. „Ástandið var engan veginn gott þegar ég var þarna og mér sýnist á öllu að það hafi versnað.“
Neyðarsjúkrahúsið var sett upp í maí á síðasta ári í borginni Rafah á suðurhluta Gaza, skammt frá landamærunum að Egyptalandi. Rauði krossinn á Íslandi er meðal 15 landsfélaga sem standa að rekstri spítalans og hafa fjórir sendifulltrúar á vegum félagsins unnið þar tímabundið frá opnun.
Starfsemin er í tjöldum enda aðeins hugsuð til bráðabirgða, þar til neyðarástand líður hjá og aðrar sjúkrastofnanir geta tekið við. „Í þessu tilfelli er það ekki hægt og spítalinn er enn í rekstri rúmu ári síðar,“ segir Hólmfríður.
Í fyrrasumar er hún var þar að störfum komu oft hópar særðra í einu á bráðamóttöku spítalans. Slíkt er kallað „fjöldatrauma“ útskýrir Hólmfríður. Og við þær aðstæður þurfa allir að leggjast á eitt. „Ég man eftir einu tilfelli þar sem komu þrjátíu til fjörutíu manns í einu og það létust tíu hjá okkur. Þetta var fólk á öllum aldri.“
Að taka á móti slíkum fjölda, á sjúkrahúsi sem útbúið er fyrir 60 sjúklinga, er mjög krefjandi og hratt gengur á allar birgðir. „Nú er ég nýbúin að heyra í okkar fólki úti og ég get tekið sem dæmi að fyrir þremur dögum kom hópur af slösuðum, 184 í einu. Og þeir voru flestir með skotsár eftir að hafa verið að reyna að sækja aðstoð við dreifingarstöð hjálpargagna. Hugsanlega að reyna að ná sér í mat. Af þessum 184, sem komu þá nánast á einu bretti, þá voru nítján fljótlega úrskurðaðir látnir og átta létust fljótlega á eftir. Ég er að reyna að ímynda mér hvernig þessi atburður hefur verið á sjúkrahúsinu. Þetta hlýtur að hafa verið algjörlega yfirþyrmandi fyrir starfsfólkið.“
Hólmfríður hefur áratuga reynslu af hjálparstarfi og hefur starfað í löndum á borð við Sýrland, Úkraínu og Afganistan. Aðstæðurnar á Gaza eru með því allra erfiðasta sem hún hefur mætt. „Gífurlegar sprengjuárásir, óöryggi. Og þetta gerist bara hvenær sem er á sólarhringnum. Aðstæður eru svo ómannúðlegar. Það er mjög hræðilegt ástand þarna.“
Íbúar Gaza hafast flestir við í tjöldum og skortur er á öllum helstu lífsnauðsynjum. „Og við þetta bætist að fólk er í streituástandi – stöðugt,“ segir Hólmfríður. „Það er hræðsla og óöryggi. Svo er fólk með fatlanir og langveikt sem fær ekki þá aðstoð sem það þarf á að halda. Þau eru stöðugt að færa sig. Þetta er eins og bylgja sem fer fram og til baka. Þau fara með það litla sem þau eru með á næsta stað og síðan fara fljótlega á næsta stað. Þetta eru gífurlega erfið lífskjör eins og staðan er núna.“
En lífið heldur áfram. Börn halda áfram að fæðast. Og vekja vonir í brjósti fólks. Að því varð Hólmfríður oft vitni er hún tók á móti börnum á fæðingardeild neyðarsjúkrahússins. „Eins og ein móðir, sem hafði fætt son, sagði við mig: „Kannski breytir hann öllu í framtíðinni“.“
Hér getur þú hlustað á viðtalið við Hólmfríði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.