Alþjóðastarf
Algjörlega yfirþyrmandi aðstæður
06. júní 2025
Þegar Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir starfaði á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins á Gaza var ástandið oft erfitt. Tugir særðra gátu komið samtímis sem var krefjandi fyrir alla og hratt gekk á birgðir. Nú hefur sá fjöldi margfaldast. Hátt í 200 hafa komið samtímis. „Þetta hlýtur að hafa verið algjörlega yfirþyrmandi fyrir starfsfólkið sem er að vinna þarna.“

Fólk í streituástandi. Svangt og á stöðugum flækingi undan loftárásum sem gerðar eru hvenær sem er sólarhringsins. Hræðsla og óöryggi.
„Það er hræðilegt ástand þarna,“ segir Hólmfríður Garðarsdóttir ljósmóðir sem fór sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi til starfa á neyðarsjúkrahúsi hreyfingarinnar á Gaza í fyrra og er enn í sambandi við kollega sem þar vinna. Í viðtali við Spegilinn á Rás 1 lýsti hún ástandinu eins og það var er hún starfaði á sjúkrahúsinu og hvernig það er orðið í dag. „Ástandið var engan veginn gott þegar ég var þarna og mér sýnist á öllu að það hafi versnað.“
Neyðarsjúkrahúsið var sett upp í maí á síðasta ári í borginni Rafah á suðurhluta Gaza, skammt frá landamærunum að Egyptalandi. Rauði krossinn á Íslandi er meðal 15 landsfélaga sem standa að rekstri spítalans og hafa fjórir sendifulltrúar á vegum félagsins unnið þar tímabundið frá opnun.

Starfsemin er í tjöldum enda aðeins hugsuð til bráðabirgða, þar til neyðarástand líður hjá og aðrar sjúkrastofnanir geta tekið við. „Í þessu tilfelli er það ekki hægt og spítalinn er enn í rekstri rúmu ári síðar,“ segir Hólmfríður.
Í fyrrasumar er hún var þar að störfum komu oft hópar særðra í einu á bráðamóttöku spítalans. Slíkt er kallað „fjöldatrauma“ útskýrir Hólmfríður. Og við þær aðstæður þurfa allir að leggjast á eitt. „Ég man eftir einu tilfelli þar sem komu þrjátíu til fjörutíu manns í einu og það létust tíu hjá okkur. Þetta var fólk á öllum aldri.“
Að taka á móti slíkum fjölda, á sjúkrahúsi sem útbúið er fyrir 60 sjúklinga, er mjög krefjandi og hratt gengur á allar birgðir. „Nú er ég nýbúin að heyra í okkar fólki úti og ég get tekið sem dæmi að fyrir þremur dögum kom hópur af slösuðum, 184 í einu. Og þeir voru flestir með skotsár eftir að hafa verið að reyna að sækja aðstoð við dreifingarstöð hjálpargagna. Hugsanlega að reyna að ná sér í mat. Af þessum 184, sem komu þá nánast á einu bretti, þá voru nítján fljótlega úrskurðaðir látnir og átta létust fljótlega á eftir. Ég er að reyna að ímynda mér hvernig þessi atburður hefur verið á sjúkrahúsinu. Þetta hlýtur að hafa verið algjörlega yfirþyrmandi fyrir starfsfólkið.“

Hólmfríður hefur áratuga reynslu af hjálparstarfi og hefur starfað í löndum á borð við Sýrland, Úkraínu og Afganistan. Aðstæðurnar á Gaza eru með því allra erfiðasta sem hún hefur mætt. „Gífurlegar sprengjuárásir, óöryggi. Og þetta gerist bara hvenær sem er á sólarhringnum. Aðstæður eru svo ómannúðlegar. Það er mjög hræðilegt ástand þarna.“
Íbúar Gaza hafast flestir við í tjöldum og skortur er á öllum helstu lífsnauðsynjum. „Og við þetta bætist að fólk er í streituástandi – stöðugt,“ segir Hólmfríður. „Það er hræðsla og óöryggi. Svo er fólk með fatlanir og langveikt sem fær ekki þá aðstoð sem það þarf á að halda. Þau eru stöðugt að færa sig. Þetta er eins og bylgja sem fer fram og til baka. Þau fara með það litla sem þau eru með á næsta stað og síðan fara fljótlega á næsta stað. Þetta eru gífurlega erfið lífskjör eins og staðan er núna.“
En lífið heldur áfram. Börn halda áfram að fæðast. Og vekja vonir í brjósti fólks. Að því varð Hólmfríður oft vitni er hún tók á móti börnum á fæðingardeild neyðarsjúkrahússins. „Eins og ein móðir, sem hafði fætt son, sagði við mig: „Kannski breytir hann öllu í framtíðinni“.“
Hér getur þú hlustað á viðtalið við Hólmfríði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.