Fara á efnissvæði

Alþjóðastarf

Bak við tjöldin í neyðarsjúkrahúsinu á Gaza

15. september 2025

Forgangsraða þarf mat á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. Fyrst fá sjúklingarnir og aðstandendur þeirra að borða. Svo starfsfólkið. Mitt í neyðinni upplifir fólk fágæt en dýrmæt gleðileg augnablik. Eins og að sjá stúlku sem missti fótinn ganga á ný.

Hópur barna fyrir framan Drauma-rútuna. Hún er athvarf fyrir börnin á neyðarsjúkrahúsinu.

Neyðarsjúkrahús Rauða krossins var sett upp í Rafah á suðurhluta Gaza í maí árið 2024. Það var sett á laggirnar í samvinnu við palestínska Rauða hálfmánann og með stuðningi frá Rauða krossinum á Íslandi, í Ástralíu, Austurríki, Danmörku, Finnlandi, Frakklandi, Japan, Kanada, Kína (Hong Kong-deild), Noregi, Svíþjóð, Sviss, Bretlandi og Þýskalandi.

Frá stofnun og fram til 2. ágúst í ár þurfti starfsfólk á sjúkrahúsinu að bregðast 80 sinnum við fjöldaatburðum þar sem tugir særðra komu samtímis til meðferðar. Flest voru með skotsár sem þau fengu er þau voru að reyna að verða sér úti um nauðþurftir á stöðum þar sem hjálpargögnum er dreift.

Börnin á neyðarsjúkrahúsinu horfa á teiknimynd við Drauma-rútuna.

Á sjúkrahúsinu hafa frá upphafi verið tekin um 150 þúsund viðtöl við sjúklinga, framkvæmdar 8.530 skurðaðgerðir, tekið á móti 642 börnum í heiminn, 3.828 sjúklingar verið lagðir inn, 6.910 blóðgjafir verið gefnar og 11.938 meðferðir í sjúkraþjálfun verið veittar.

Líkt og á öðrum sjúkrahúsum gegnir eldhúsið á neyðarsjúkrahúsinu mikilvægu hlutverki. Þar eru daglega útbúnar máltíðir fyrir sjúklinga, aðstandendur þeirra og starfsfólk. Þetta þarf að gera af mikilli útsjónarsemi þar sem allt er af skornum skammti á Gaza.

Ismail Al-Ajez gegnir ýmsum verkefnum á neyðarsjúkrahúsinu, m.a. að því að sjá til þess að máltíðir séu bornar fram.

Ismail Al-Ajez hefur unnið á neyðarsjúkrahúsinu í tæpt ár. Auk þess að hafa yfirumsjón með stjórnsýslu- og fjármálum er það í hans verkahring að sjá til þess að máltíðir séu fram bornar. „Sjúklingar og aðstandendur þeirra eru í forgangi. Síðan starfsmennirnir,“ útskýrir hann. „Við höfum staðið frammi fyrir árskorunum vegna skorts á hráefnum í máltíðir.“

Litlu af hjálpargögnum og matvælum er hleypt inn á Gaza og hefur sú staða verið viðvarandi mánuðum saman. Hungursneyð hefur verið lýst yfir.

Þegar birgðir tóku að minnka þurfti teymið hans Ismail að aðlagast. „Við gripum til neyðarbirgða okkar til að tryggja máltíðir. Við aðlöguðum skammtastærðir til að viðhalda lágmargsbirgðum fyrir sjúklinga og starfsfólk eftir langa vinnudaga. Skorturinn hefur áhrif á fjölbreytni máltíða, sérstaklega hvað prótein og fitu varðar, sem eru nauðsynleg fyrir sjúklinga til að ná bata.“

Eldhúsaðstaðan á neyðarsjúkrahúsinu var eins og annað sett upp til bráðabirgða. Enn er hún í fullri notkun, sextán mánuðum síðar.

Þrátt fyrir þessar gríðarlegu þrengingar og skort á öllu hefur eldhúsið aldrei hætt að framreiða mat. „Ég er stoltur af því hversu mikið samstarfsfólk mitt hefur lagt á sig til að við höfum aldrei þurft að hætta að gefa sjúklingum neyðarsjúkrahússins að borða. Öll teymin á sjúkrahúsinu hafa lagt mikið á sig og þrátt fyrir allar þessar áskoranir hefur okkur tekist að halda þjónustunni gangandi fyrir fólkið á Gaza.“

Eman Ayyash veitir geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegan stuðning á neyðarsjúkrahúsinu.

Palestínski Rauði hálfmáninn: Mannúð í verki

Meðal þeirra sem sinna mannúðaraðstoð á Gaza eru teymi palestínska Rauða hálfmánans. Starf þeirra snýst ekki aðeins um að græða sár og bjarga mannslífum heldur einnig um að lina sársauka sem ekki sést utan á fólki.

Eman Ayyash er frá Rafah. Hún veitir geðheilbrigðisþjónustu og sálfélagslegan stuðning á neyðarsjúkrahúsinu. „Ég hef upplifað nokkur stríð á minni ævi en ekkert hefur verið í líkingu við það sem við erum að ganga í gegnum núna.“

Hún leggur áherslu á að halda börnum sem liggja inni á sjúkrahúsinu virkum og „gefa þeim einfaldlega tækifæri til að vera börn á ný,“ segir hún um starf sitt. Í þessum tilgangi kom Drauma-rútan til sögunnar. Þar er á ferðinni skreyttur sjúkrabíll þar sem börnin geta horft á teiknimyndir, leikið sér og fengið tímabundið skjól frá hörmungunum fyrir utan.

En á meðan Eman sinnir störfum sínum með börnunum er hún að fást við eigin sorg í kjölfar missis. „Einn erfiðasti dagur lífs míns var í ágúst 2024,“ segir hún, „aðeins nokkrum dögum eftir að ég hóf störf á sjúkrahúsinu. Þann dag missti ég föður minn. Að mæta aftur til vinnu eftir það var gríðarlega erfitt. En ég var þó stolt, stolt af því að geta haldið áfram að vinna því ég vissi að faðir minn hefði verið stoltur af mér.“

Ástríða Eman fyrir starfinu og allt það fólk sem þarf á aðstoð hennar að halda drífur hana áfram.

„Ég hef brennandi áhuga á starfi mínu. Sú ástríða heldur mér gangandi. Fólk segir oft við mig að brosið mitt hafi skipt það máli, að fólki finnist að ég skilji það í raun og veru. Þess vegna get ég ekki hætt og þess vegna vil ég ekki hætta. Faðir minn var alltaf minn helsti stuðningsmaður og ég held áfram fyrir hann líka.“

„Ég held áfram vegna litlu gleðistundanna,“ segir hún. „Þær eru sjaldgæfar en dýrmætar. Ég man eftir einu barni sem hafði misst fótlegg. Hún var fjóra mánuði á sjúkrahúsinu. Daginn sem hún stóð upp á nýja gervifætinum sínum og fór að ganga fann ég fyrir svo mikilli hamingju. Sú minning er ein af mínum uppáhalds, ein af mínum stærstu velgengnissögum. Það eru þessar stundir sem gefa mér styrk til að halda áfram.“

Áfjáður í að gera gagn

Fyrir Tarad Abo Mousa er starfið hjá palestínska Rauða hálfmánanum meira en bara vinna. „Ég er mjög stoltur og ánægður með að sinna þessu starfi og ég vil aldrei hætta,“ segir hann. „Ég reyni alltaf að gera gagn og nota alla mína færni til að aðstoða aðra.“

Tarad hefur lært sjúkraþjálfun og veitir sjúklingum endurhæfingu á neyðarsjúkrahúsinu.

Tarad er menntaður í sjúkraþjálfun og endurhæfingu og hefur unnið með íþróttafólki, fólki sem hefur misst útlim og sjúklingum sem eru að jafna sig eftir meiðsli. Hann heldur einnig utan um heilsufarsgögn palestínska Rauða hálfmánans á öllu Gaza. Nýlega tók hann svo líka að sér að flytja sjúklinga með sjúkrabíl frá neyðarsjúkrahúsinu til annarra stofnana til sérhæfðari meðferða.

Tarad dreymir um að verða bráðatæknir en til að öðlast slík réttindi þyrfti hann að fara til náms í Jórdaníu. Þangað til sá draumur getur orðið að veruleika einbeitir hann sér að því að sinna fólkinu í sínu nánasta umhverfi.

„Þegar ég starfaði í Khan Younis var ég á vakt í fimm mánuði samfleytt,“ segir hann. „Ég vann svona mikið vegna þess að ég fann að nærveru minnar var þörf. Ég get ekki setið aðgerðalaus heima. Ég vil vera til staðar fyrir sjúklingana og samstarfsfólk mitt.“

Viltu leggja neyðarsjúkrahúsinu lið? Það getur þú gert með því að gerast Mannvinur.