Alþjóðastarf
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
21. október 2025
Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Margfalda þarf þá aðstoð sem flutt er inn á Gaza eftir að samkomulag um vopnahlé náðist. Að sama skapi þarf breiður, alþjóðlegur stuðningur við þær miklu mannúðaraðgerðir sem þörf er að ráðast í á svæðinu að vera skýr. Opna þarf allar gáttir inn á Gaza svo að lífsnauðsynleg hjálpargögn komist þangað í nægu magni til að lina þær skelfilegu aðstæður sem almennir borgarar hafa búið við í tvö ár.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu frá Alþjóðasambandi Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Eftir að samkomulag um vopnahlé náðist hefur verið mögulegt að flytja meira af hjálpargögnum inn á Gaza flesta daga en mánuðina á undan. En aðstoðin er engu að síður langt frá því að uppfylla brýnustu þarfir íbúanna. Alþjóðasambandið ítrekar ákall sitt um að aðgengi með hjálpargögn að svæðinu verði tryggt og óhindrað.
Alþjóðasambandið hefur sent út neyðarkall til að fjármagna þá umfangsmiklu aðstoð sem landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans á svæðinu munu sjá um að veita fólkinu á Gaza. Enn sem komið er eru þær aðgerðir verulega vanfjármagnaðar. „Nú er rétti tíminn til að styðja við neyðarsöfnunina,“ segir í yfirlýsingu sambandsins.
Rauði krossinn á Íslandi hefur svarað þessu neyðarkalli og hafið neyðarsöfnun fyrir fólkið á Gaza. Söfnunin fór vel af stað en Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri félagsins, hvetur fleiri, ekki síst fyrirtæki, til að leggja henni lið. „Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð,“ segir hann. „Vopnahléð hefur ekki fært því fullkominn frið en það hefur opnað mikilvægan glugga til að ná til þeirra og hann verðum við í sameiningu að nýta eftir fremsta megni.“
Með því að styðja við neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi leggur þú þitt af mörkum til hjálparstarfsins á Gaza. Félagar okkar á vettvangi; á Gaza, í Jórdaníu og Egyptalandi, vinna af kappi við að skipuleggja mannúðaraðgerðirnar og koma aðstoðinni til þeirra sem mest þurfa á að halda.
Palestínski Rauði hálfmáninn hefur í tvö ár sinnt lífsbjargandi starfi á Gaza. Á þeim tíma hefur 31 starfsmaður og sjálfboðaliði félagsins verið drepinn. En áfram er haldið, þótt sorgin sé mikil. Félagið rekur sjúkrahús, neyðarskýli og sjúkrabíla auk þess að styðja íbúa með margvíslegum öðrum hætti.
Egypski Rauði hálfmáninn heldur utan um birgðastjórnun allrar aðstoðar sem flutt er frá Egyptalandi til Gaza. Þetta er risavaxið verkefni enda mestu mannúðaraðgerðir frá seinna stríði hafnar. Um 150 flutningabílar flytja nú neyðarbirgðir inn á Gaza á hverjum degi. Það er hvergi nærri nóg. Þeir þyrftu að vera 600 til að ná að anna þörfinni sem skapast hefur á svæðinu.
Jórdanski Rauði hálfmáninn er í startholunum að flytja neyðaraðstoð inn á svæðið um leið og færi gefst. Félagið hefur einnig tekið á móti sjúklingum sem fluttir hafa verið frá Gaza og undirbýr að taka við fleirum.
Hér finnur þú ýmsar leiðir sem þú eða þitt fyrirtæki getur nýtt til að leggja neyðarsöfnun Rauða krossins fyrir fólkið á Gaza lið.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.