Alþjóðastarf
Fordæmalaus fjöldi særðra komið á neyðarsjúkrahúsið
03. júní 2025
Á einni viku hefur starfsfólk neyðarsjúkrahúss Rauða krossins í Rafah fimm sinnum tekið á móti miklum fjölda særðra í einu. Á sunnudag voru þeir 179. Í morgun voru þeir 184. „Almennir borgarar sem reyna að nálgast mannúðaraðstoð ættu ekki að þurfa að standa frammi fyrir hættu,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins.

Neyðarsjúkrahús Rauða krossins í Rafah á Gaza tók í morgun á móti 184 sjúklingum á skömmum tíma. Nítján voru úrskurðuð látin við komu og átta til viðbótar létust ekki löngu síðar af sárum sínum. Flestir sjúklinganna höfðu skotáverka. Allir sjúklingarnir sögðust hafa verið að reyna að komast á stað þar sem dreifa átti hjálpargögnum.
Þetta er mesti fjöldi sjúklinga með skotáverka sem komið hefur á sjúkrahúsið í einu frá því að það var opnað fyrir ári síðan.
Ekki er lengra síðan en á sunnudag að annað eins átti sér stað. Þá tók neyðarsjúkrahúsið á móti 179 sjúklingum á skömmum tíma, þar á meðal konum og börnum. Flest hafði fólkið áverka eftir byssuskot eða sprengjur sem það sagðist hafa fengið er það var að reyna að komast að hjálpargögnum.

Á aðeins einni viku hefur starfsfólk sjúkrahússins brugðist við fimm fjöldaatburðum sem þessum þar sem gríðarlegur fjöldi særðra kemur til meðferðar á stuttum tíma. Sextíu sjúkrarúm eru á spítalanum. Það er því langt umfram getu sjúkrahússins að sinna svo mörgum í einu.
„Þessi fordæmalausi fjöldi sjúklinga og tíðni atburða þar sem margir særðir koma á sjúkrahúsið í einu er gríðarlegt áhyggjuefni og er til marks um þann hrikalega raunveruleika sem almennir borgarar á Gaza neyðast til að þola,“ segir í yfirlýsingu Alþjóðaráðs Rauða krossins. Í núverandi ástandi sé ekki gerlegt að endurnýja birgðir á neyðarsjúkrahúsinu nægilega hratt svo hægt sé að sinna þessum mikla fjölda. Það eykur enn á álagið á sjúkrahúsið og starfsfólk þess.
Greið leið hjálpargagna verði tryggð
Rauði krossinn á Íslandi er í hópi fimmtán landsfélaga sem koma að rekstri neyðarsjúkrahússins í Rafah undir forystu Rauða krossins í Noregi. Fjórir íslenskir sendifulltrúar hafa starfað á sjúkrahúsinu á því ári sem það hefur verið starfrækt.
Alþjóðaráðið ítrekar í yfirlýsingu sinni enn og aftur eindregið ákall sitt um að virðing sé borin fyrir almennum borgurum á Gaza og þeir látnir njóta þeirrar verndar sem alþjóðleg mannúðarlög kveða á um. „Almennir borgarar sem reyna að nálgast mannúðaraðstoð ættu ekki að þurfa að standa frammi fyrir hættu. Nú er meira áríðandi en nokkru sinni að leyfa greiða, hraða og óhindraða leið hjálpargagna inn á Gaza.“
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
Alþjóðastarf 30. júlí 2025Alþjóðaráð Rauða krossins fór ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.

Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
Alþjóðastarf 29. júlí 2025Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.