Alþjóðastarf
Forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) fundar í Kænugarði
17. mars 2022
Peter Maurer, forseti Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) er nú staddur í Kænugarði í fimm daga í þeim tilgangi að kalla eftir auknu aðgengi mannúðaraðstoðar og hvetja til þess að dregið verði úr þjáningu óbreyttra borgara og þeir verndaðir.
Í ferð sinni mun Maurer sjá og kynna sér áskoranirnar sem óbreyttir borgarar standa frammi fyrir vegna átakanna auk þess að hitta fulltrúa ríkisstjórnar Úkraínu og kanna hvernig Rauði krossinn getur aukið enn frekar við hlutlausa og óhlutdræga mannúðaraðstoð sína sem felst m.a. í mataraðstoð, sjúkravörum og öðrum varningi til þolenda átakanna.
„Eftir gífurlegar þjáningar almennra borgara og viðamikil fjarsamskipti okkar við stjórnvöld í Rússlandi og Úkraínu finnst mér afar mikilvægt að við hittumst augliti til auglitis og getum rætt ítarlega um mikilvægi hlutlausrar, sjálfstæðrar og óhlutdrægrar mannúðaraðstoðar og að leyfi okkar til að starfa í landinu sé fullkomlega skilið og samþykkt af yfirvöldum“ sagði Maurer.
Í fyrradag aðstoðaði Rauði krossinn þúsundir óbreyttra borgara að komast örugga leið frá borginni Sumy. Um tvær bílalestir með a.m.k. 80 rútum er að ræða sem fóru frá Sumy til borgarinnar Lubny. „Umfang þessara hörmunga er einfaldlega óskiljanlegt. Hér eru hundruðir óbreyttra borgara sem reyna að komast í rútur og við munum reyna að fylgja bílalestinni og koma þeim aftur í einhverskonar öryggi“ sagði Erik Tollefsen, sendifulltrúi ICRC sem var viðstaddur aðgerðirnar.
Alþjóðaráð Rauða krossins vonast til að fleiri öruggar undakomuleiðir verði fundnar fyrir óbreytta borgara sem þurfa að komast frá átakasvæðum og eru í þörf fyrir brýna mannúðaraðstoð. Hingað til hefur Rauði krossinn aðstoðað um 60 þúsund óbreytta borgara að komast í öruggara umhverfi frá mismunandi borgum innan Úkraínu.
Alþjóðaráð Rauða krossins leggur áherslu á að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum sem og skilning á hlutverki Alþjóðaráðs Rauða krossins við að heimsækja stríðsfanga og aðra sem eru teknir höndum í tengslum við vopnuð átök og stuðla að aukinni vernd þeirra sem taka ekki lengur þátt í átökunum sem og vernd óbreyttra borgara og borgaralegra innviða.
Í ferð sinni um Úkraínu mun Peter Maurer hitta starfsfólk og sjálfboðaliða Rauða krossins sem bera uppi mannúðarstarf í landinu og sömuleiðis halda áfram reglubundnum viðræðum sínum við embættismenn í Moskvu um mannúðaraðstoð.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Rauði krossinn fjölgar fatakössum á höfuðborgarsvæðinu
Almennar fréttir 18. nóvember 2025Nýjum söfnunarkössum Rauða krossins fyrir fatnað og annan textíl hefur verið komið fyrir við fimm Bónusverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Samtals eru kassarnir því á sjö stöðum á svæðinu og stefnt er á frekari útbreiðslu á næstu misserum.
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.