Alþjóðastarf
Fyrstu viðbrögð hreyfingarinnar vegna hamfara í Marokkó
11. september 2023
Á föstudagskvöld varð öflugur jarðskjálfti í Marokkó sem kostaði þúsundir lífið og olli mikilli eyðileggingu. Rauði hálfmáninn hóf strax störf við að bregðast við þessum hörmungum.
Jarðskjálftinn var af stærðinni 6,8 og upptök hans voru á litlu dýpi í Atlasfjöllum, um 75 kílómetra suðaustur af Marrakesh. Nítján mínútum síðar varð eftirskjálfti sem var 4,9 að stærð.
Tala látinna er nú komin í tæplega 2500 manns, en það er enn ekki ljóst hve margir hafa látist og slasast, þar sem þau þorp og bæir sem urðu verst úti eru í ógreiðfæru fjalllendi.
Rauði hálfmáninn í Marokkó, sem hefur 8000 sjálfboðaliða, brást umsvifalaust við skjálftanum og er að hjálpa til við að meta aðstæður, samhæfa björgunaraðgerðir og veita þolendum skjálftans aðstoð í samvinnu við yfirvöld og aðra viðbragðsaðila.
Alþjóðasamband Rauða krossins, þar á meðal Rauði krossinn á Íslandi, votta aðstandendum þeirra sem hafa týnt lífi í þessum hörmungum dýpstu samúð og óskar þeim sem hafa slasast skjóts bata.
Það sem skiptir höfuðmáli núna er að bjarga lífum með öflugum björgunaraðgerðum, ásamt því að hlúa að þolendum skjálftanna.
Ekkert landsfélag getur brugðist við slíkum hamförum eitt síns liðs. Alþjóðasamband Rauða krossins mun styðja við viðbrögðin vegna hamfaranna og hefur þegar sent rúmlega 150 milljónir króna til að styðja við björgunaraðgerðir, auk þess sem ýmis landsfélög hafa boðið fram aðstoð sína. Þetta neyðarviðbragð er maraþon, en ekki spretthlaup. Mikilvægt er að bregðast hratt við, en þolendur skjálftanna munu þurfa stuðning næstu vikur og mánuði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.
Fólkið á Gaza þolir enga bið eftir aðstoð
Alþjóðastarf 21. október 2025Um 150 flutningabílar komast nú flesta daga inn á Gaza með mannúðaraðstoð. Þeir þyrftu að vera margfalt fleiri. Vopnahléð hefur ekki fært fólkinu fullkominn frið, segir framkvæmdastjóri Rauða krossins, en opnað mikilvægan glugga til að ná til þess og hann verður að nýta.
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
Innanlandsstarf 16. október 2025Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.