Alþjóðastarf
Gátu flutt hjálpargögn til Sweida
30. júlí 2025
Alþjóðaráð Rauða krossins náði að tryggja sér aðgang að átakasvæðum í Sweida í suðurhluta Sýrlands með hjálpargögn og teymi sem mátu stöðu borgaranna. Fólkið hefur þurft að búa við hrinu ofbeldis vikum saman. Rauði krossinn á Íslandi hefur stutt við neyðaraðgerðir alþjóðaráðsins í Sýrlandi í mörg ár og mun halda því áfram.
Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) fór í vikunni ásamt sýrlenska Rauða hálfmánanum í sendiferð til Sweida í suðurhluta Sýrlands með nauðsynleg hjálpargögn og til að meta þarfir íbúanna á svæðinu fyrir frekari aðstoð. Fjölmargt fólk frá Sweida og nágrenni býr á Íslandi.
„ICRC sendi fjölfaglegt teymi á vettvang til að skilja betur og bregðast frekar við brýnustu þörfum,“ segir Stephan Sakalian, yfirmaður sendinefndar ICRC í Sýrlandi. Sendiförin var farin í samvinnu við sýrlenska Rauða hálfmánann. „Starfsfólk hans og sjálfboðaliðar hafa unnið framúrskarandi starf við afar erfiðar aðstæður,“ segir Sakalian.
Fulltrúar sendinefndarinnar ræddu við fjölskyldur, samfélagsleiðtoga og heilbrigðisstarfsfólk til að greina á hverju þau þurfa mest á að halda.
Fjöldi særðra á sjúkrahúsum
Teymi ICRC heimsótti m.a. skrifstofur sýrlenska Rauða hálfmánans í Sweida sem og tvö sjúkrahús sem Rauði krossinn tekur þátt í að reka á svæðinu. Mikill fjöldi særðra hefur þurft að fá aðhlynningu á sjúkrahúsunum frá því að hrina ofbeldisverka braust út. Teymið heimsótti einnig fimm neyðarskýli þar sem hundruð almennra borgara sem flúið hafa undan ofbeldinu hafast við.
Teymi sýrlenska Rauða hálfmánans flutti m.a. hveiti inn á svæðið og dreifði birgðunum í bakarí. Einnig kom teymið með hreinlætis- og lækningavörur til sjúkrahúsanna tveggja. Að auki var matur, dýnur og teppi meðal neyðargagna.
Sameiginlegar aðgerðir sem þessar eru gríðarlega mikilvægar fyrir fólkið í Sweida sem hefur búið við ótryggt ástand og stöðuga hættu vikum saman. Aðgengi þeirra að grunninnviðum á borð við heilbrigðisþjónustu er takmarkaður vegna ofbeldisins og sömuleiðis aðgangur þeirra að mörkuðum með nauðsynjavörur.
Almennir borgarar njóti verndar
Frá því að ofbeldið jókst fyrir nokkrum vikum hefur Alþjóðaráð Rauða krossins stöðugt hvatt þá aðila sem að því standa til að vernda almenna borgara, varðveita mannlega reisn fólks og tryggja öruggan, viðvarandi og óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar.
Fyrir þúsundir fjölskyldna sem komast hvergi og neyðast til að búa við ofbeldið skiptir sendiferð teyma Alþjóðaráðsins og sýrlenska Rauða hálfmánans miklu. Ekki aðeins vegna þess að hjálpargögnum var dreift heldur vekur heimsóknin von og veitir létti eftir óbærilegar og stöðugar þjáningar síðustu vikur, segir Sakilian.
Mikil og brýn þörf er fyrir frekari mannúðaraðstoð í Sweida. Alþjóðaráð Rauða krossins mun leggja sig fram við að fá frekari aðgang að svæðinu sem og að styðja við neyðaraðgerðir sýrlenska Rauða hálfmánans. Það gerir Rauði krossinn á Íslandi líka. Félagið hefur stutt við neyðaraðgerðir alþjóðaráðsins í Sýrlandi í mörg ár og mun halda því áfram.
Um Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC):
Alþjóðaráð Rauða krossins er hlutlaust, óhlutdrægt og sjálfstætt og starfar eingöngu með mannúð að leiðarljósi í samræmi við Genfarsamningana frá 1949. Ráðið aðstoðar fólk um allan heim sem verður fyrir áhrifum af vopnuðum átökum og öðru ofbeldi og gerir það sem í þess valdi stendur til að vernda líf fólks og reisn og draga úr þjáningum, oft í samstarfi við landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans á viðkomandi svæðum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.