Alþjóðastarf
Hjálpargögn berast frá alþjóðahreyfingu Rauða krossins og Rauða hálfmánans
10. febrúar 2023
Mikið magn hjálpargagna er komið til Sýrlands frá landsfélögum um allan heim.
Síðan jarðskjálftinn reið yfir þann 6. febrúar og olli ólýsanlegum skemmdum í bæði Tyrklandi og Sýrlandi hafa fjölmörg landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans sent hjálpargögn á vettvang til Sýrlands. Aðstoð Rauða krossins hefur verið að berast frá því á þriðjudaginn og er stöðugt að aukast.
Þannig brugðust landsfélög Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Alsír, Egyptalandi, Palestínu, Írak, Íran, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Kúveit og Kína við og sendu til að mynda lyf og lækningabúnað, dýnur, teppi, tjöld, matvæli, hreinlætisgögn og fleiri nauðsynjar til þolenda á skjálftasvæðunum í norðurhluta Sýrlands, en auk þess hefur líbanski Rauði krossinn sinnt björgunarstörfum á vettvangi.
„Sem betur fer gátu Rauða hálfmánafélögin í bæði Tyrklandi og Sýrlandi brugðist hratt við hamförunum því þau eru á sínum heimaslóðum með víðfeðmt og skipulagt net sjálfboðaliða og starfsmanna sem gátu strax farið á hamfarasvæðin og veitt lífsbjargandi aðstoð,“ segir Atli Viðar Thorstensen sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. „Aðstæður í Sýrlandi til björgunar og uppbyggingarstarfs eru án efa erfiðari heldur en í Tyrklandi vegna þeirra vopnuðu átaka sem landsmenn í Sýrlandi hafa búið við í meira en áratug og hafa að miklu leyti lagt innviði landsins í rúst.
Því skiptir svo gríðarlegu miklu máli að landsfélög Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans geti brugðist svo skjótt við og komið þessari aðstoð til Rauða hálfmánans í Sýrlandi sem getur fyrir vikið veitt þolendum aðstoð í þessum hörmungum,“ bætir Atli við.
Rauði krossinn á Íslandi, með aðstoð þeirra sem hafa lagt neyðarsöfnun félagsins lið, utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins, hefur sent 30 milljónir króna til skjálftasvæðanna sem nýtast í lífsbjargandi mannúðaraðstoð á skjálftasvæðunum.
--
Rauði krossinn á Íslandi tilheyrir allri þjóðinni, en án stuðning hennar getur félagið ekki sinnt þeim fjölmörgu mikilvægu verkefnum sem það stendur fyrir. Hjálpaðu okkur að hjálpa öðrum með því að gerast Mannvinur.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.
Samið um aukið fjármagn til Frú Ragnheiðar
Innanlandsstarf 23. desember 2025„Besta jólagjöfin,“ segir deildarstjóri hjá Rauða krossinum. „Mikilvægt fyrir samfélagið allt,“ segir heilbrigðisráðherra. Frú Ragnheiður mun áfram aka um landið og veita fólki sem notar vímuefni skaðaminnkandi þjónustu og ráðgjöf.