Alþjóðastarf
„Lög og reglur í stríði eru brotin refsilaust“
22. september 2025
Yfirlýsing frá Mirjönu Spoljaric, forseta Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), í aðdraganda allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York um nauðsyn þess að ríki standi við skuldbindingar sínar varðandi lög og reglur í stríði.

Alþjóðasamfélagið verður að horfast í augu við grimmilegan veruleika: lög og reglur í stríði eru brotin refsilaust á sama tíma og vopnuð átök verða tíðari og harðari. Grimmdarverk eru framin fyrir opnum tjöldum, sem gefur til kynna að hið óásættanlega sé að verða eðlilegt. Ef heimurinn bregst ekki við mun grimmdin sem við sjáum í dag verða viðmiðið í átökum morgundagsins.
Vernd sú sem alþjóðleg mannúðarlög eiga að veita er aðeins jafn sterk og pólitískur vilji leiðtoga til að halda þeim í heiðri.
Samkvæmt Genfarsamningunum ber öllum ríkjum ekki aðeins skylda til að virða alþjóðleg mannúðarlög, heldur einnig að tryggja að aðrir geri slíkt hið sama. Nú er tíminn til að standa vörð um lögin.
Ef ríki endurvekja ekki virðingu fyrir lögum og reglum í stríði er hætta á að ofbeldi í heiminum stigmagnist á óstöðvandi hraða. Í dag loga samtímis átök víðs vegar um heiminn, sem sá fræjum fyrir framtíðarátök og ógna friði og öryggi á heimsvísu.
Súdan horfir heimurinn fram hjá því að almennir borgarar þola hrottalegar árásir, stjórnlaust kynferðisofbeldi og vísvitandi eyðileggingu á lífsnauðsynlegri grunnþjónustu eins og heilbrigðisþjónustu og vatnsveitu.
Almennir borgarar í Gazaborg eru drepnir, sveltir og hraktir á flótta – án þess að eiga sér nokkurn öruggan stað – á meðan húsnæði og mikilvægir innviðir eru kerfisbundið eyðilagðir. Á Vesturbakkanum þola Palestínubúar linnulaust ofbeldi og eru hraktir frá heimilum sínum á meðan landtökubyggðir stækka.
Í vopnuðum átökum Rússlands og Úkraínu eru þúsundir fjölskyldna án allra frétta af týndum ættingjum sínum, á meðan drónahernaður drepur og særir almenna borgara hundruð kílómetra frá víglínunum.
Lög og reglur í stríði eru eitt öflugasta tæki okkar í baráttunni fyrir mannslífum, öryggi, reisn og að lokum friði. Ef ekki tekst að virða þessar reglur er það svik við þann grundvöll mannúðar sem þeim var ætlað að vernda. Með því að halda alþjóðlegum mannúðarlögum í heiðri vernda ríki eigið fólk. Að brjóta þau eða leyfa öðrum að brjóta þau ýtir undir óstöðugleika.
Í september síðastliðnum hóf ICRC, ásamt Brasilíu, Kína, Frakklandi, Jórdaníu, Kasakstan og Suður-Afríku, alþjóðlegt átak til að endurvekja pólitískan vilja fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum. Það er okkur hvatning að 89 ríki hafa síðan tekið þátt í þessu átaki og að sú tala heldur áfram að hækka. Í gær sameinuðust leiðtogar stofnríkjanna sex til varnar lögum og reglum í stríði. Þeir skoruðu á ríki að fjárfesta í alþjóðlegum mannúðarlögum, að fella þau inn í landslög og herþjálfun og að taka þátt í átakinu. Saman munu þau standa fyrir leiðtogafundi til að halda mannúð í heiðri í stríði árið 2026.
Sérhvert ríki ber siðferðilega og lagalega ábyrgð á að snúa við þverrandi virðingu fyrir þessum reglum um allan heim. Afdrif milljóna sem búa við stríð í dag og á morgun munu mótast af þeim ákvörðunum sem leiðtogar taka um að standa vörð um – eða snúa baki við – mannúð í stríði.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stefnumót við palestínska sálfræðinga í Norræna húsinu
Almennar fréttir 23. september 2025Rauði krossinn stendur ásamt Reykjavíkurborg fyrir viðburði í Norræna húsinu undir yfirskriftinni „Áföll, seigla og menning: Stuðningur við fólk á flótta frá Palestínu og öðrum átakasvæðum“.

Heimsóknarvinur með skýra forgangsröðun: Fólk fyrst
Innanlandsstarf 22. september 2025Pálína Jónsdóttir, sem var í hópi fyrstu heimsóknavina Rauða krossins, snerti fallega við lífi margra á þeim hundrað árum sem hún lifði. Hún átti viðburðaríka ævi, var félagsvera sem fæddist í fámenninu á Hesteyri, fór út í heim eftir seinna stríð og hélt síðar stórt heimili í Reykjavík. „Hún var alla tíð með skýra forgangsröðun í lífinu: Fólk fyrst,“ segir dóttir hennar.

Þörf á tafarlausum pólitískum aðgerðum
Alþjóðastarf 18. september 2025„Öll ríki verða að leggja sín þyngstu lóð á vogarskálarnar svo koma megi á vopnahléi strax,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi um ástandið á Gaza. „Við höfum ekki lengri tíma. Þetta er lokaviðvörun til stjórnvalda. Núna verður að bregðast við.“