Alþjóðastarf
Mikil neyð í Mjanmar
02. apríl 2025
Sjálfboðaliðar Rauða krossins í Mjanmar eru að störfum við erfiðar aðstæður á hamfarasvæðum eftir jarðskjálftana miklu.
Þótt umfang mannskaða og eyðileggingar af völdum jarðskjálftanna í Mjanmar sé ekki enn að fullu ljóst er þegar komið á daginn að þúsundir hafa slasast eða látist og milljónir orðið fyrir neikvæðum áhrifum með einum eða öðrum hætti. Þau hafa misst heimili sín, búa við rafmagnsleysi, vatnsskort eða sambandsleysi. Hafa einangrast vegna skemmda á vegum og brúm.
Talið er að meirihluti mannvirkja á svæðum næst upptökum skjálftanna sé ónýtur eða skemmdur. Þrjú sjúkrahús eyðilögðust og 22 heilbrigðisstofnanir til viðbótar skemmdust. Gróflega er áætlað að um 60 þúsund heimili á svæðunum sem verst urðu úti hafi eyðilagst eða skemmst mikið.
Fyrir rúmri viku varð 7,7 stiga jarðskjálfti í miðhluta Mjanmar þar sem næststærstu borg landsins, Mandalay, er m.a. að finna. Fjölmargir eftirskjálftar tóku við, sá stærsti var 6,4 stig.
Innviðir landsins voru veikir fyrir og síðustu ár hafa vopnuð átök geisað víða um landið sem hafa veikt þá enn frekar. Við þessar aðstæður eru sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins í Mjanmar að störfum. Þau hafa veitt slösuðum fyrstu hjálp, útvegað vatn og skjól og aðstoðað við að koma þeim sem á þurfa að halda undir læknishendur. Markmiðið er að veita um 150 þúsund manns tafarlausa aðstoð og stuðning. Fjögur teymi á þeirra vegum fara um svæðin sem urðu verst úti og setja upp neyðarsjúkrahús og vatnsbirgðastöðvar.
Áhrif jarðskjálftanna eru margvísleg og til að vinna gegn því að þau verði langvarandi þarf alþjóða samfélagið að leggjast á eitt við enduruppbyggingu.
Rauði krossinn á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir þolendur jarðskjálftanna í Mjanmar.
Þitt framlag skiptir máli.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
Innanlandsstarf 22. janúar 2026„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.