Fara á efnissvæði

Alþjóðastarf

„Neyðarástandið er hvergi nærri á enda“

26. janúar 2026

Vetrarlægðir með mikilli rigningu, hvassviðri og flóðum hafa síðustu vikur bæst ofan á böl fólksins á Gaza. Gríðarleg þörf er á nýjum og betri neyðarskýlum, mat, lyfjum og öðrum nauðsynjum. „Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Fólk yljar sér við opinn eld í flóttamannabúðum á Gaza. Mynd: Breski Rauði krossinn

„Meira en 100 dögum eftir að vopnahléssamkomulagið tók gildi höfum við enn ekki náð nauðsynlegu, óhindruðu flæði aðstoðar og áreiðanlegri dreifingu hjálpargagna á Gaza,“ segir segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Þrátt fyrir að aðstæður almennra borgara hafi batnað lítillega stendur fólkið á Gaza enn frammi fyrir dauða, eyðileggingu og skorti á lyfjum, skjóli og annarri grunnþjónustu. Það er ekki hægt að hunsa þessar þarfir. Þeim verður að mæta svo fólkið á Gaza geti farið að lifa lífinu með reisn.“

Vetrarlægðir með mikilli rigningu, hvassviðri og flóðum hafa síðustu vikur bæst ofan á böl fólksins á Gaza. Hundruð þúsunda hafast við í tjöldum við ómannúðlegar aðstæður og eru berskjölduð fyrir veðri og vindum. Vatn er mengað. Tjöldin fjúka og rifna. Inn í þau flæðir regnvatn reglulega.

Enn eru þúsundir manna týndar á Gaza og hægt gengur að leita í rústum enda aðgengi fólks og tækjabúnaðar að svæðinu enn verulega takmarkað.

Rok og rigning hefur bætt gráu ofan á svart í tjaldbúðum sem hundruð þúsunda manna hafast við í á Gaza. Mynd: Breski Rauði krossinn

„Eftir hörmungarástand í tvö ár kveikti fyrsti áfangi vopnahlésins til að byrja með von í brjósti íbúanna og færði þeim eflaust ákveðinn létti líka,“ segir Gísli Rafn. „En því miður ríkir enn spenna á svæðinu og áfram eru ofbeldisverk framin. Og áfram sitja íbúarnir því fastir í ómannúðlegum aðstæðum og í mikilli óvissu um framtíðina.“

Hann nefnir sem dæmi að samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Alþjóðaráði Rauða krossins sé gríðarleg þörf á stærri tjöldum og bráðabirgða húseiningum sem og búnaði til upphitunar hvers kyns íverustaða. „En hingað til hefur ekki verið hægt að flytja nokkuð af þessu inn á Gaza.“

Tafarlausra aðgerða er þörf

Hreinlætisaðstaða er almennt af mjög skornum skammti sem býður hættunni á faraldri ýmissa smitsjúkdóma heim. Þeir sem verða verst úti vegna þessa eru börn og aldraðir. „Neyðarástandið er hvergi nærri á enda,“ segir Gísli. „Afleiðingarnar hafa alvarleg áhrif á líf fólks, reisn og velferð. Tafarlausra aðgerða er þörf til að koma í veg fyrir frekari þjáningar viðkvæmra hópa.“

Í þessu sambandi nefnir Gísli sérstaklega að brýn þörf sé á að koma þúsundum sjúklinga, þar á meðal um 4.000 börnum, út af Gaza og til læknismeðferðar annars staðar. Slíkt sé mjög flókið og erfitt við núverandi aðstæður.

Fólk á gangi í tjaldbúðum rétt við borgarrústir á Gaza. Mynd: Breski Rauði krossinn

„Teymin okkar eru úrvinda,“ segir Mohammed Abu Musbah, deildarstjóri palestínska Rauða hálfmánans í Deir al-Balah á Gaza. „Neyðin hefur varað lengi. Takmarkanir á því að leyfa sendinefndum eða starfsfólki frá Vesturbakkanum, eða utan landsins, að koma inn og styðja við teymi Palestínska Rauða hálfmánans á Gaza hafa gert hlutina enn erfiðari.“

Opna verði landamærastöðina í Rafah til að særðir og sjúkir geti leitað læknismeðferðar utan Gaza. Við núverandi takmarkanir á flutningum sjúklinga séu margir „í raun á biðlista eftir dauða frekar en biðlista eftir flutningi,“ segir hann.

Skelfilegar aðstæður

Palestínski Rauði hálfmáninn, sem nýtur fjárstuðnings frá Rauða krossinum á Íslandi og öðrum landsfélögum víða um heim, er enn mikilvæg líflína fyrir fólkið á Gaza. Sjálfboðaliðar hans veita ýmsa lífsnauðsynlega heilbrigðisþjónustu, þar á meðal sjúkraflutninga, sem og bráðnauðsynlegan sálrænan stuðning. En takmarkað aðgengi að neyðarbirgðum mánuðum saman skerðir verulega getuna til að viðhalda starfseminni. Nauðsynjar á borð við varahluti í sjúkrabíla lúta ströngum innflutningstakmörkunum og það sama má segja um eldsneyti á bílana. „Það gefur augaleið að þetta dregur verulega úr getu þeirra til að ná til fólks í neyð,“ segir Gísli Rafn.

Meiri hjálpargögn berast inn á Gaza nú en áður en samið var um vopnahlé í nóvember en magnið er engu að síður „langt undir því sem þörf er á,“ ítrekar Gísli. Við þessar flóknu aðstæður heldur palestínski Rauði hálfmáninn, í samvinnu við landsfélög um allan heim, áfram af fremsta megni að aðstoða fólk.

„Meirihluti fólksins á Gaza býr enn við skelfilegar aðstæður,“ segir Gísli Rafn. „Byggingar eru enn rústir einar. Fjölskyldur syrgja enn ástvini. Margt af því sem þær þekktu áður er horfið. Hreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans er staðráðin í að halda aðstoð sinni áfram og í þá von að næsti áfangi vopnahléssamkomulagsins opni fyrir óheftan aðgang að hjálpargögnum.“