Alþjóðastarf
Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
09. maí 2025
Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.

Í heilt ár hefur alþjóðaráð Rauða krossins rekið neyðarsjúkrahús í borginni Rafah, syðst á Gaza, skammt frá landamærunum að Egyptalandi. Rauði krossinn á Íslandi er eitt fimmtán landsfélaga sem tekið hafa þátt í því erfiða og sérstaka verkefni og hefur sent fjóra fulltrúa til starfa á neyðarsjúkrahúsinu; bráðahjúkrunarfræðing, ljósmóður, barnahjúkrunarfræðing og verkfræðing sem sinnti vatnsveitu og rafmagni fyrir sjúkrahúsið.
Innan við 200 þúsund manns bjuggu áður í borginni en frá því að vopnuð átök brutust út á Gaza hafa hundruð þúsunda til viðbótar streymt þangað í leit að skjóli og aðstoð. Rafah hefur hins vegar einnig orðið fyrir loftárásum og reglulega kveða við sprengingar og skothvellir í nágrenni neyðarsjúkrahússins.

Sjúkrahúsið er starfrækt í tjöldum og er það eina sem er starfandi á stóru svæði um þessar mundir. Það var opnað vegna neyðar og sú neyð ríkir enn og hefur haldið áfram að aukast á þessu eina ári. Aldrei stóð til að sjúkrahúsið myndi koma í stað hefðbundinna sjúkrahúsa og heilbrigðisþjónustu. En vegna ástandsins er það eina líflína þúsunda og vitnisburður um hugrekki heilbrigðisstarfsfólks og lífsbaráttu fólksins sem þurft hefur að þola hörmungar vegna átakanna.
Neyðarsjúkrahúsið er rekið undir stjórn Rauða krossins í Noregi og í náinni samvinnu við palestínska Rauða hálfmánann. Þrettán önnur landsfélög koma að rekstri sjúkrahússins með einum eða öðrum hætti og hafa sent sendifulltrúa, m.a. heilbrigðismenntaða, til starfa á sjúkrahúsinu.

Starfsfólkið á sjúkrahúsinu hefur þurft að bregðast við hverri öldunni á fætur annarri af helsærðu fólki auk þess sem það hefur sinnt þúsundum sjúklinga á göngudeild, framkvæmt skurðaðgerðir vegna alvarlegs skaða á útlimum, búið um beinbrot og brunasár. Einnig er rekin fæðingardeild og þar hafa á einu ári meira en 400 börn komið í heiminn. Alls hefur yfir 80 þúsund sjúklingum verið sinnt á neyðarsjúkrahúsinu frá opnun.
Á meðan á vopnahléi stóð um nokkurra vikna skeið snemma á árinu gátu þau nýtt tímann til að taka á móti börnum og sinnt endurhæfingu sjúklinga eftir aðgerðir. „Í um tvo mánuði gátum við tekið á móti börnum án þess að heyra í sprengjuregni,“ segir læknirinn Fred Oola, sem hefur starfað á neyðarsjúkrahúsinu í Rafah. „Á einni nóttu breyttist þetta allt.“
Átökin hófust á ný og sjúkrarúmin fylltust aftur af særðum. Og á hverjum degi ganga teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og sjálfboðaliða eins langt og þau mögulega geta við að veita særðu og veiku fólki aðstoð. „Núna er örvæntingin áþreifanleg, sírenuvælið stöðugt og í andlitum sjúklinganna sem við erum að hjálpa sjáum við sársaukann og eyðilegginguna,“ segir læknirinn Oola. „Fólk er hrætt og enn á ný getur það aðeins hugsað um það eitt að lifa af næstu klukkutímana.“
Bráðaliðar palestínska Rauða hálfmánans hafa lagt líf sitt í hættu við að sækja sjúklinga og koma þeim undir læknishendur á neyðarsjúkrahúsinu. Vegna þeirra starfa hefur tekist að bjarga mörgum mannslífum. Átta úr þeirra röðum týndu hins vegar lífi í lok mars. Þeir voru ásamt hópi annars mannúðarstarfsfólks að sinna útkalli er ráðist var á þá, þeir drepnir og lík þeirra grafin á staðnum.
Síðustu daga hefur heimsóknum á sjúkrahúsið fækkað. Það er ekki vísbending um að færra fólk þurfi aðstoð heldur að fólk komist ekki á sjúkrahúsið til að fá aðstoð.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Vertu klár á táknmáli
Innanlandsstarf 09. maí 2025Auglýsingar í hinni vinsælu vitundarvakningu Rauða krossins 3dagar.is, þar sem fólk er hvatt til að undirbúa sig fyrir neyðarástand, eru nú líka á táknmáli.

Mannúðarstarfsfólk orðið skotmörk
Alþjóðastarf 08. maí 2025„Hver einasta árás á mannúðarstarfsmann er árás á samfélagið sem hann þjónaði,“ segja forsetar alþjóðasambands og alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Forsetarnir segja að alþjóðasamfélagið geti ekki haldið áfram að líta fram hjá því er lög sem gilda í stríði eru hundsuð og mannúðarstarfsmenn markvisst orðnir skotmörk.

Ylja er „eins og gott knús“
Innanlandsstarf 06. maí 2025Samfélagið á Rás 1 heimsótti neyslurýmið Ylju sem Rauði krossinn rekur og ræddi við starfsfólk og konu sem nýtir sér þjónustuna sem þar býðst. Þátturinn gefur einstaklega góða innsýn í starfsemi Ylju og um gagnsemi úrræðisins.