Alþjóðastarf
Neyðarsöfnun fyrir Marokkó og Líbíu
14. september 2023
Neyðarsöfnun vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu er hafin. Í gegnum hana getur almenningur styrkt viðbrögð landsfélaga Rauða hálfmánans í þessum löndum, en fulltrúar þeirra voru fyrstir á vettvang eftir báðar þessar hamfarir.

Rauði krossinn á Íslandi hefur sett af stað neyðarsöfnun vegna hamfaranna í Marokkó og Líbíu. Þó að um tvo ótengda atburði sé að ræða var ákveðið að hrinda af stað sameiginlegri söfnun vegna þess hve skammt var stórra högga á milli, en peningunum sem safnast verður ráðstafað út frá því hvar þörfin er mest.
Í báðum þessum skelfilegu hamförum létust þúsundir einstaklinga og heilu fjölskyldurnar þurrkuðust út. Í jarðskjálftanum í Marokkó urðu afskekkt svæði í Atlas-fjöllum einna verst úti og þar er þörf fyrir mikinn stuðning. Í Líbíu skoluðust heilu hverfin í borginni Derna burt í flóði, mannfallið er gríðarlegt og þau sem lifðu af standa frammi fyrir mikilli eyðileggingu og þjáningu.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Marokkó og Líbíu hófu þegar í stað að veita neyðaraðstoð, þar á meðal að sinna leit og björgun og veita fyrstu hjálp og sálrænan stuðning, en verkefnin sem þau standa frammi fyrir eru gríðarlega umfangsmikil. Meðal annars er mikil þörf á neyðarskýlum, heilbrigðisþjónustu, vatns- og hreinlætisaðstöðu, mat og öðrum nauðsynjum.
Rauði krossinn á Íslandi styður neyðarviðbragð Alþjóðahreyfingar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Íslenska þjóðin hefur löngum stutt hjálparstarf Rauða krossins af miklum krafti og í gegnum þessa söfnun getur almenningur rétt þolendum þessara hörmunga hjálparhönd.
Hægt er að styrkja neyðarsöfnunina með eftirfarandi hætti:
SMS: Senda HJALP í símanúmerið 1900 (2.900 kr.) (Síminn og Nova)
Hringja í númerið 904-2500 fyrir 2.500 kr. styrk
Aur: @raudikrossinn eða 1235704000
Kass: raudikrossinn eða 7783609
Söfnunarreikningur Rauða krossins: 0342-26-12, kt. 530269-2649
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt
Alþjóðastarf 26. ágúst 2025„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum.

Ókeypis vefnámskeið í sálrænni fyrstu hjálp
Almennar fréttir 25. ágúst 2025Rauði krossinn býður nú upp á vefnámskeið um sálræna fyrstu hjálp á íslensku. Allir sem vilja vera til staðar fyrir aðra þegar á reynir geta nýtt sér námskeiðið.

Ylja neyslurými Rauða krossins er 1 árs
Innanlandsstarf 12. ágúst 2025Á fyrsta starfsári sínu hefur Ylja sýnt fram á þörf fyrir öruggt neyslurými, þar sem notendur upplifa virðingu, öryggi og væntumþykju í stað útskúfunar og hættu. Traust notenda til þjónustunnar hefur byggst hratt upp vegna góðra tengsla milli notenda, starfsfólks Ylju og samstarfsaðila og lagt grunn að árangursríkri þjónustu.