Alþjóðastarf
Palestínskur ljósmyndari hlaut mannúðarverðlaun Visa d’Or
29. júlí 2025
Myndaröð Saher Alghorra um daglegar raunir og þjáningar íbúa Gaza er að mati forseta samtakanna Fréttamanna án landamæra „eins og högg í magann – kraftmikil og harmræn í senn“.

Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) hefur veitt palestínska ljósmyndafréttamanninum Saher Alghorra mannúðarverðlaunin Visa d'Or í ár. Alghorra hlýtur verðlaunin fyrir öfluga fréttamennsku sína á Gaza-svæðinu. Áhrifamiklar ljósmyndir hans sýna með skýrum hætti skelfilegar afleiðingar vopnaðra átaka á almenna borgara.
Ljósmyndaröð Alghorra, sem ber titilinn „We Have No Escape“ (Við höfum enga undankomuleið), fangar þann napra veruleika sem almennir borgarar á Gaza hafa verið knúnir til að búa við í að verða tvö ár. Í sautján mánuði skráði hann daglegar athafnir fólksins, baráttu þess fyrir lífi sínu, missi þess og seiglu – oft í miklu návígi. Þetta eru raunsannar sögur fjölskyldna sem gengið hafa í gegnum óhugsandi þjáningar og raunir.

„Að fá mannúðarverðlaun ICRC þýðir að það sem við erum að ganga í gegnum er ekki hunsað,“ sagði Alghorra er hann hlaut útnefninguna. „Það endurspeglar áframhaldandi skuldbindingu ICRC og Visa d’Or-ljósmyndahátíðarinnar til að varpa ljósi á þessa mannúðarskömm. Ég er innilega þakklátur fyrir þennan stuðning.“
Aðstandendur Visa d’Or-hátíðarinnar lýsa myndaröð Alghorra m.a. með þessum orðum:
„Frá því í október 2023 hafa almennir borgarar á Gaza – fjölskyldur – verið neyddar til að flýja frá norðri til suðurs og svo aftur til baka, þurft að þola stöðugar sprengjuárásir, loftárásir, árásir á jörðu niðri, matarskort, sjúkdóma og ástvinamissi. Þau hafa horft upp á heimili sín og borgir vera jafnaðar við jörðu.
Í tvo votviðrasama vetur höfðust þau við í lekum tjöldum. Í yfirþyrmandi sumarhita náðu þau vart andanum á sama tíma og þau bjuggu við stöðugan skort á rafmagni, vatni og mat. Stöðugar drunur heyrast yfir höfðum þeirra frá drónum og flugvélum og óttinn við að verða fyrir næstu árás er sömuleiðis stöðugur og viðvarandi hverja einustu sekúndu.
Hvert sjúkrahúsið á fætur öðru hefur verið eyðilagt. Blaðamenn, sem leitast við að fjalla um þessi fjöldadráp, hafa verið drepnir.“
Tugir blaðamanna verið drepnir
Pierre Haski, forseti samtakanna Fréttamenn án landamæra, sem átti sæti í dómnefnd Visa d'or-verðlaunanna, lýsti myndum Alghorra sem „höggum í magann – kraftmiklum og harmrænum í senn“. Hann lagði áherslu á táknrænt mikilvægi þessarar viðurkenningar fyrir verk sem unnið var á svæði sem nú er lokað almennum blaðamönnum.
„Í gegnum þennan ljósmyndara viljum við heiðra alla þá sem hætta lífi sínu á Gaza til að sýna umheiminum hvað gengur þar á,“ sagði Haski. „Gleymum því ekki að fleiri tugir palestínskra blaðamanna og ljósmyndara hafa verið drepnir á síðustu 20 mánuðum.“

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur nú í fimmtán ár veitt mannúðarverðlaun Visa d’or. Í ár var úr óvenju fjölbreyttu og vönduðu úrvali tilnefninga að velja. Meðal átakasvæða sem voru í brennidepli tilnefndra verka voru Haítí, Sýrland, Úkraína, Súdan og Austur-Kongó – allt saman staðir þar sem almennir borgarar bera þungann af vopnuðu ofbeldi.
Dómnefndin var skipuð fagfólki á sviði ljósmyndunar, blaðamennsku og mannúðarstarfs. Lofaði hún dýpt þeirra verka sem tilnefnd voru og segir að erfitt hafi verið að velja einn verðlaunahafann. Verk Saher Alghorra hafi hins vegar skorið sig úr m.a. vegna myndrænnar næmni og þess styrks sem birtist í frásögn hans.
Philippe Da Costa, forseti Rauða krossins í Frakklandi, sem sat í dómnefndinni, sagði að myndaröð Alghorra væri einstök að gæðum og dýpt. Þá lofaði hann ljósmyndarann fyrir að draga fram mennskuna í verkum sínum. „Hann flytur okkur aftur til grunnstoða mannúðarstarfsins sem er að bera vitni að þeim áföllum sem þetta stríð veldur manneskjum.“

Útgefandi ljósmyndatímaritsins Fisheye, Benoît Baume, segir helstu áskorun allra ljósmyndara vera að komast að kjarna viðfangsefnis síns. „Hér tekst það með ótrúlegri nákvæmni.“ Alghorra nái í myndum sínum að fanga augnablik gríðarlegs sársauka, myndirnar séu þrungnar tilfinningu og varpi áhrifamiklu ljósi á aðstæður fólksins á Gaza.
Saher Alghorra mun veita verðlaununum viðtöku á Visa-ljósmyndahátíðinni í Perpignan í Frakklandi í byrjun september. Myndaröðin verður til sýnis alla hátíðina og í framhaldinu verður hún sett upp í listagalleríinu Fait & Cause í París.
Alghorra er enn að störfum á Gaza. Hann mun halda áfram að skrásetja hörmungar, seiglu og styrk fjölskyldnanna sem eiga sér enga undankomuleið.
Hér er hægt að skoða fleiri myndir úr myndaröð Alghorra.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Góð tilfinning að geta aðstoðað fólk í erfiðum aðstæðum
Innanlandsstarf 23. júlí 2025„Í þau skipti sem ég hef smeygt mér í Rauða kross peysuna og farið af stað í útköll þá finn ég mjög sterkt hvað það gefur mér mikið,“ segir Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Hún er sjálfboðaliði í fjöldahjálp og í viðbragðshópi.

Listsköpun, leikur og lærdómur
Innanlandsstarf 15. júlí 2025„Þetta voru góðar og gefandi samverustundir og mætingin var mjög góð,“ segir Yana Miz, verkefnisstjóri Wellbeing4U hjá Rauða krossinum, um uppskeruhátíð verkefnisins þar sem tugir flóttafólks frá Úkraínu á öllum aldri komu saman.

Stöðvum helvíti á jörðu
Alþjóðastarf 09. júlí 2025„Hörmungarnar á Gaza eru skuggi yfir mannkyni,“ skrifa framkvæmdastjórar sex íslenskra mannúðarfélaga. „Líf íbúa Gaza eru jafn mikils virði og líf annarra íbúa þessa heims, það ætti ekki að þurfa að taka fram, en engu að síður horfir heimurinn dofinn upp á íbúa Gaza svipta allri mannlegri reisn.“