Alþjóðastarf
Rauði krossinn neyðist til að yfirgefa Gazaborg
01. október 2025
Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðs Rauða krossins í Gazaborg hafa verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Harðandi hernaðaraðgerðir leiddu til þess að þessi erfiða ákvörðun var tekin.

Vegna aukinna hernaðaraðgerða undanfarnar klukkustundir hefur starfslið Alþjóðaráðs Rauða krossins neyðst til að yfirgefa Gazaborg. Vonast er til að þessi ráðstöfun verði aðeins tímabundin. Fánar við skrifstofur Alþjóðaráðsins í borginni hafa nú verið dregnir niður og allt starfsfólkið flutt sig til suðurhluta Gaza. Enn dvelja tugþúsundir fólks í Gazaborg við skelfilegar aðstæður. Öll eru þau í brýnni þörf á mannúðaraðstoð.
Almennir borgarar eru drepnir í Gazaborg, þeir eru hraktir á flótta og látnir búa við hrikalegar aðstæður. Viðbragðsaðilar, þar á meðal palestínski Rauði hálfmáninn sem rekur sjúkrabíla og neyðarsjúkrahús, hafa unnið sleitulaust að því að veita fólki hjálp. En ferðafrelsi þeirra er verulega skert og því eru möguleikar til að komast til almennra borgara sem þurfa nauðsynlega aðstoð verulega takmarkaðir.
Alþjóðaráðið mun leggja sig fram við að veita íbúum Gazaborgar stuðning frá starfsstöðvum sínum utan borgarinnar, þegar aðstæður leyfa. Þetta felur m.a. í sér að koma lækningavörum til þeirra fáu heilbrigðisstofnana sem eru eftir og greiða leið fyrir ferðum bráðaliða með sjúka og særða. Í Rafah mun neyðarsjúkrahús Rauða krossins áfram vera líflína þess mikla fjölda særðra sjúklinga sem streyma þangað á hverjum einasta degi.
Alþjóðaráðið hefur verið með starfsemi í Gazaborg í áratugi. Eftir að átökin hörnuðu að nýju voru teymi ráðsins í borginni eins lengi og þau gátu til að vernda og styðja við viðkvæmasta fólkið. Alþjóðaráðið er staðráðið í að snúa aftur um leið og aðstæður leyfa.
Enn hægt að bjarga mannslífum
Undanfarnar tvær vikur hefur Alþjóðaráðið útvegað þeim fáu sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum sem eftir eru í borginni lífsnauðsynlegar lækningavörur á sama tíma og þangað hefur streymt fjöldi sjúklinga með skotsár. Þá sá ráðið til þess að tugir þúsunda sem dvelja í flóttamannabúðum fengju mat þótt af skornum skammti væri. Einnig útveguðu teymin vatnstanka, flutningsþjónustu og studdu viðgerðir á vatns- og fráveitukerfum.
Það er enn hægt að bjarga mannslífum á Gaza. Vopnahlé er brýnt og nauðsynlegt. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum á að vernda almenna borgara, hvort sem þeir dvelja í Gazaborg eða yfirgefa hana. Ísrael sem hernámsveldi, ber skylda til að tryggja að grunnþörfum þeirra sé fullnægt. Virða verður og vernda heilbrigðisstarfsfólk, heilbrigðisstofnanir og hjálparstarfsfólk. Leyfa verður og greiða fyrir skjótum og óhindruðum aðgangi mannúðaraðstoðar um allt Gazasvæðið.
Yfirlýsing Alþjóðaráðsins á ensku.
Rauði krossinn á Íslandi er í hópi þeirra landsfélaga sem styðja rekstur neyðarsjúkrahúss Rauða krossins í Rafah. Félagið á Íslandi styður líka við bakið á palestínska Rauða hálfmánanum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
36 milljónir króna til mannúðarstarfs í Úkraínu
Alþjóðastarf 03. október 2025Frá því átökin í Úkraínu hófust hefur Alþjóðasamband Rauða krossins, í samstarfi við úkraínska Rauða krossinn, veitt meira en 17 milljónum einstaklinga mannúðaraðstoð. Á sama tíma hefur Rauði krossinn á Íslandi, með dyggum stuðningi utanríkisráðuneytisins, veitt rúmlega 265,8 milljónum króna til mannúðarstarfs í landinu.

Grindvíkingar í fókus: Nýtt stuðningsverkefni
Innanlandsstarf 01. október 2025Rauði krossinn á Íslandi hefur ýtt úr vör nýju verkefni og býður Grindvíkingum á fjölda námskeiða, vinnustofa og viðburða, endurgjaldslaust. Verkefnið er unnið í samstarfi við KVAN, í samráði við Grindavíkurbæ og með stuðningi Rio Tinto.

Öðlaðist kjark til að stíga inn í erfiðar aðstæður
Innanlandsstarf 26. september 2025Eydís Ösp Eyþórsdóttir, sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, finnur vel hversu þakklátt fólk er fyrir stuðning viðbragðshópa félagsins sem kallaðir eru út er áföll dynja yfir fólk eða samfélög.