Alþjóðastarf
Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu
03. mars 2025

Rauði krossinn og utanríkisráðuneytið gera með sér samkomulag á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, og Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi, hafa undirritað rammasamning um verkefni á sviði þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar fyrir árin 2025-2028. Þetta er í þriðja sinn sem utanríkisráðuneytið og Rauði krossinn á Íslandi undirrita slíkan samning.
Markmið samningsins er að auka skilvirkni og árangur Íslands í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð, gera fjármögnun þróunarsamvinnuverkefna og mannúðaraðstoðar, sem veitt er af Rauða krossinum, fyrirsjáanlegri og auðvelda skipulagningu verkefna og viðbragða.
Að sögn Silju Báru R. Ómarsdóttur er slíkt samstarf sérlega mikilvægt, ekki síst á umbrotatímum þegar ófriður og sundrung valda samdrætti í framlögum til þróunarsamvinnu. Undanfarin ár hafa kennt okkur að slíkur stuðningur er ekki sjálfgefinn. Rauði krossinn lýsir því mikilli ánægju og þakklæti fyrir það nána samstarf sem félagið á við stjórnvöld á sviði mannúðaraðstoðar og þróunarsamvinnu.
Meðal verkefna sem njóta stuðnings fyrir tilstuðlan rammasamningsins eru fræðsla um kynbundið ofbeldi í Sómalíu, trjárækt í Síerra Leóne, uppbygging á viðbúnaði og viðnámsþrótti samfélaga í Malaví og heilbrigðisfræðsla í búðum palestínsks flóttafólks í Líbanon. Þá eru ótalin neyðarviðbrögð vegna vopnaðra átaka og náttúruhamfara víða um heim.
Með samkomulaginu skuldbinda stjórnvöld og Rauði krossinn sig til að leggja til fjármagn í ofangreind verkefni. Mannvinir Rauða krossins standa að stórum hluta undir framlögum Rauða krossins til þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar.

Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Fólk á Gaza sárbiður um hjálp
Alþjóðastarf 19. maí 2025Aukinn þungi hefur færst í hernaðaraðgerðir á Gaza síðustu daga og hundruð almennra borgara, sem skulu njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, verið drepin. „Mannúðaraðstoð má aldrei nota í pólitískum eða hernaðarlegum tilgangi,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

„Við verðum að brýna raustina“
Almennar fréttir 13. maí 2025„Á tímum sem þessum getum við ekki staðið þögul hjá,“ segir Silja Bára R. Ómarsdóttir, formaður Rauða krossins á Íslandi. „Við verðum að brýna raustina og láta í okkur heyra, hvar sem færi gefst.“

Neyðarsjúkrahúsið: Líflína þúsunda í heilt ár
Alþjóðastarf 09. maí 2025Fjórir Íslendingar hafa starfað um tíma á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza frá opnun þess fyrir ári. Þörfin fyrir þetta bráðabirgðaúrræði er enn gríðarleg. Þar er alvarlega særðu og veiku fólki sinnt undir drunum frá sprengjuregni í nágrenninu.