Fara á efnissvæði

Alþjóðastarf

Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta

06. nóvember 2025

„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.

Samsam Guled Sicid, leiðtogi kvennahóps í Awbarkhadhe í Sómalílandi, ásamt Nataliu Herrera Eslava, verkefnastjóra í alþjóðateymi Rauða krossins á Íslandi.

„Það var svo áhugavert að hitta hana Samsam. Konu sem er full af eldmóði, hugrekki og staðfestu. Hún fer fyrir vel skipulögðum grasrótarhópi kvenna sem hittast reglulega í skýrum tilgangi: Að styðja hver aðra þegar á reynir. Hver og ein þeirra leggur mánaðarlega fram svolitla upphæð sem er svo notuð til að hjálpa þeim sem mest þurfa á að halda hverju sinni. Við að greiða skólagjöld, lækniskostnað eða til að opna litla verslun. Sambærilegir kvennahópar eru starfræktir víða um Sómalíland og ég naut þeirra forréttinda að kynnast mörgum þessara kvenna.“

Þannig byrjar Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri í alþjóðateymi Rauða krossins á Íslandi, á að lýsa heimsókn sinni til Sómalílands, landsvæðis á norðvestanverðu horni Afríku, fyrr á árinu. Á þessum slóðum, þar sem átök og náttúruhamfarir hafa ítrekað geisað síðustu ár og áratugi, er víða að finna þessa fallegu samstöðu og samhygð kvenna. Hún byggir að sögn Nataliu á menningu samfélaganna.

Þátttakendur í kvennahópi stíga dans á fundi sínum í Sheikh í Sómalílandi. Natalía dansandi fyrir miðju.

En konurnar hafa líka tileinkað sér nýja þekkingu. Og þær vilja meira af henni. „Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila þær þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia. „Að samstaðan auki öryggi þeirra allra og byggi upp fjárhagslegt þol.“ Þegar hún spurði þær hvers þær þörfnuðust mest var svarið skýrt og á einn veg: Menntun. „Þær vilja menntun. Þær vilja halda áfram að gera það sem þær gera en gera það betur. Þær vilja verkfæri til að auka áhrif sín og viðurkenningu samfélagsins á þeim krafti sem þær búa nú þegar yfir.“

Natalia tekur kvennahópana sem dæmi um árangur af því þegar samfélög leggja mikið á sig og vinna í sameiningu á því að leysa úr áskorunum og bæta hag sinn. Hversu miklum árangri staðbundnar aðgerðir geta skilað. Og þessir hópar hafa tekið sjálfboðaliðum sómalska Rauða hálfmánans opnum örmum og hlustað af athygli á fræðslu þeirra um jafnrétti, vernd, inngildingu og kynbundið ofbeldi.

Kort: Sandra

Samstarf í stöðugri þróun

Rauði krossinn á Íslandi hefur frá árinu 2012 verið samstarfsaðili sómalska Rauða hálfmánans, með stuðningi íslenska utanríkisráðuneytisins og nokkurra deilda innan Rauða krossins á Íslandi. Natalia var stödd í Sómalílandi nýverið til að fylgja eftir samstarfsverkefnum félaganna á svæðinu.

Fyrsta samstarfsverkefnið var færanleg heilsugæsla með áherslu á mæðra- og ungbarnavernd. Hún er enn starfrækt. Samstarfið hefur haldið áfram að þróast og árið 2020 var verkefnum er lúta að vernd, jafnrétti og inngildingu bætt við með ríkri áherslu á samfélagslega fræðslu um skaðsemi kynferðislegs- og kynbundins ofbeldis, m.a. kynfæralimlestinga kvenna.

Upp á fleiri nýjum verkefnum til að nálgast fólk hefur verið bryddað, m.a. með því að stofna skólahópa ungmenna og síðast en ekki síst að fræða og þjálfa fleiri sjálfboðaliða til að sinna margvíslegum verkefnum á vegum Rauða hálfmánans.

Sjálfboðaliðar frá sómalska Rauða hálfmánanum styðja skólahóp í Sheikh í Sómalílandi. Skólahóparnir gegna mikilvægu hlutverki við að miðla upplýsingum og fræðslu um jafnrétti, vernd og inngildingu. Mynd: Natalia

Fleiri sjálfboðaliðar, kvennahóparnir og skólahóparnir hafa rennt styrkari stoðum undir starfsemi Rauða hálfmánans á svæðinu. „Hvernig starf félagsins er nú byggt upp er að ég tel nokkuð einstakt,“ segir Natalia. „Með þessari samþættingu er hægt að ná til margra aldurs- og samfélagshópa samtímis.“

Umræðan að breytast

Þegar kemur að því markmiði að útrýma kynfæralimlestingum kvenna leggur sómalski Rauði hálfmáninn áherslu á fræðslu og meiri fræðslu. Með skipulagðri fræðslu fæst aukin vitund um neikvæð heilsufarsleg áhrif slíkra limlestinga og sömuleiðis um að þær séu menningarleg hefð en ekki krafa tengd íslam.

Natalia segir að vitnisburðir frá konum sem höfðu atvinnu af því að framkvæma aðgerðirnar en hættu því eftir að hafa fengið fræðslu, bendi til árangurs þessarar heilsutengdu fræðsluaðferðar. Hún bendir jafnframt á að á sumum stöðum hafi verið leitað leiða til að finna skurðarkonunum annað lífsviðurværi. „Umræðan í samfélögunum um þetta er að breytast,“ segir Natalia.

Hún rifjar upp samtal sitt við konu sem áður var skurðarkona en ákvað, eftir að hafa fengið fræðslu frá sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í einum kvennahópnum, að leggja hnífinn á hilluna. „Hún sagðist í fyrsta skipti hafa gert sér grein fyrir öllum þeim neikvæðu áhrifum sem þetta hefur á líf kvenna. Svo hún hætti að skera.“

Samstaða sómalskra kvenna er eftirtektarverð. Þær valdefla hver aðra og hafa skýra sýn á hvernig þær vilja bæta líf sitt og barna sinna. „Ólíkt því sem kannski margir halda þá eru sómalskar konur mjög sterkar,“ segir Natalia. „Þær eru mjög ákveðnar og eru mjög stoltar. Þær láta verkin tala. Já, sómalskar konur eru mjög sterkar.“

Natalia (t.h.) situr fund kvennahóps í Awbarkhadhe.

Heilsa stúlkna í forgrunni

Grasrótin finnst víðar en meðal fullorðinna kvenna og skólahóparnir, sem starfræktir eru með aðstoð sjálfboðaliða Rauða hálfmánans, eru gott dæmi um það. Með hópunum fá nemendur fræðslu og tækifæri til að ræða það sem á þeim brennur og hafa áhrif á umhverfi sitt og aðstæður.

Staða og heilsa stúlkna er í forgrunni í þessu verkefni. Þær hafa sjaldnast aðgengi að tíðavörum og í mörgum skólum finna þær til óöryggis. Áhersla er því lögð á að búa til örugg rými fyrir þær og útvega þeim tíðavörur eða kenna þeim að sauma fjölnota dömubindi. „Þetta tvennt dregur verulega úr hættunni á því að þær missi úr skóla,“ segir Natalia.

En hvernig hefur gengið að safna fleiri sjálfboðaliðum?

„Það hefur gengið eins og í sögu,“ segir Natalía. „Það er eftirsótt staða að verða sjálfboðaliði og Rauði hálfmáninn velur hverjir komast að.“

Þau sem komast að fá fræðslu og þjálfun frá félaginu og öðlast dýrmæta þekkingu sem nýtist vel samfélögunum sem þau taka að sér að sinna. „Sjálfboðaliðarnir eru stoltir af því að taka þátt í að leggja samfélaginu lið og líta á það sem forréttindi.“

Staða og heilsa kvenna og stúlkna er í forgrunni þeirra verkefna sem sómalski Rauði hálfmáninn sinnir með stuðningi Rauða krossins á Íslandi. Mynd: IFRC

Stórar áskoranir

Á sama tíma og stór áföll hafa hvert ofan í annað dunið á samfélögum á þessum slóðum hafa mörg ríki ákveðið að skera niður framlög sín til mannúðar- og þróunarmála. „Þessi niðurskurður skapar mikla óvissu fyrir íbúana í Sómalílandi,“ segir Natalia. Áhrifanna er þegar farið að gæta. Reglulega berast fregnir af því að mannúðar- og uppbyggingarverkefnum hafi verið hætt.

Í þessu óvissuástandi er Rauði hálfmáninn mikilvægari en nokkru sinni. Hann fer hvergi þótt aðrir neyðist til að hörfa. Sjálfboðaliðar sómalska Rauða hálfmánans, rétt eins og annarra landsfélaga um allan heim, eru heimafólk. Á þá stóla samfélögin sem þeir tilheyra og það breytist ekki þótt fjárframlög séu skorin niður. „Í ljósi þessarar breyttu stöðu skiptir mjög miklu máli að áfram sé stutt við bakið á sómalska Rauða hálfmánanum,“ segir Natalia.