Alþjóðastarf
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
04. nóvember 2025
Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.
Rúmlega ein milljón króna, sem almenningur hér á landi lét af hendi rakna í kjölfar jarðskjálftanna miklu í Mjanmar, mun renna til Rauða krossins þar í landi í samvinnu við danska Rauða krossinn. Sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Mjanmar hafa veitt þúsundum neyðaraðstoð, aðhlynningu og margvíslegan stuðning frá því að skjálftarnir urðu þann 28. mars síðastliðinn. Líkt og í öðrum meiriháttar náttúruhamförum var öll hreyfing Rauða krossins virkjuð til að mæta þörfum Mjanmara og var neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi hluti af því viðbragði.
„Jarðskjálftarnir í Mjanmar settu heilu samfélögin bókstaflega á hliðina,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi. „Og þótt sjö mánuðir séu liðnir frá hamförunum er enn mikið uppbyggingarstarf fyrir höndum, ekki síst við að aðstoða fjölskyldur að ná að fóta sig á nýjan leik.“
Fyrsti skjálftinn sem varð í Mjanmar þann 28. mars var 7,7 stig að stærð. Í kjölfarið fylgdu margir eftirskjálftar. Yfir 3.800 manns létust, rúmlega 5.000 slösuðust og að minnsta kosti 260 þúsund manns urðu heimilislaus. Afleiðingar skjálftanna snertu yfir sautján milljónir manna. Rúmlega 9 milljónir búa á því svæði sem varð verst úti.
Jarðskjálftarnir í Mjanmar voru enn eitt áfallið sem íbúar landsins hafa þurft að þola síðustu misseri. Flóð og hitabylgjur, þrengingar í efnahagslífi og vopnuð átök eru meðal þeirra rauna sem fólk hefur gengið í gegnum að undanförnu. „Stór jarðskjálfti einn og sér er risavaxin áskorun,“ segir Gísli Rafn. „Þegar hann bætist ofan á margþættan vanda skiptir sköpum að grípa og styðja við viðkvæmustu hópa samfélagsins.“ Það hafi sjálfboðaliðar og starfsfólk Rauða krossins í Mjanmar gert eftir fremsta megni allar götur frá því að skjálftarnir riðu yfir.
Fyrstu viðbrögð mjanmarska Rauða krossins fólust m.a. í tafarlausri neyðaraðstoð. Fyrsta hjálp, bæði líkamleg og sálræn, var veitt. Sett voru upp neyðarskýli og hjálpargögnum dreift. Þá var komið fyrir færanlegum heilsugæslustöðvum, tímabundnar vatnsveitur settar upp sem og salernisaðstaða.
Langtímaverkefni eru mörg og beinast m.a. að endurbyggingu húsnæðis, endurheimt lífsviðurværis og eflingu viðnámsþráttar samfélaga. Áfram verður fólki veittur sálfélagslegur stuðningur og á fót sett verkefni sem miða að því að efla seiglu viðkvæmra hópa, m.a. barna. „Félagar okkar í Rauða krossinum í Mjanmar eiga enn stórt og mikið verkefni fyrir höndum,“ segir Gísli Rafn. „Við erum stolt af því að geta stutt við starf þeirra með framlögum frá almenningi á Íslandi.“
Rauði krossinn á Íslandi þakkar öllum þeim sem lögðu neyðarsöfnun félagsins vegna jarðskjálftanna í Mjanmar kærlega fyrir veittan stuðning.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Smíðuðu búð og söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 03. nóvember 2025Framkvæmdagleði, dugnaður og hjálpsemi einkennir vinkonur úr Engjaskóla í Grafarvogi sem gerðu sér lítið fyrir nýverið og smíðuðu búð og seldu þar handverk sem þær sjálfar höfðu búið til. Allt var þetta gert til að hjálpa öðrum.
„Við viljum hjálpa börnum og bara öllum“
Almennar fréttir 29. október 2025Þrír níu ára gamlir vinir úr Kársnesinu í Kópavogi gengu í hús og báðu um hluti til að selja á tombólu. Þannig söfnuðu þeir 8.571 krónu fyrir Rauða krossinn.
Hvetja vinnustaði til að bjóða upp á skyndihjálparnámskeið
Innanlandsstarf 27. október 2025„Skyndihjálparnámskeið ættu auðvitað að vera hluti af öryggismenningu allra vinnustaða að okkar mati,“ segir Hildur Vattnes Kristjánsdóttir, teymisstjóri skyndihjálpar hjá Rauða krossinum. Á skyndihjálparnámskeiðum öðlast fólk þjálfun og færni í að bregðast hratt, rétt og örugglega við í óvæntum og erfiðum aðstæðum.