Fara á efnissvæði

Alþjóðastarf

Stjórnvöld fordæmi brot á mannúðarlögum hátt og skýrt

26. ágúst 2025

Framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi segir það tilfinningu margra sem vinna hjá mannúðarsamtökum að alþjóðasamfélagið sé að bregðast, að ekki sé verið að fordæma nógu hart þegar hjálparstarfsmenn eru drepnir og ekki sé verið að beita þá sem ekki fylgja alþjóðlegum mannúðarlögum nægum þrýstingi. 

Fólk á vegum palestínska Rauða hálfmánans sinnir særðum, veikum og slösuðum á Gaza. Hér er hlúð að barni í sjúkrabíl félagsins.

„Það er mikilvægt að stjórnvöld alls staðar, líka í litlum, friðsælum ríkjum eins og Íslandi, leggi áherslu á virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum og fordæmi hátt og skýrt þegar þau eru brotin,“ sagði Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 um stöðu mannúðaraðstoðar í heiminum. Tilefni viðtalsins var alþjóðadagur hjálparstarfsfólks sem er 19. ágúst ár hvert.

„Það er í raun þannig að hjálparstarfsmenn hlaupa í átt að hættunni þegar aðrir eru að flýja,“ sagði Gísli um það lífsbjargandi starf sem sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins, Rauða hálfmánans og annarra hjálparsamtaka sinna á hamfara- og átakasvæðum. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, sem nær öll ríki heims hafa skrifað undir, eiga hjálparstarfsmenn að njóta verndar. „Það er hins vegar skelfilegt að horfa á tölfræðina. Á síðasta ári voru 383 hjálparstarfsmenn drepnir við störf.“

Gísli Rafn Ólafsson, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Þetta mjög svo mannskæða ár voru 38 starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans drepnir við störf sín. Inni í þessum tölum eru ekki þeir sem drepnir eru í og við heimili sín eða á öðrum vettvangi utan vinnu. „Það sem vekur mikinn ótta nú,“ sagði Gísli, „er að það sem af er ári hafa 265 hjálparstarfsmenn látist við störf, þar af átján starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Ef fram heldur sem horfir þá munum við sjá fleiri hjálparstarfsmenn látast á þessu ári heldur en nokkuð ár hingað til.“

Alþjóðasamfélagið brugðist

Gísli sagði það tilfinningu margra sem vinna hjá mannúðarsamtökum að alþjóðasamfélagið sé að bregðast, að ekki sé verið að fordæma nógu hart þegar hjálparstarfsmenn eru drepnir og ekki sé verið að beita þá sem ekki fylgja alþjóðlegum mannúðarlögum nægum þrýstingi. Sú staða sem nú sé uppi hafi áhrif á vilja fólks til að starfa við þessar aðstæður. „Það eru mýmörg dæmi um það að hjálparstofnanir hafi dregið starfsemi sína til baka, hreinlega vegna þess að öryggi starfsmanna og sjálfboðaliða er ekki nægilegt. Það er skelfilegt vegna þess að það dregur úr möguleikum okkar til að hjálpa fólki sem er að verða fyrir afleiðingum þeirra átaka sem eiga sér stað á mörgum stöðum í heiminum.“

Íranski Rauði hálfmáninn sinnti fjölda erfiðra verkefna er átök brutust út í júní. Fimm starfsmenn og sjálfboðaliðar létust við störf sín.

Gísli var einnig spurður um traust til stofnana og samtaka sem sinna mannúðarstarfi í ljósi aukinnar upplýsingaóreiðu. Hann sagði hjálparsamtök hafa orðið fyrir barðinu á slíku, rétt eins og aðrir hlutar samfélagsins. „Það skelfilega við upplýsingaóreiðu gagnvart hjálparstofnunum er hins vegar það að hún dregur úr trausti og dregur úr þessari vernd sem hjálparstarfsmenn eiga að hafa.“

Hann tók sem dæmi þegar því sé ranglega haldið fram að sjúkrabílar á vegum Rauða krossins eða Rauða hálfmánans séu notaðir til að flytja eitthvað misjafnt milli staða. Í þessu sambandi rifjaði hann upp ástæður þess að Rauði krossinn var stofnaður fyrir meira en 160 árum. Þá hafi hræðilegar afleiðingar stríðs orðið til þess að fólk gerði sér grein fyrir að hafa þyrfti hlutlausan aðila sem gæti gengið á milli stríðandi fylkinga, hjúkrað særðum, aðstoðað við fangaskipti, fjölskyldusameiningar, dreifingu hjálpargagna og fleira. „Þetta er það sem starf Rauða krossins hefur frá upphafi byggt á,“ sagði Gísli. „Og það skiptir því rosalegu máli að við getum haldið áfram að starfa á átakasvæðum, án þess að eiga á hættu að upplýsingaóreiða sé að gera það að verkum að líf starfsmanna sé í hættu.“

Ráðist hefur verið á sjúkrabíla og bráðaliða palestínska Rauða hálfmánans á Gaza. Átta sjálfboðar og starfsmenn létust í einni og sömu árásinni í mars.

Samkvæmt Genfarsáttmálanum, sem eru hin alþjóðlegu mannúðarlög, eru ríki ekki aðeins skyldug til að vernda hjálparstarfsmenn heldur líka til að fræða sitt fólk, sína hermenn, um hvaða lög gilda í stríði. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur bent á að nú þegar ríki heims eru að fjárfesta sífellt meira í hernaði þurfi þau samhliða að fjárfesta í aukinni fræðslu um mannúðarlögin.

„Það hafa aldrei verið fleiri átök í gangi á sama tíma eins og akkúrat núna,“ sagði Gísli. En engu að síður séu mörg ríki að skera niður fjármagn til hjálparstarfs. „Það er að gera það að verkum að það er miklu erfiðara fyrir okkur að starfa víða, að geta veitt þá aðstoð sem þarf að veita, á tímum þar sem aldrei fleiri hafa í raun þurft á mannúðaraðstoð að halda. Það er skelfilegt að horfa upp á.“

Hernaður og varnarmál fá sífellt stærri hluta af kökunni hjá mörgum ríkjum. „Við verðum að vona að sú stefna sem er hér á landi um þróunar- og mannúðaraðstoð, þar sem stefnt er að því að hækka upphæð ár frá ári næstu árin, haldi þrátt fyrir allar þær breytingar sem eru að gerast í heiminum.“

Heilbrigðisstarfsfólk á vegum palestínska Rauða hálfmánans hlúa að særðum börnum á Gaza í ágúst stíðastliðnum. Mynd: PRCS

Gísli var að endingu spurður hvort að það væri að verða viðtekin venja að mannúðarlög væru brotin og ekki fyrir það refsað – og hvað væri hægt að gera í þeim efnum. Alþjóðlegir dómstólar taka slík mál fyrir en þau taka að sögn Gísla mjög langan tíma og refsimöguleikarnir séu að sama skapi litlir.

„Það sem skiptir hins vegar líka máli, og þarf að gera, er að fordæma þegar þessi lög eru brotin,“ sagði Gísli um hvað væri til ráða. „Það þarf að finna leiðir til þess að tryggja það að alls staðar þar sem átök eru sé verið að fara eftir þessum lögum og þegar það er ekki gert þá hafi það einhverjar afleiðingar. En því miður, þá eru tólin sem við höfum í dag ekki nægileg til þess að tryggja það að spítalar, heilbrigðisstarfsfólk, sjúkrabílar, hjálparstarfsfólk og almennir borgarar, sem allir njóta verndar undir Genfarsáttmálanum, að líf og öryggi þeirra sé tryggt.“