Alþjóðastarf
Um tíu milljónir söfnuðust fyrir íbúa Gaza
14. mars 2025
„Þörfin fyrir mannúðaraðstoð á Gaza er yfirþyrmandi,“ segir Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri alþjóðaverkefna hjá Rauða krossinum.
Tæplega tíu milljónir króna söfnuðust í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi (RKÍ) fyrir íbúa Gaza. Söfnunin hófst í janúar og er nú lokið. „Enn og aftur sýna landsmenn að þeir eru til staðar fyrir fólk í mikilli neyð,“ segir Sólrún María Ólafsdóttir, teymisstjóri alþjóðaverkefna hjá Rauða krossinum.
Söfnunin var svar við neyðarbeiðni palestínska Rauða hálfmánans sem er landsfélag Rauða kross hreyfingarinnar rétt eins og Rauði krossinn á Íslandi. Féð mun nýtast til vel skilgreindra verkefna sem miða fyrst og fremst að því að reyna að tryggja aðgang fólks að heilsugæslu, mat, hreinu vatni og skjóli.

„Markmiðið er að veita íbúum Gaza lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð,“ segir Sólrún. Um tvær milljónir þeirra eru á vergangi og yfir 90 prósent af öllu íbúðarhúsnæði á Gaza hefur skemmst eða eyðilagst. Þá er heilbrigðisþjónusta í lamasessi.
Palestínski Rauði hálfmáninn gegnir lykilhlutverki í því að veita aðstoð á Gaza sem og við að bregðast við þörfum á Vesturbakkanum. Þá er stuðningur einnig veittur fólki sem neyðst hefur til að flýja Gaza til nágrannalanda. „Félagið hefur sinnt mannúðarstarfi í Palestínu í áratugi og hefur því gríðarlega reynslu og nýtur sömuleiðis mikils trausts,“ bendir Sólrún á.
Mannúðaraðstoð við íbúa Gaza hefur verið mjög sveiflukennd síðustu mánuði. Möguleikar hjálparsamtaka og stofnana til að veita slíka aðstoð eru takmarkaðir og tryggja þarf öryggi allra sem að koma, bæði starfsfólks, sjálfboðaliða og íbúa. „Þörfin fyrir mannúðaraðstoð á Gaza er hins vegar yfirþyrmandi,“ segir Hrafnhildur Sverrisdóttir, verkefnastjóri alþjóðaverkefna hjá Rauða krossinum. „Það er skortur á mat, hreinu drykkjarvatni, húsaskjóli, hreinlætisvörum og hreinlætisaðstöðu, lyfjum og heilbrigðisaðstoð og svo mætti áfram telja.“

Neyðarbeiðni palestínska Rauða hálfmánans hljóðar upp á rúmlega 443 milljónir Bandaríkjadala eða um 60 milljarða íslenskra króna. Auk Rauða krossins á Íslandi hafa mörg önnur landsfélög svarað kallinu, m.a. Rauði krossinn í Svíþjóð og Noregi. Landsfélögin sinna hvert fyrir sig eftirliti samkvæmt samningum.
Hætta á dýpri mannúðarkreppu
Samið var um vopnahlé á Gaza um miðjan janúar og jókst þá aðgangur samtaka og stofnana að svæðinu með neyðargögn. Alþjóðaráð Rauða krossins (ICRC) segir að vopnahléð hafi reynst mikilvægt til að bjarga mannslífum, koma mannúðaraðstoð á framfæri og halda almennum borgurum á lífi. „Hins vegar er mannúðarkreppan á Gaza langt frá því að vera yfirstaðin,“ segir í nýrri tilkynningu ráðsins. Sendingum á hjálpargögnum hafði fjölgað verulega frá upphafi vopnahlésins „en þær eru enn sem komið er aðeins dropi í hafið miðað við gríðarlegar þarfir á svæðinu“.
Stöðvun aðstoðar núna, segir í tilkynningunni, þar á meðal lokun rafmagns til einu afsöltunarstöðvarinnar á Gaza, gæti steypt Gaza „enn dýpra í bráða mannúðarkreppu“. Áhrifin eru að sögn ráðsins þegar farin að sjást í verðhækkunum og skorti á nauðsynjavörum.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Börn með skotsár á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins
Alþjóðastarf 03. júlí 2025„Við höfum séð allt að 200 særða á einum degi; með skotsár, brunasár, sár eftir sprengjubrot og aðra áverka,“ segir hjúkrunarfræðingur sem starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah. „Við fáum til okkar börn með skotsár.“

„Ein besta ákvörðun sem ég hef tekið í lífinu“
Innanlandsstarf 02. júlí 2025Að vera sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum hefur þroskað Ingibjörgu Ástu Bjarnadóttur bæði persónulega og í starfi. „Hjá Rauða krossinum hef ég fengið tækifæri og traust til þess að koma mínum eigin hugmyndum á framfæri, og stuðning til þess að láta þær verða að veruleika.“

Fjármögnun neyslurýma áskorun um alla Evrópu
Innanlandsstarf 25. júní 2025Þrátt fyrir að neyslurými fyrir vímuefni hafi fyllilega sannað gildi sitt gagnvart bæði einstaklingum og samfélögum glíma þau við sama vandamálið, hvort sem þau eru í Barcelona eða Borgartúni. Starfsfólk skaðaminnkunarverkefna Rauða krossins sótti upplýsandi ráðstefnu í Strassborg.