Innanlandsstarf
Aldrei fleiri samtöl vegna sjálfsvígshugsana
22. janúar 2026
„Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
Á síðasta ári var 1.728 sinnum haft samband við 1717, Hjálparsíma Rauða krossins, vegna sjálfsvígshugsana sem er oftar en nokkru sinni áður. Árið 2024 voru slík samtöl 1.035 talsins og er aukningin milli ára því 67%. „Þrátt fyrir að hafa reglulega yfir árið tekið saman tölur um fjölda sjálfsvígssamtala sem berast 1717, og vera meðvituð um að samtölin hafa verið að þyngjast og verða alvarlegri, þá er okkur brugðið yfir heildarsamantekt ársins,“ segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum.
„Við höfum séð ákveðinn stíganda í þessa átt í samtölunum undanfarin ár en það er eiginlega ekki hægt að orða það öðruvísi en að sprenging hafi nú orðið milli ára, bæði hvað varðar fjölda sjálfsvígssamtala en einnig í alvarleikanum,“ segir Sandra Björk Birgisdóttir, verkefnastjóri hjá Hjálparsímanum 1717. Í fyrra höfðu starfsmenn og sjálfboðaliðar sem svara í 1717 samband við Neyðarlínuna í 229 tilvikum. Þá var staðan metin þannig að viðkomandi væri að líkindum í lífshættu og þyrfti á bráðri aðstoð að halda.
Heildarfjöldi samtala árið 2025 var 20.233. Álíka margir hafa samband símleiðis og í gegnum netspjallið 1717.is. Ungt fólk er mun líklegra til að hafa samband um netspjall en þau sem eldri eru.
Sérþjálfað starfsfólk og sjálfboðaliðar
Hjálparsíminn 1717 er lágþröskulda þjónusta sem þýðir m.a. að þau sem hafa samband þurfa ekki að gefa upp persónuupplýsingar á borð við nafn eða aldur. Oft kemur aldur hins vegar fram í samtalinu og er þá skráður. Af samtölum á síðasta ári þar sem aldur var gefinn upp var 21 prósent frá einstaklingum yngri en 18 ára. Í 278 tilvikum snéru þau að sjálfsvígshugsunum og 103 sinnum er sjálfskaði skráður sem ástæða samtals. Ungt fólk á aldrinum 19-25 ára hafði 248 sinnum samband vegna sjálfsvígshugsana og 103 sinnum vegna sjálfskaða. Hafa ber í huga að stundum eru fleiri en ein ástæða fyrir hverju samtali.
Helsta ástæða samtala við börn undir 18 ára er almenn vanlíðan en oft nefna þau einnig ofbeldi, þar á meðal stafrænt, kvíða, sjálfsskaða og félagslega einangrun.
Starfsfólk og sjálfboðaliðar sem svara samtölum er berast Hjálparsímanum 1717 hafa hlotið sérstaka þjálfun í virkri hlustun og að veita sálrænan stuðning. Eðli samtala vegna sjálfshugsana er misjafnt. Þau geta verið allt frá því að viðkomandi sé með óljósar hugsanir í þá veru að hafa gert aðgerðaplan og jafnvel þegar skaðað sig.
Kostnaðarsamt að halda úti hjálparsíma
Þjónusta Hjálparsíma Rauða krossins stendur öllum landsmönnum sem þurfa aðstoð til boða, allan sólarhringinn – allt árið um kring. Hlutfallslega berast fleiri alvarleg samtöl á nóttunni þegar mörg önnur úrræði eru lokuð. Yngra fólk hefur gjarnan samband á nóttunni og þá í gegnum netspjallið.
„Margir eiga engan að til að deila með áhyggjum sínum, kvíða eða vanlíðan,“ segir Elfa Dögg um mikilvægi Hjálparsímans. „Þá skiptir öllu að geta hringt eða sent skilaboð í fullum trúnaði og fengið samtal við manneskju sem mætir þér af virðingu og hlýju.“
Augljós og vaxandi þörf er fyrir Hjálparsímann 1717 og algjört lykilatriði að þjónustan sé í boði allan sólarhringinn.
Það er kostnaðarsamt að reka hjálparsíma sem er opinn öllum stundum. Með styrk frá heilbrigðis-, félags- og húsnæðismála- og barna- og menntamálaráðuneytinu í fyrra var hægt að tryggja áframhaldandi opnun 1717 á næturnar. Framlög Mannvina Rauða krossins, hinna dýrmætu styrktaraðila verkefna félagsins, skipta svo sköpum í því að halda þjónustu Hjálparsímans úti.
Hér getur þú gerst Mannvinur og þannig létt fólki sem þarf á aðstoð að halda lífið.
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Þróunarsamvinna eflir öryggi og varnir Íslands
Almennar fréttir 21. janúar 2026„Þróunarsamvinna er grundvöllur friðar, stöðugleika, trausts og öryggis í heiminum,“ skrifa framkvæmdastjórar sex mannúðarfélaga. „Brýnt er að stefna Íslands í varnar- og öryggismálum taki mið af því og að litið verði á öfluga þróunarsamvinnu sem hluta af öryggishagsmunum Íslands.“
Úr einu hestafli í 180 á tæpri öld
Innanlandsstarf 06. janúar 2026Rauði krossinn hefur útvegað og rekið sjúkrabíla landsins allt frá árinu 1926. Á þeim tíma hefur hestöflunum sem notuð eru til sjúkraflutninga heldur betur fjölgað.
Fjögur frækin frændsystkini söfnuðu fyrir Rauða krossinn
Almennar fréttir 30. desember 2025Matthías Snorrason, Leó Bacchetti, Emma Högnadóttir og Óskar Snorrason fengu hugmynd og örkuðu þegar af stað til að safna pening í Vesturbænum fyrir Rauða krossinn.