Innanlandsstarf
Flóttafólk vill tækifæri til að tala íslensku
16. október 2025
Auður Guðjónsdóttir ákvað að gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum er hún hætti að vinna sem kennari. Hún kennir fólki á flótta íslensku og segir það gefandi og ánægjulegt að finna löngun nemendanna til að læra tungumálið okkar.
„Jæja, góðan daginn,“ segir Auður Guðjónsdóttir, kennari á eftirlaunum og sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum. Orð hennar eru endurtekin af hópi fólks sem situr fyrir framan hana í sal í Ársskógum í Reykjavík. „Jæja,“ segja þau, komin í kennslustund til að læra undirstöðuatriði íslenskrar tungu. Öll eru þau með flóttamannabakgrunn og koma frá ýmsum löndum; Úkraínu, Venesúela, Kólumbíu, Afganistan, Íran og Palestínu svo nokkur séu nefnd.
„Velkomin,“ segir Auður og hópurinn svarar einum rómi: „Takk fyrir.“
Hún heldur áfram að tala og hinir fúsu nemendur taka vel undir og taka góðan þátt líkt og heyra mátti í þættinum Samfélaginu á Rás 1. Viktoría Hermannsdóttir dagskrárgerðarkona leit við í kennslustund og ræddi við bæði Auði og nemendur hennar.
Rauði krossinn býður upp á tungumálakennslu fyrir fólk á flótta á nokkrum stöðum á landinu. Á höfuðborgarsvæðinu er m.a. kennt í félagsmiðstöðinni Ársskógum í Reykjavík.
Auður hóf að kenna fólki sem flúið hefur hingað til lands íslensku í sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn fyrir um fimm árum. Hún hafði starfað sem íslenskukennari, lengst af í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, en var hætt að vinna er hún sá auglýst eftir sjálfboðaliðum. „Og ég sló til,“ segir hún í Samfélaginu um sjálfboðastörf sín.
Oft eru í kringum 40 manns í hverjum tíma. Hver námslota stendur í nokkrar vikur og nemendur mæta tvisvar í viku. Að auki er fólkinu boðið að taka þátt í spjallhópum einu sinni í viku. Þeir eru minni og eru til þess gerðir að fólk geti æft sig að tala íslensku sín á milli og við sjálfboðaliða. „Flest kvarta þau yfir því að fá alltof fá tækifæri til að tala íslensku.“
Nýtt námskeið hófst í Ársskógum í lok september og í fyrsta tímann mættu hátt í fimmtíu manns. „Við vísum engum frá,“ segir Auður í þættinum og bendir á að í hverjum tíma séu yfirleitt 4-5 aðrir sjálfboðaliðar að sinna nemendahópnum.
Þau sem sækja íslenskunámskeið Rauða krossins eru misjafnlega vel undirbúin fyrir nám. Sum hafa jafnvel aldrei verið í skóla. Mörg þurfa að læra nýtt stafróf. Auður segir marga ná árangri á námskeiðunum en tekur fram að námið sé ekki formlegt og t.d. engin próf.
Sjálfboðastarfið er að sögn Auðar gefandi. Einnig sé ánægjulegt að finna löngun flóttafólks til að læra íslensku. „Mér finnst þetta dásamlegt,“ segir Auður. Hún mælir eindregið með því að fólk taki þátt í sjálfboðastörfum og bendir á að alls konar tækifæri til slíks séu í boði hjá Rauða krossinum.
Við hjá Rauða krossinum erum mjög stolt af því að hafa Auði og aðra sjálfboðaliða í okkar liði. Við tökum sannarlega undir hvatningu hennar til fólks að gerast sjálfboðaliðar. Þú getur sótt um hér.
Hér getur þú hlustað á umfjöllun Samfélagsins á Rás 1 um Auði og íslenskukennsluna. Innslagið byrjar á mínútu 40:40
Fréttir af starfinu
Fréttayfirlit
Samstaða sómalskra kvenna drifkraftur umbóta
Alþjóðastarf 06. nóvember 2025„Þrátt fyrir takmörkuð úrræði deila sómalskar konur þeirri öflugu hugsjón að konur séu konum bestar,“ segir Natalia Herrera Eslava, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum á Íslandi. Starf sómalska Rauða hálfmánans, sem Rauði krossinn á Íslandi styrkir, er mikilvægara nú en nokkru sinni.
Auglýsing um sögu Rauða krossins tilnefnd til verðlauna
Almennar fréttir 05. nóvember 2025„Saga Rauða krossins á Íslandi er löng og litrík og við lögðum mikla vinnu í að fanga rétta tilfinningu,“ segir hönnunarstjóri Strik Studio um tilnefningu til verðlauna á einni stærstu hönnunarhátíð Evrópu.
Söfnunarfé frá almenningi til Mjanmar
Alþjóðastarf 04. nóvember 2025Fé sem safnaðist í neyðarsöfnun Rauða krossins á Íslandi í kjölfar jarðskjálftanna í Mjanmar í lok mars mun nýtast Rauða krossinum þar í landi til áframhaldandi stuðnings við þolendur hamfaranna.