Fara á efnissvæði

Innanlandsstarf

Heimsóknarvinur með skýra forgangsröðun: Fólk fyrst

22. september 2025

Pálína Jónsdóttir, sem var í hópi fyrstu heimsóknavina Rauða krossins, snerti fallega við lífi margra á þeim hundrað árum sem hún lifði. Hún átti viðburðaríka ævi, var félagsvera sem fæddist í fámenninu á Hesteyri, fór út í heim eftir seinna stríð og hélt síðar stórt heimili í Reykjavík. „Hún var alla tíð með skýra forgangsröðun í lífinu: Fólk fyrst,“ segir dóttir hennar.

Pálína Jónsdóttir (Stella) ásamt dóttur sinni, Auðnu Ágústsdóttur, um það leyti sem hún varð heimsóknarvinur hjá Rauða krossinsum.

„Það er alveg óhætt að segja að mamma hafi tekið sér mjög margt fyrir hendur á lífsleiðinni og snert líf margra,“ segir Auðna Ágústsdóttir um móður sína, Pálínu Jónsdóttur, sem var lengi sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum og af mörgum kölluð Stella. „Eftir að foreldrar hennar kvöddu, sem hún hafði sinnt af alúð á meðan þau dvöldu á Hrafnistu, fannst henni hún hafa svo rúman tíma,“ segir Auðna. Þá hafi hún farið að vinna með Rauða krossinum. Sú hugmynd hafði fæðst, og móðir hennar kom þar að málum, að hefja verkefni sem kallað er í dag heimsóknarvinir. „Henni mömmu fannst svo margir vera einmana á heimilum sínum.“

Stella hóf að heimsækja konu sem átti erfitt með að tengjast og treysta öðrum. „En mamma gaf sér tíma til að ávinna sér traust hennar og náði að endingu mjög vel til hennar. Í meira en áratug heimsótti hún hana reglulega og þegar mamma ákvað níræð að hætta að keyra þá snerust hlutverkin við: Konan fór að heimsækja mömmu. Tók strætó til hennar. Sem hún hafði almennt ekki treyst sér til áður en að þessum tímamótum kom.“

Óseðjandi áhugi og gott skipulag

Og þótt Stella hafi fallið frá síðasta haust, á 101. aldursári, munu vinaverkefni Rauða krossins áfram fá að njóta gæsku hennar því hún arfleiddi félagið að 6,5 milljónum króna. Féð verður nýtt til áframhaldandi uppbyggingar verkefna sem miða að því að rjúfa einangrun fólks, styrkja það félagslega og efla seiglu þess. „Það er einmitt það sem mamma vildi,“ segir Auðna. „Hún var alla tíð með skýra forgangsröðun í lífinu: Fólk fyrst.“

Í þá öld sem Stella lifði tók hún þátt í margvíslegu félagsstarfi, menntaði sig fram á efri ár, naut menningar- og lista af ýmsum toga og af miklum móð, ferðaðist innanlands sem utan, stóð vörð um hag fjölskyldunnar og sinnti sjálfboðaliðastörfum. Hún var hraust og fróðleiksfús fram á síðustu daga. Vildi stöðugt læra eitthvað nýtt, sjá eitthvað nýtt og hafði unun af því að hitta fólk og ræða heimsins gagn og nauðsynjar.

Voru fleiri klukkutímar á sólarhringnum hjá mömmu þinni en okkur hinum?

„Það er von að þú spyrjir,“ svarar Auðna hlæjandi. Þannig hafi það nú ekki verið en með góðu skipulagi og óseðjandi áhuga gat hún sinnt fleiri hugðarefnum sínum en flestir. „Og hún gerði það af gleði,“ segir Auðna með áherslu. Hún hafi haft litla þörf fyrir að tala um sín góðverk við aðra eða fá stöðugt klapp á bakið. Sjálfboðaliðastörfin hafi verið sjálfsögð. „Ég hafði oft ekki hugmynd um allt sem hún var að stússast í þá stundina. Ég hefði til dæmis varla vitað að hún heimsótti fanga á Litla-Hraun og Sogn fyrir hönd Rauða krossins nema af því að hún lét vita af sér áður en hún lagði af stað yfir heiðar í vondum veðrum!“

Auðna Ágústsdóttir, dóttir Stellu, á heimili sínu í Reykjavík. Ljósmynd: Sunna Ósk Logadóttir

Pálína Guðrún Helga Jónsdóttir fæddist 28. júlí 1924 á Hesteyri í Jökulfjörðum. Það vill svo til að það sama ár var Rauði krossinn á Íslandi stofnaður. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Guðjónsson loftskeytamaður og Helga Sigurðardóttir húsmóðir. Á Hesteyri ólst hún upp í hópi fimm systkina til ársins 1936 er fjölskyldan flutti til Ísafjarðar.

Beinskeyttur dugnaðarforkur

Vestfirðingar, og ekki síst þeir sem uppaldir eru á einhverju harðbýlasta svæði landsins, sjálfum Hornströndum, kalla nú ekki allt ömmu sína, eins og sagt er. Dugnaður – og ef til vill líka þrjóska – er meðal annars sagt einkenna lund þeirra. Spurð út í þetta segir Auðna að vissulega hafi móðir hennar verið dugnaðarforkur sem sjálfsagt megi rekja til upprunans og uppeldisins. „Hún mamma lá sjaldan á skoðunum sínum, gat verið beinskeytt, og það voru nú ekki allir sem áttu auðvelt með það,“ segir Auðna og kímir. Í fámenninu á Hesteyri þurfti fólk að treysta á nágranna í blíðu og stríðu og mögulega bjó Stella að því alla ævi að eiga auðvelt með að bjóða öðrum aðstoð – og að þiggja hana.

Minntist oft Hesteyrar

Minningar Stellu frá æskuslóðunum voru margar og flestar til marks um sjálfstæði hennar allt frá unga aldri. Hún var til dæmis aðeins rétt um fimm ára er hún tók þátt í heyskap og teymdi hesta með bagga af túnum í fjallshlíðum við Hesteyri. Hún var ekki mikið eldri er henni var treyst til að fara með símskeytin úr loftskeytastöðinni og til viðtakenda í síldarstöðinni. Tólf ára gekk hún langa leið með litlu systur sína, sem hún var að passa, til Aðalvíkur að sækja vinnukonu. „Allt þetta þótti sjálfsagt í þá daga og ekkert sérstakt tiltökumál,“ segir Auðna.

Á Ísafirði gekk Stella í gagnfræðaskóla og að því námi loknu árið 1940 lá leiðin suður til Reykjavíkur í Kennaraskólann. Þaðan útskrifaðist hún árið 1944 og kenndi í framhaldinu við Barnaskólann á Patreksfirði.

Þá tók við kafli sem er ágætt dæmi um sjálfstæði Stellu: Hún fór til Evrópu. Fyrst til Parísar, til að fá vegabréfsáritun til áfangastaðarins Sviss. Þegar þangað var komið starfaði hún um tíma á barnaheimili. Er hún hafði náð tökum á þýskunni hóf hún nám í sérkennslu.

Heim var hún aftur komin árið 1949 og í lok þess árs giftist hún Ágústi Sigurðssyni, stofnanda og skólastjóra Námsflokka Reykjavíkur og yfirkennara hjá Kennaraskóla Íslands. Hann var ekkill og átti tvö ung börn sem Stella gekk í móðurstað. Saman eignuðust þau svo þrjú börn, Viðar, Hilmi og Auðnu.

Stella og Ágúst bjuggu fjölskyldunni heimili í Bólstaðarhlíð í Reykjavík. Þrátt fyrir að reka stórt heimili og vera útivinnandi hélt Stella áfram að mennta sig, bætti m.a. við sig prófgráðum í háskólanum í uppeldisfræði og tungumálum. Hún gaf sér ennfremur tíma til að svala þorsta sínum í listir og menningu og var til að mynda einn af stofnfélögum Kammermúsíkklúbbsins árið 1957, þá barnshafandi að Auðnu. „Mamma hafði nóg að gera á meðan ég var lítil,“ rifjar Auðna upp. „Hún tók okkur börnin með á listasýningar og í útilegur og það var oft mikil gleði í kringum okkur. Hún var góð móðir sem lagði áherslu á að við stæðum okkur og öðluðumst sjálfstæði.“

Þegar hún svo varð amma var flest látið eftir barnabörnunum. Hún tók sér leyfi frá kennarastarfinu til að gæta þeirra þar til þau fengju leikskólapláss og tengdist þeim sterkum tryggðarböndum. „Þau kunnu öll að meta hana og hún kunni svo sannarlega að meta þau öll, hvert á sinn máta,“ segir Auðna. „Hún sagði einu sinni: „Þau eru fullkomin eins og þau eru. Ekki reyna að breyta þeim“.“

Stella tók einnig börn vandalausra í aukatíma í dönsku, íslensku og fleiri fögum. „Hún hafði einstakt lag á því að ná til barna og hélt tengslum við mörg þeirra sem hún kenndi. Öll minnast þau hennar með mikilli hlýju og af vinsemd og virðingu.“

Stella að lesa fyrir Bjarka, Ólíver og Snorra.

Er Ágúst lést árið 1977 fór Stella til Danmerkur til frekara náms. Hún var þá rúmlega fimmtug, en bjó á stúdentagarði eins og samnemendurnir og sótti listviðburði við hvert tækifæri.

Þegar hún kom aftur til Íslands flutti hún í Kópavog. Og fljótlega fór hún að láta til sín taka í Kópavogsdeild Rauða krossins og var líkt og fyrr segir einn af fyrstu heimsóknarvinum félagsins hér á landi.

Drakk í sig þekkingu

Félagsstörfin áttu enn stóran sess og jafnvel stækkandi í tilverunni. Hún söng í kór, var félagi í Delta-Kappa-Gamma, alþjóðasamtökum kvenna í fræðslustörfum, tók þátt í menningarstarfi fyrir aldraða í Kópavogskirkju og sótti leikhús, sinfóníutónleika og myndlistarsýningar með systrum sínum og vinkonum. Alltaf opin fyrir einhverju nýju – alltaf að örva hugann með því að kynna sér nýjar hugmyndir, strauma og stefnur.

Síðustu æviárin bjó hún í fjölbýlishúsi í Kópavoginum þar sem myndaðist samheldið samfélag einstæðra kvenna. Með konunum tókst vinskapur og þær litu eftir hverri annarri. „Hún hafði alla tíð gaman af fólki og gat talað við alla og skipti þá engu hvar fólk stóð í pólitík eða hverjar skoðanir þess voru,“ segir Auðna.

Stella fór reglulega í hvíldarinnlögn á Grund. Hún var þar söm við sig, kom auga á þau sem fengu fáar heimsóknir og lagði sig fram við að kynnast þeim, tala við þau og sinna. Áfram hélt hún því að eignast nýja vini, komin fast að tíræðu.

Í kringum hundrað ára afmæli Stellu héldu félagar hennar í Delta-Kappa-Gamma sérstakan hátíðarfund henni til heiðurs. Auðna lét vita að um leið og mamma hennar færi að þreytast myndi hún koma og sækja hana. Stella lét sig ekki muna um að halda ræðu í boðinu og var síðan með þeim síðustu sem yfirgáfu samkvæmið. Það sama gerðist um svipað leyti er eitt barnabarna hennar útskrifaðist.

Þannig var hún. Félagsveran úr fámenninu á Hesteyri.

„Mamma skapaði sterk tengsl við marga á lífsleiðinni og lagði mikla rækt við að halda þeim tengslum,“ segir Auðna. „Hún var á undan sinni samtíð í ýmsu og var alltaf órög við að gera nýja hluti og kynnast nýju fólki. Mamma gaf okkur fjölskyldunni mikilvægt og gott veganesti út í lífið. Ég held að það sama megi segja um marga aðra sem hún kynntist á lífsleiðinni.“

Og áfram mun hún Stella gefa af sér.

Rauði krossinn á Íslandi er þakklátur fyrir að hafa fengið að koma við sögu í lífi Stellu og mun sjá til þess að arfurinn nýtist vel til góðra verka.